Tungumálið. Hinar mismunandi mállýzkur skilja e.t.v. áþreifanlegast á milli þjóðarbrotanna. Þær eru enn þá sprækar, þrátt fyrir blöndun þjóðarinnar, kennslu ríkismálsins og áhrif sjónvarps og útvarps. Tali hver með sínu nefi, eiga jafnvel samlandar erfitt með að skilja hvern annan. Ef Efri-Bæjari og Niður-Saxi ræddu saman, hvor á sinni mállýzku, þyrftu þeir túlk.
Áður en þýzka tungan varð til talaði fólk franknesku, saxnesku, bæversku o.fl. Þýzkan var lengi framan af aðeins til sem mállýzka. Ritmálið þróaðist smám saman á mjög flókinn hátt, þar til það öðlaðist núverandi grundvöll á 18. öld. Biblíuþýðing Marteins Lúters á 16. öld var mikilvægasti og ef til vill eini áfanginn á þessari krókóttu braut tungunnar.
Fyrstu rituðu merki þýzka málsins má finna í lítilli latnesk-þýzkri orðabók, Abrogans, frá 770. Ritað mál frá þessum fyrstu öldum fram til 1500 er núlifandi Þjóðverjum óskiljanlegt. Þeir verða að læra það sem annað tungumál, vilji þeir komast til botns í þróun móðurmálsins.
Í núverandi mynd er þýzkan móðurmál á annað hundrað milljóna manna. Hún er ríkismál í Þýzkalandi, Austurríki, Sviss og Lichtenstein. Sem alþjóðamál kemur hún á eftir ensku, frönsku, rússnesku og spænsku. Á minningarsviðinu er þýzkan áhrifameiri, því að tíunda hver bók, sem gefin er út, er á þýzku. Þýzkan er í þriðja sæti þeirra tungumála, sem þýtt er úr, á eftir ensku og frönsku og flestar bækur, sem þýddar eru á eitt tungumál, eru þýddar á þýzku.
Margir óttuðust, að aðskilnaður þýzku ríkjanna leiddi til austur- og vesturþýzkra tungna. Við nánari athugun virtist sú hætta ekki vera fyrir hendi. Stjórnmálalegur orðaforði ríkjanna var mismunandi en grunnorðaforðinn og málfræðin var hin sama og rótföst í ritmálinu. Þróunin varð frekar til að styrkja hina klofnu þjóð til að halda sama tungumálinu í báðum ríkjunum.