NBA2K2
Playstation 2
Sega Sports hefur á undanförnum árum aflað sér mikla virðingu í íþróttaleikjabransanum. Fyrstu leikirnir sem vöktu athygli frá þeim voru NFL seríurnar og seinna meir NBA. Það er vitað mál að eftir að Sega Sports skárust í baráttuna við EA Sports þá hafa þeir síðarnefndu farið hallandi fæti. Til að mynda má nefna þegar NFL2K1 kom út á Sega Dreamcast á sínum tíma á móti Madden á Playstation 2 þá var sá fyrrnefndi að hljóta betri viðtökur meðal gagnrýnenda víðast hvar. En þar sem hér verður einblínt á er NBA2K2 fyrir Playstation 2.
Það eru engir aðrir en Visual Concepts eins og áður fyrr sem eru þróunaraðilar leiksins. Þeir eru þeir sömu og gerðu NFL og NBA leikina á Dreamcast vélinni. Fjöldann allann af breytingum og betrumbætum má finna í þessari útgáfu miðað við fyrirrennarann. í fyrsta lagi tekur maður eftir því að það er búið að bæta helling við götuboltann. Til að mynda er núna hægt að spila tveir á móti tveimur á fjöldann öllum af völlum eins og Rucker Park í New York og Venice ströndinni. Í öðru lagi er búið að hressa verulega upp á leikinn undir körfunni sem fyrir mitt persónulega álit skiptir miklu máli enda lék ég þá stöðu sjálfur á sínum tíma og aldrei fengið nógu og mikið út úr því eins og ég hefði viljað. Í þriðja lagi þá eru nýjir fréttamenn sem lýsa leiknum auk þess hægt er að fá fleiri upplýsingar um hitt og þetta tengt leiknum. Allir nýju búningarnar eru í leiknum og upplýsingar um leikmenn eru eins nákvæmar og ákjósanlegt er.
Í dag viljum við fá flottar kynningar og flotta grafík og það er nákvæmlega það sem spilendur fá beint í æð. Hljóðið er einnig magnað. Svo magnað að fólkið sem var inn í stofu hélt að ég væri að horfa á NBA leik í sjónvarpingu en ekki að spila tölvuleik. Valmyndakerfið er einnig mjög þægilegt og létt er að komast á milli staða og velja það sem maður ætlar að velja í stað þess að villast eins og oft einkennir íþróttaleiki. Visual Concept hafa farið sömu leið með valmyndakerfið eins og þeir gerðu í NFL leikjunum að nota kúlulaga munstrið. Í byrjun hvers leiks er opnunarhátíð eins og gengur og gerist í NBA þar sem gestirnir eru kynntir í hátalarakerfinu. Heimaleikmenn fá hins vegar nokkuð flottna lasersýningu og hvatningartónlist við kynningu þeirra. Allt þetta er mjög flott og bætir miklu við andrúmsloft leiksins. Leikvangarnir eru vel úr garði gerðir og eru allir hannaðir miðað við viðurkennda NBA leikvanga þannig að þeir séu viðkunnalegir þeim sem í þá hafa komið, jafnvel gólfið er mismundi á milli leikvanga.
Ég hefði líklegast viljað sjá NBA2K2 á Dreamcast líka en miðað við hvernig stýringin er útfærð á Dual Shock 2 þá kemur þetta allt heim og saman og í sjálfum sér hefði ekki getað verið útfært eins vel á Dreamcast. Það sem DS2 bætir við leikinn miðað við t.d. muninn á stýringunni á NBA2K1 er hversu mikla leikspilun hann gefur af sér og hversu gagnvirkur hann er. Líkamsástand leikmanna er einnig mismundi, til að mynda þegar maður sér Shaq, þá veit maður strax að þetta sé Shaq rétt eins og þegar maður sér Sean Bradley þá veit maður strax að þetta sé Bradley sjálfur.
Eitt sem vert að minnast á tengt atburðunum 11.september síðastliðnum að allir leikmenn eru með borða áletraðann USA á búningi sínum eins og þeir eru gera í NBA í dag. Auglýsingaskiltin meðfram vellinum hafa einnig ameríska fánann sem virðingu við það fólk sem lést þann hræðilega dag.
Það er leikspilunin sem gerir NBA2K2 mun betri en samrennara sína. Í sókninni þá eru takkarnir á þessa leið:
Kassinn skýtur, því lengra sem maður heldur honum inni því lengra drífur maður.
Hringurinn framkvæmir “crossover”, ef maður notar þetta með hægri pinnanum þá getur maður framkvæmt sérstakt “crossover” sem gefur manni örlítið forskot á að gera flotta takta.
R1 takkinn er Turbo takkinn. Maður verður að nota hann af gáð og best er að nota hann aðeins í hraða upphlaupum.
Með hægri stýripinnanum er hægt að kalla leikkerfi, hvert lið hefur 16 leikkerfi. Það er hægt að nota 4 kerfi í hverjum leik með því að smella á pinnan og velja þau í pop up valmyndinni.
Í vörninni eru takkarnir:
Hringurinn stelur boltanum.
Kassinn er til að blokka.
X er til að skipta um leikmann.
Í vítaskotum notast maður við báða pinnana til að raða tveimur örvum eins nálægt hvorum öðrum og einn af L1/R1/R2/L2 til að skjóta.
Af minni reynslu að dæma þá er eiginlega erfiðara að verða góður í vörn heldur en í sókn. Lærdómslína leiksins er góð en í multiplayer getur þetta orðið mjög ójafnt ef leikmenn hafa ekki sömu reynslu.
Það er um margar leiktegundir að velja. Í fyrsta sinn sem maður sér valmyndinna þá veit maður í sjálfum sér ekkert á hverju maður skal byrja enda er um fjöldann allann af allskonar vitleysu að velja :) En sem betur fer er “Quick Start” möguleiki sem maður getur valið til að komast beint í aksjónið. Leiktegundirnar eru:
“Exhibition” - Vinleikur á milli 2 liða, annað hvort í einstaklings- eða fjölspilun.
“Full Season” - Hér er hægt að spila 14, 28, 56 eða 82 leikja keppnistímabil annaðhvort einn eða með allt að 8 leikmönnum.
“Practice” - Þetta er upphitunin, mjög þægileg til að fá tilfinninguna fyrir leiknum.
“Tournament” - Hér getur þú sett upp þína eigin keppni gegn þínum vinum.
“Playoffs” - Hér sleppir maður við venjulegt leiktímabil og hoppar beint í úrslitakeppnina.
“Fantasy Mode” - Hér getur þú sett upp leikinn eins og þú vilt og virt að vettugi allar þær NBA reglur sem þú vilt.
Það er einnig “Street Mode” sem ég minntist á í byrjun og það er mjög skemmtilegur fítus fyrir fjölspilun. Í þessu eru nánar engar reglur og maður fær að spila úti. Þessi tegund er mjög vel gerð og bætir skemmtanagildi þessa leiks til muna.
“Create a Player” er einnig nokk skemmtilegt, þar sem maður getur búið til leikmann frá grunni, ákvarðað hæfni hans, útlitið og jafnvel látið hann heita “Sphere” :) - Ætla ekki ekki að gefa nánari lýsingu á því hvernig gaur ég bjó til :) - Alltaf gaman að hafa litla strengjabrúðu sem maður hefur sjálfur búið til og látið gera allan andskotann.
Að lokum, ef þú ert áhugamaður um körfubolta þá er þetta einmitt leikurinn fyrir þig. Samt sem áður ef þú fílar ekki körfu þá held ég samt að þú munir hafa áhuga á þessum. Visual Concepts og Sega hafa staðið sig mjög vel. Ég er ekki klár á því hvort þeir geri framhald og hvernig þeir munu gera betur en ég efast ekki um að það leynist eitthvað í pokahorni þeirra. Sega Sports seríunar eru á leiðinni á toppinn, allt frá hinum flotta NFL2K2 og núna að NBA2K2. Ég held að EA Sports þurfi að fara að setjast niður og hugsa sinn gang.
Kviðdómurinn: :)
Framsetningin: 8.2
Grafík: 7.9
Hljóð: 9.0
Leikspilun: 8.2
Ending: 9.3
Meðaltal: 8.52
Ykkar pREZsure-