Tolkien hét fullu nafni John Ronald Reuel Tolkien en af þessum nöfnum var Ronald
oftast notað. Reuel var eins konar ættarnafn: Faðir hans hét Arthur Reuel og synir
hans báru einnig þetta nafn. Eftirnafn hans er þýskættað en föðurfjölskylda hans mun
hafa flutt frá Saxlandi (Sachsen) til Englands á 18. öld. Sjálfur fæddist hann í
Suður-Afríku, í Óraníufríríkinu, þann 3. janúar 1892. Hann flutti hins vegar heim til
Englands á fimmta ári.
The Hobbit er ein vinsælasta og mest þekkta bók J.R.R. Tolkiens, hann hóf að semja
söguna til þess að skemmtabörnum sínum og úr því varð þessi sígilda ævintýrabók.
Bókin fjallar um hobbann Bilbó Baggason, hann er eins og flestir aðrir hobbar;
rólegur að eðlisfari og hefur andstyggð á hverskyns óvæntum uppákomum og
ævintýrum. En galdrakarlinn Gandalfur hefur ætlað Bilbó merkilegra hlutverk en að
sitja heima í hobbaholunni sinni og blása reykhringi. Hann etur Bilbó út í sannkallað
ævintýri þar sem hann á að fara í stórhættulegan leiðangur með þrettán dvergum og
hjálpa þeim að ná aftur fjársjóði sínum. Bilbó á að koma með og vera meistaraþjófur
hópsins. Leiðin sem þeir fara er löng og hættuleg og í upphafi er Bilbó
hálfræfilslegur, hann er hræddur við flest allt og er dvergunum að litlu gagni. En ekki
er allt sem sýnist og Bilbó er ekki eins mikill væskill og hann virtist vera í fyrstu, í
þessarri ferð margsannar hann sig og á endanum er það hann sem bjargar
samferðamönnum sínum hvað eftir annað.
Hobbit er sannkölluð ævintýrasaga þar sem margar kynjaverur koma við sögu, á
ferð sinni um ókunn lönd rekast Bilbó og dvergarnir á durtálfa, risaköngulær, álfa og
síðast en ekki síst drekann Smeyginn (Smaug). Það er hann sem situr eins og ormur á
gulli á fjársjóði dverganna og til að ná gersemunum verða þeir að sigra Smeyginn en
það er hægara sagt en gert því hann er engin smásmíði.
Eins og flest ævintýri þá endar The Hobbit vel, dvergarnir ná fjársjóðnum og Bilbó
stendur uppi sem hetja. Þessi saga er þó ekki alveg laus við raunsæi því eftir
lokabardagann þá eru margir sem liggja í valnum og maður lærir það að til þess að
öðlast mikla hluti þá þarf oft að fórna mörgu.
Það er gaman að fylgjast með Bilbó í gegnum söguna, hvernig hann í upphafi þorir
engu og veldur meiri vandræðum en lukku og hvernig hann svo smá saman öðlast
meira sjálfstraust og virðingu hinna í hópnum. Sagan er dæmi um þá alkunnu
staðreynd að margur sé knár þótt hann sé smár.
kv. Amon