Splashdown - Playstation 2 leikjarýni Splashdown - Playstation 2
Útgefandi: Infogrames
Þróunaraðili: Rainbow Studios
Tegund: Kappakstur
Uppruni: Bandaríkin
Fjöldi spilenda: 2

Nýlega var birt af undirrituðum “Hands on impression” fyrir þennan leik þegar hann fyrst kom út. Splashdown kom út í Bandaríkjunum á sama tíma og Grand Theft Auto III. Augljóslega féllu allir leikir sem gefnir voru út á þessum tíma í skugga þess meistaraverks sem GTAIII er.

Flestir eru sammála um að Rainbow Studios, þróunaraðili Splashdown, hafa ávalt skilað góðu dagsverki hvað varðar kappakstursleiki sem þurfa að endurspegla nánast fullkomna eðlisfræði hvað varðar hreyfingar, umhverfi, rennsli, tilfinningu og stjórnun. Sem dæmi hafa þeir gefið út leiki sem endurspegla slíkt eins og t.a.m. Motocross Madness sem gerður er fyrir PC samhæfðar og ATV Offroad Fury sem gefinn var út fyrir Playstation 2 snemma á þessu ári. Það sem gefur leikjum þeirra svo mikið gildi fram yfir samskonar leiki eins og Wave Rally er að þeir passa sig ávalt á því að stjórnun leiksins fari aldrei yfir í hermi heldur haldi sig við spilakassastjórnunina. Þar af leiðandi kemst fólk fyrr inn í leikinn, lærir mun fyrr á hann og þarf þar af leiðandi ekki að hanga í endalausum kennslum (tutorials) sem endurspegla á engann hátt skemmtanagildi leiksins og gerir það að verkum að fólk mun leggja frá sér stýripinnann snemma án þess að gefa leiknum það tækifæri sem hann verðskuldar.

Eins og áður hefur verið sagt hefur Rainbow Studios ávalt gert mikið úr góðu rennsli og stjórnun þessa leiks er hreint út sagt æðisleg. Miðað við að hafa prófað sjálfur sjósleða í Florída þá er tilfinningin í stjórnun Splashdown keimlík raunveruleikanum. Vinstri hliðræni stýripinninn á Dual Shock stýripinnanum er augljóslega notaður til að stýra sleðanum og líkamshreyfingum ökuþórsins. Með því að ýta fram þá leggst ökuþórinn fram á sleðann og gerir það að verkum að auðveldara er að ná beygjum á sneggri vegu heldur en ella þar sem sleðanum er ýtt ofan í vatnið. Jafnframt því þegar maður ýtir til baka á stýripinnanum þá prjónar sleðinn lítillega og gerir það að verkum að vél sleðans nær meiri dýpt í vatninu og þar af leiðandi verður meiri hraðaaukning. Gefur þá að skilja að ef maður heldur stýripinnanum aftur á bak þá verður mun erfiðara í alla staði að beygja með sleðanum. Það er á þínu valdi að nota samhæfni hvoru tveggja þessara eiginleika til þess að eiga möguleika á sigri þegar farið er á “normal” eða “hard” styrkleika. Það virkar þá ekki að halda inni bensíngjöfinni og stýra á milli böjanna, þú munt ekki eiga einn einasta sjéns. Til þess að fá sem mest út úr sleðanum verður maður að auka sem mest hraðann þegar maður hefur tækifæri á því og hægja síðan jafn mikið á honum til þess að mæta beygjum og hindrunum.

Það sem meira er þá notar leikurinn ágætis áhættukerfi sem gefur þér aukakraft eftir því hversu oft og lengi þú nærð að gera áhættuatriði, t.a.m. þegar þú ert í lausu lofti að hanga á sleðanum eins og Súpermann eða snúa þér 360 gráður á sleðanum. Sjón er sögu ríkari. Samt sem áður getur maður ekki stólað á þá lausn að gera flott trick og klára brautirnar á methraða. Það eru alls 18 brautir í leiknum hver annari ólíkari og flottari á sinn hátt frá mörgum stöðum í heiminum. Það er sem er svo frábært við hverja eina og einustu braut er að hún er pakkfullt af leynileiðum og skemmtilegum stöðum sem gera hana sérstaka út af fyrir sig. Eftir að hafa átt leikinn í rúmar 3 vikur og spilað hann upp á hvern einn og einasta dag þá hef ég aldrei fengið þennan endurtekningarleiða sem einkennir flesta kappaksturleiki. Þetta er besti vatnskappakstursleikurinn.

Ársins 2001 verður líklegast minnst fyrir bestu vatnseffecta. Margir leikir hafa verið sýndir á þessu ári sem sýna mjög eðlilega vatnseiginleika, ekki bara kappakstursleikir eins og Splashdown heldur leikir eins og Ico og Baldur´s Gate Dark Alliance. En Splashdown á vinningin yfir bestu eiginleikana. Hann er kannski ekki með stærstu öldurnar en eins og vatnið lítur út í honum þá er þetta það besta sem á verður kosið. Það er svo merkilegt að sjá hvernig ljósið endurspeglast á vatninu, hvernig það hreyfist og hvernig það hefur áhrif á sleðann þinn og önnur tæki eins og báta í höfninni osfrv. Vatnið er meira að segja gegnsætt á sumum borðunum, sérstaklega þeim sem gerast á karabískueyjunum og maður getur séð tærleikann rétt eins og maður hefði ímyndað sér fullkomnuna við að vera þarna á staðnum. Hreyfingar ökuþóranna eru líka vel gerðar og nákvæmar, það er ekkert hikst í þeim og hver hreyfing sama hvort það sé verið að teygja á öxl eða beygja hné er mjúk sem smjér :). Samt er hægt að kvarta þar sem leikurinn keyrist aðeins á 30 römmum á sekúndu í stað 60. Þetta skiptir mjög litlu máli í þessu tilviki þar sem hraðatilfinningin á svona sleða hefur lítið með raunveruleikaskyn fólks að gera að því leitinu til eins og það hefur með bílaleiki að gera. Þ.e.a.s. hvernig fólk skynjar hraðann á sjósleða og síðan í bíl. Tel að þar liggi munurinn í sjálfum sér og fólk muni ekki sjá muninn hvort eð er.

Tónlistin er fantaflott. Undirritaður var ekki lengi að safna saman öllum titlunum á .mp3 og skella þeim á einn CD-Audio disc sem hefur nú verið í bílnum síðustu 2 vikur og ekkert annað komist að. Undirritaður minntist á tónlistina í “Hands on impressions” fyrr í mánuðinum og þrátt fyrir það kemur hér heildarlistinn yfir þau lög sem eru í leiknum:

Sum 41 “All She's Got”
Sum 41 “Rhythms”
Smash Mouth “All Star”
Groovie Ghoulies “Chupa Cabra”
Groovie Ghoulies “Graceland”
The Donnas “You've Got A Crush On Me”
Man or Astro-man? “A Mouthful of Exhaust”
SR-71 “Right Now”
KMFDM “son of a Gun”
Blink 182 “The Rock Show”
Otis “Hold Your Breath”
The Dude “Rock Da Juice”

Lagið Right Now með SR-71 er titillag leiksins og er að mínu áliti til eitt það besta af þeim öllum til að koma manni í þann fíling að spila leikinn sundur og saman tímunum saman. Vélahljóðin og aðrir effectar í leiknum eru ágætlega vel unnir, vélahljóðið endurspeglar alvöru sjósleðavél og eykur raunveruleikatilfinninguna mjög mikið. Einnig eru raddir í leiknum, raunverulega hefur undirritaður aldrei haft mikið upp úr því að heyra fólk hrósa sér að niðurlægja sig í leiknum þannig að því var slökkt á þegar fyrst var farið í gegnum Options. Að auki er hægt að velja Dolby Pro Logic sem enn gefur leiknum þessa raunveruleika tilfinningu sem undirritaður hefur svo oft fjallað um í rýni þessu.

Þegar undirritaður birti “Hands on impression” var umsvifalaust spurt hvernig leikurinn spilast á móti Wave Race: Blue Storm á Nintendo Gamecube eða á móti Wave Rally frá Eidos á Playstation 2. Í sannleikanum sagt þá eru þeir ólíkir að því leitinu til að Splashdown er sjósleða leikur þar sem sjósleði er tveggjamanna sleði en bæði Wave Race og Wave Rally eru “Jet-Ski” leikir sem eru einstaklingssleðar. Munurinn er sá að á “Jet-Ski” hallar maður sér fram til að fá aukinn hraða en á sjósleða hallar maður sér afturábak. Splashdown er án efa sá flottasti af þeim þrem, hinir tveir hafa kannski hærri öldur en leikspilun Splashdown er svo æðisleg að fátt verður orða líst.

Pressure (ScOpE)

Dómurinn:

Framsetning: 9.4
Grafík: 9.7
Tónlist: 8.5
Leikspilun: 9.6
Ending: 8.0

Meðaltal: 9.0