Svona til að fá það á hreint: Monkey Island 1 var gefinn út árið 1990, og Monkey Island 2 árið 1991. Monkey Island 1 var endurútgefinn á geisladisk árið 1994, en bara með betri tónlist, engu tali var bætt við leikinn.
Monkey Island-leikirnir eru, eins og myndin sem fylgir greininni sýnir, eftir mann sem heitir Ron Gilbert. Hann er heilinn á bak við leikina, skapaði persónurnar og skrifaði söguna. Þess vegna er svona gott “samband” á milli þessara tveggja leikja: Þeir voru gerðir af sama forritunarliðinu (undir leiðsögn Gilberts) og með einungis árs millibili.
Þegar Monkey Island 2 var langt kominn, komu upp deilur á milli Gilberts og LucasArts, sem leiddu til þess að Gilbert hætti störfum þar. En fyrst þurfti hann að klára MI2, og þá ákvað Gilbert, til að koma í veg fyrir að LucasArts gætu haldið seríunni áfram án hans, gerði hann þennan enda á Monkey Island 2 sem er til staðar. Þessi endi er meira en minna skrýtinn, en flestir eru þó sammála um að þetta hafi tekist vel…þrátt fyrir að Ron Gilbert hafi mistekist á endanum.
Til að snerta aðeins á Monkey Island 3…að mínu mati er leikurinn ekki eins góður og fyrstu 2 leikirnir, en hann er samt þrusugóður. Það kom mér á óvart hversu góður leikurinn var í raun, og sérstaklega hversu vel Guybrush sjálfur hljómar.
Því minna sem sagt er um MI4, því betra.
“Orðrómurinn” um MI5 er þessi, að þegar þú spilar MI4, þá er oft talað um fimmta leikinn, og þá eins og hann verði seinasti leikurinn. En eins og staðan er núna hjá LucasArts, þá vona ég að leikurinn verði ekki gerður.
En til að gefa mína persónulegu skoðun á LucasArts-leikjunum, þá finnst mér Grim Fandango vera frábær leikur, fyrir utan þetta helvítis stýrikerfi. En uppáhalds LucasArts-leikurinn minn er líka einn sá elsti, og einn sá sjaldgæfasti, en það er Loom.