Við hjónin fengum gesti utan að landi um daginn, hjón sem eru æskuvinir mannsins míns.
Eftir kaffisopa og spjall um börnin og lífið og tilveruna, kom upp hellisbúinn í manninum mínum og hann þurfti að fara að sýna allar nýju flottu græjurnar sínar.
“Svo vorum við að kaupa okkur þessa leikjatölvu” sagði hann og dró fram nýju flottu leikjatölvuna og kveikti á sjónvarpinu, “Hún er rosaleg flott og geðveik grafík, viljið þið prófa ?”
Áður en vinur hans gat svo mikið sem svarað, stóð konan hans upp og sagði : “jæja, við verðum að fara núna.”
——————–
Vinahjón okkar voru að flytja í nýtt hús og þegar við mættum í heimsókn, fengum við “sýningartúrinn”, það var eldhús og barnaherbergi og hjónaherbergi og allt þetta venjulega.
“Svo er hérna hitt barnaherbergið eða dótaherbergið” sagði konan hæðnislega við okkur og opnaði einar dyr. Þetta var skrifstofan eða réttara sagt tölvuherbergið og inni sat maðurinn vandræðalegur eins og barn sem var að gera eitthvað af sér !
——————–
Ein vinkona mín spurði mig um daginn hvort mér fynndist ekki leiðinlegt að maðurinn minn væri svona mikið í tölvunni. Ég gapti á hana og skildi ekki hvað hún átti við.
“Nei, afhverju ?”.
“Æ, það fer svo í pirrurnar á mér þegar minn maður er mikið í tölvunni, finnst þetta svo mikil tímaeyðsla.”
Ég starði á hana enn “blanco”, en sagði svo :”jaaa, ég er svo mikið í tölvunni líka og við erum svo oft að leika okkur saman að mér finnst þetta ekkert mál.”
Hún varð leið og sagði að það væri líklega málið, hún hefði engan áhuga á tölvum eða tölvuleikjum.
“Hefurðu prófað einhvern tölvuleik ?” spurði ég þá í sakleysi mínu.
“Nei, ekki nema Mario Bros fyrir 20 árum !” var svarið.
——————–

En það er akkúrat málið !
Fæstar konur spila tölvuleiki, ekki af því að þeim finnst það leiðinlegt heldur vegna þess að þær hafa aldrei prófað.
Flestar konur hafa nefnilega gófurlega fordóma gagnvart töluleikjum.
Ath að ég segi FLESTAR, það þýðir auðvitað EKKI að allar stúlkur/konur séu svona.

Á meðan þær eru ungar stúlkur og pæjur þá er það vegna þess að þeim finnst ekki “kúl” að spila tölvuleiki.
Og eftir að þær eru orðnar fullorðnar og þroskaðar þá er það vegna þess að tölvuleikir eru “bara fyrir börn”.

Þetta er bæði auðvitað kolrangt.
Það má vel vera að það sé “kúl” að verða “obbsessed” af tölvuleik og lifa og hrærast bara fyrir hann og geta ekki talað um neitt annað. En er þá ekki alveg eins “halló” að meiga ekki missa af einum einasta fótboltaleik í sjónvarpinu, öskra svo á það eins og vitleysingur og tala ekki um annað en “liðið sitt” og frammistöðu þess í tíma og ótíma ?
Er þá ekki alveg eins nördalegt að kaupa kakíbuxur, tennisbol og tösku fulla af prikum fyrir tugi þúsunda, æða svo út á tún og skjóta litlum hvítum kúlum út í buskan hverja einustu helgi ?
Er þá ekki alveg eins nördalegt að fara á hverja einustu bíómynd sem sýnd er og kunna nöfn á öllum leikurum í Hollywood.

Engum finnst “halló” að lesa bók eða að horfa á sjónvarp eða að leysa krossgátu !
En hver er munurinn á því og að spila tölvuleiki ?
Ég segi enginn – þetta er ný og skemmtileg tegund afþreyingar, þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Við þurfum ekki öll að spila byssuleiki og sprengja hvort annað í loft upp (þó ég geti lofað ykkur því að það er geðveikt kikk að drepa yfirmanninn sinn í vinnunni í Half-life)
Það eru til margar tegundir af leikjum. Það eru þessir skot leikir, svo eru hernaðarkænskuleikir, þar sem maður byggir upp landið sitt eða liðið sitt og þróar og fer svo í stríð við óvininn, ekki með því að æða og skjóta heldur með að byggja upp rétta tegund af liði og nota herkænsku.
Það eru Simulatorer, leikir sem herma eftir einhverju, t.d. SimCity þar sem maður er borgarstjóri og byggir upp borg, eða Zoo tycoon þar sem maður stjórnar dýragarði, eða SimGolf þar sem maður stjórnar uppbyggingu á golfvöllum, eða Pharao þar sem maður er egypskur höfðingi og stjórnar egypskum bæ og þarf t.d. að byggja píramída, nú og svo auðvitað Sims, þar sem maður stjórnar lífi fólks !
Svo eru hlutverkaleikir, þar sem maður bregður sér í hlutverk aðalsögupersónu í sögu og þarf að leysa fullt af þrautum og berjast við ógnir, og þroskast í gegnum leikinn og verður betri og betri. Þessir leikir geta gerst í fantasýuheimi, framtíðinni eða bara okkar tímum.
Svo eru auðvitað ævintýraleikir, þeir byggjast fyrst og fremst á góðri sögu og kanski flottri grafík, þeir virka líkt og kvikmynd eða bók nema maður stjórnar sjálfur ferðinni og getur í mörgum tilvikum breytt söguþræðinum eftir því hvaða leið maður fer.

Þetta er bara lítið dæmi – það er svo margt margt fleira og innan hvers flokkst eru hundruðir titla, með allavegana hugmyndum sem allir ættu að geta fílað ef þeir bara myndu prófa.

Því hvernig getur einhver sem horfir á Granna, og Friends og E.R. og Ally MacBeal og Buffy og alla þessa sjónvarpsþætti sagt að það sé meiri tímaeyðsla að spila tölvuleik en að horfa á þetta ?
Þetta er spurning um val og fjölbreytileika og tölvuleikir eru ekkert öðruvísi afþreying en allar hinar.

Svo eru það fullorðnu konurnar sem segja að þetta sé bara fyrir börn.
Hafið þið semsagt aldrei séð tölvuleik ?
Flestir tölvuleikir eru bannaðir börnum innan 12, 16 eða 18 ára og ber að virða það jafn vel og maður virðir kvikmyndir. Eða eru bíómyndir líka bara fyrir börn ?
Margir tölvuleikir eru líka svo flóknir að þó þeir séu ekki bannaðir börnum þá geta þau ekki skilið hvað á að gera, og ekki bætir það að þeir eru auðvitað allir á ensku.
Eða haldið þið að það sé auðvelt að vera borgarstjóri og sjá um skatta og félagsleg kerfi eða leynilögga sem þarf að leysa erfitt morðmál ?

Heima hjá mér er lítið tölvunet, og ég og maðurinn minn sitjum hlið við hlið í tölvunum okkar flest kvöld, á meðan önnur hjón sitja flest kvöld hlið við hlið í sófanum og horfa á sjónvarpið. Við spilum hinsvegar saman, keppum eða erum saman í liði eftir aðstæðum og tegund leikja, þá er mikið spjallað og kjaftað á meðan.
Hjónin í sófanum þegja yfirleitt bara og horfa dofin á imbann.

Flestir þeir leikir sem ég hef spilað eru þroskandi, fræðandi, spennandi og skemmtilegir.
Ég hef lært um WW2, dýr, sögu Evrópu, sögu Kína og margt margt fleira.
Ég hef farið í spor leynilöggu eins og í Agotu Christy sögu og leyst dularfull sakamál, full af spenningi yfir söguþræðinum.
Ég hef líka stundum gert eitthvað sem skilur ekkert eftir sig – nema stundar thrill við að skjóta skrýmsli …. eða yfirmanninn í vinnunni !

Ég vill hvetja allar stúlkur/konur til að leggja fordómunum gagnvart tölvuleikjum á hilluna og prófa þetta sjálfar !
Gefið þessu tækifæri, fyrr getið þið ekki sagt að þetta sé ekkert gaman eða að þetta sé bara barnalegt – og ef þið fílíð þetta ekki þá er það líka allt í lagi, það eru ekki allir eins, en maður verður að gefa öllu tækifæri.

Vandið bara valið !
Ef þið hatið stríðsmyndir – ekki spila þá stríðsleiki.
Ef þið hatið pólítík – ekki spila leiki sem byggjast á pólítík.
Ef þið hatið íþróttir – ekki spila íþróttaleiki.

Finnið eitthvað sem hentar ykkar áhugasviði og gefið þessu séns áður en þið dæmið !