Hvert sem þessi grein ætti helst að fara ætla ég að setja hana hér inn, svo fólk með áhuga á málefninu geti viðrað skoðanir sínar á málefninu.
Um ofreynslu fingranna
Eins og tölvunotendur vita er óskaplega þægilegt að skrifa á lyklaborð. Flestir sem náð hafa taki á þeirri kunnáttu að skjóta hnitmiðað á rétta hnappa á réttum tíma eru fljótari að skrifa á lyklaborð en með penna á blað.
Svo vill þó bregða við að þegar höndin er boðin grípur maður allan handlegginn. Sumir hafa þannig vanið sig á að nota einungis þá hnappa sem eru í beinu skotfæri við fingurna. Stafir eins og Y, Ö og ýmsir kommustafir eru því úr sögunni hjá lötum hnappaskyttum.
Um ofreynslu tungunnar
Ekki er linmæli síður vert umfjöllunar. Orð eins og “koddu”, “þúst” og “eikkað” eru notuð jöfnum höndum í skrifum sem tali. Sá tregleiki fólks að safna örlitlu lofti í lungun til að bæta við áherslu á stafi, eða að hreyfa tunguna lítið eitt á meðan það talar jaðrar við að nenna ekki að sitja. Það þarf ósköp lítið til að bæta íslenskubeitingu, bara rétt hugarfar.
Um ofreynslu hugans
Ég hafði þessa grein sem stysta svo allir gætu tekið sér þann tíma að átta sig á sjónarmiðum mínum. Teygið nú úr fingrum ykkar og liðkið málbeinin.