Ég sökkti mér ofan í Hobbitann og Hringadróttinssögu sem krakki. Að sjálfsögðu fór ég á bíómyndirnar núna eftir að þær komu og hafði gaman af. Áhugi minn á hringafræðum hefur nú vaknað upp aftur og langar mig til að kynnast forsögu Hringadróttinssögu betur. Hobbitinn er auðvitað nokkurs konar inngangur að Hringadróttinssögu. Þar finnur Bilbó hringinn þó að það sé útúrdúr í þeirri sögu og hún að öðru leyti sjálfstæð. Hins vegar hef ég heyrt fleiri bóka um Miðgarð getið og langar til að lesa þær líka en á erfitt með að átta mig á hvar ég á að byrja. Ég grófst fyrir á Netinu og einhvers staðar las ég að trílógían stæði í reyndi ekki saman af bindunum þremur í Hringadróttinssögu heldur væri Hringadróttinssaga aðeins þriðji þátturinn í trílógíunni. Hinn fyrsti er Silmerillinn, þá kemur Hobbitinn og loks Hringadróttinssaga. Síðan er til nokkuð sem heitir History of Middle earth í tólf bindum. Ég átta mig ekki á hvort það verk komi á undan Silmerlinum eða hvort Silmerillinn sé nokkurs konar útdráttur úr því verki. Svo er til Unfinished Tales sem virðist vera einhvers staðar á milli Silmerilsins og Hobbitans. Enn meiri virðist til, t.d. Adventures of Tom Bombadil en sá kom fyrir í Hringadróttinssögu. Spurningin til ykkar Tolkienfræðinga er þá þessi:
Í hvaða röð á maður að lesa þetta ef maður vill lesa alla sögu Miðgarðs frá byrjun til enda í sem réttastri röð? Á ég að byrja á bindunum tólf í The history of middleearth eða á ég að byrja á Silmerlinum?