Nýlegt æði hefur gripið heiminn og flykkjast menn nú út í búðir að kaupa sér nýjasta upplagið af Hobbitanum, í bíó að berja þessa stórmynd augum og á veraldarvefinn að leita sér upplýsinga. Það komst aftur í tísku að vera lítill, krullhærður og með loðna fætur og ungir stráklingar sjást reykja langpípur úti á götuhornum. Fasteignamarkaðurinn íhugar jafnvel að nýta sér byrinn og setja á markað nokkur torfhús með hringlaga dyrum á uppsprengdu verði.
Fyrir þá sem ekki hafa séð Hobbitann eða lesið ættu að hafa varann á því hér fyrir neðan gæti leynst eitt eða annað sem myndi kallast “spoiler”. Til þess hins vegar að hjálpa þeim sem þegar hafa notið töfra Tolkiens og til að skilja myndina, bókina og Tolkien sjálfan aðeins betur hefur höfundur tekið saman nokkrar gagnlegar staðreyndir um framvindu sögunnar og höfundinn sjálfan.
Kvikmyndin og bókin eru alls ólík, enda upp í margar eyður að fylla þar sem Peter Jackson (leikstjórinn) ákveður að teygja lopann ansi mikið og búa til 3 langar, epískar kvikmyndir upp úr bók og það barnabók sem spannar varla 300 blaðsíður. Engu að síður hefur myndin hlotið lof gagnrýnenda og fólk flykkst á hana í kvikmyndahúsum.
Margir hafa bent á að kvikmyndin tekur sér ansi mörg skáldaleyfi frá bókinni.
Hér er stuttur samanburður á bókinni og kvikmyndinni og á þeim helstu breytingum sem þar eru gerðar.