Hmmm já, það er löng saga…
Þegar ég var svona 11-12 ára, gaf einhver frænkan mér Hobbitann í jólagjöf (í gömlu þýðingunni - já, það var í þá daga). Ég hafði aldrei heyrt á Tolkien minnst þá, en ég las þessa bók og varð alveg stórhrifin. :) Svo einhverjum árum síðar komst ég að því að það var til meira um þennan sama heim eftir þennan sama höfund. Þegar ég var 12 ára (1980) var svo Lord of the Rings teiknimyndin sýnd í bíó (ég þorði reyndar ekki að sjá hana þá, en sá hana svo seinna í sjónvarpinu árið 1994). Svo komu teiknimyndabækurnar sem ég var eitthvað að glugga í í laumi…
Hinsvegar las ég ekki bækurnar sjálfar fyrr en 1989, þegar ég var 20 ára. Mig hafði alltaf langað til að lesa þær fyrr, en þær voru ekki enn komnar út á íslensku og ég var ekki orðin eins vön að lesa bækur á ensku og ég er í dag, þannig að þetta var erfið staða… Á endanum tók ég mig til og píndi mig í gegnum allar þrjár bækurnar, og það var ERFITT! En - þess virði. :)
Síðan þegar þær komu út á íslensku 1993-1995, las ég þær aftur í gegn.
En svo las ég þær ekkert aftur fyrr en myndirnar komu. Og myndirnar voru svo vel gerðar að mínu mati (ég hafði alltaf verið að vonast eftir að LOTR yrði kvikmynduð einhvern tímann), að ég fór aftur á ný að sökkva mér niður í bækurnar. Og ég er alltaf að verða meiri og meiri LOTR nörd, hehe…
Núna, fyrir utan að hafa lesið allar þrjár LOTR bækurnar, hef ég lesið Hobbitann (aftur, bæði á ensku og í nýju þýðingunni), og svo Silmarillion á íslensku (er ekki ennþá búin að lesa hana á ensku). Sú síðastnefnda er satt að segja algjört torf að mínu mati, heillaði mig ekkert gífurlega við fyrsta lestur - þarf að fara að lesa hana aftur. Ég hef heldur aldrei verið neitt sérstakt álfafrík (er meira fyrir hobbitana og mennina).
Svo er ég búin að fá mér The Letters of JRR Tolkien, sem stendur til að lesa fljótlega.
Svo er Unfinished Tales og allt það dót á listanum. ;)
PS: Ég gleymdi Farmer Giles of Ham (Gvendur bóndi á Svínafelli)! Hún er góð. :D