Gollrir
Innskot höfundar: Þessa grein skrifaði ég fyrst á tilvonandi heimasíðu okkar Aragorns, en löngum mín í stig var svo sterk að ég varð að birta hana hér. Kallið mig stigahóru, en þetta er engin stigahórugrein! :)
(Síðan okkar verður stútfull af skrifuðu efni eftir okkur, þungamiðjan er innihald en eki útlit.)
________________________________________________________________________
Gollrir
Þessi persóna er flestum hugleikin. Mikið hefur verið skrifað um hann, svo það verður erfitt fyrir mig að fara ótroðnar slóðir í þeim málum. Enda ætla ég mér ekki að gera neina tímamóta grein um hann, heldur drepa niður fæti á nokkrum helstu atriðum. Eftir frásögninni af ævi hans og atburðum, koma fram nokkar spurningar og pælingar.
Í upphafi var hann Hobbiti. Þeir sem þekkja til þeirra ljúfmenna, vita hvað það þarf mikil áhrif til að breyta honum í slímugt, illkvittið kvikyndi sem sárafáum(ég endur tek: sárafáum) gæti þótt vænt um.
Þegar kemur að boðskap Lord of the Rings bókunum er hann einskonar þungamiðja í þeim málum. (ATH! Sumt af þessu sem kemur hérna á eftir gæti reynst spillir(spoiler) fyrir suma. Ég læt vita seinna meir í greininni þegar spillinum er aflétt.) Af einhverjum furðulegum ástæðum þá kennir Fróði í brjósti um Gollri þegar hann eltir þá á ferð þeirra um Mordor og Fróði þyrmir honum um líf sitt hvað eftir annað. Seinna á örlagastundu bókarinnar “launar” Gollrir fyrir sig þegar hann stekkur á Fróða og tekur hringinn af honum með því að bíta af honum fingurinn. Heldur ruddalegt, ekki satt? (Hérna lýkur spillinum.)
En svo við byrjum á byrjuninni, þá ætla ég mér að fjalla um Gollri á “bak við tjöldin”. Það slæðast ýmsar upplýsingar um hann á öðrum tímabilum en gerist og gengur í bókum þar sem hann kemur við sögu. Ég ætla mér að taka svolítið saman um þau atriði og reyna að skapa úr þeim samstæða heild.
Í sinni æsku var hann aðeins lítill Hobbiti, Smjagall, sem fæddist og bjó með ömmu sinni nálægt Silfurvöllum(Gladden Fields). Eitthvað virðist hafa farið úrskeiðis hjá honum í æskunni sem hefur ollið þessari illsku í honum, en hin raunveruelga saga af honum byrjar ekki fyrr en frændi hans, Djagall, fann Hringinn Eina í Andvin fljóti árið 2463. Eins og svo margir vita, þá gerði Gollrir sér lítið fyrir í girnd sinni á Hringnum og kyrkti Djagal til að fá hringinn sinn í “Ammælissgjöf”.
Eftir sífellda notkun á Hringum til að ýmist stela hlutum frá fólki eða hrekkja það, varð hann sífellt óvinsælli í garð nágranna og sveitarinnar. Hann byrjaði að dökkna, bæði í útliti og huga. Hann byrjaði að fyrirlíta sólina, en elskaði nóttina með sinni dimmu; og var flæmdur burt úr héraðinu eftir nokkurn tíma, svo jafnvel fjölskylda hans sneri baki við honum. Ætli það sé meginástæða þess að hann varð svo illur sem raunin varð?
Gollrir fann sér brátt ágætan stað þar sem hann gat falið sig fyrir umheiminum og dagsbirtunni. Í þokufjöllum leyndist hann, og Hringurinn hélt sífellt áfram að eitra huga hans og fá hann undir sitt vald. En árið 2941, gerðist það ólíklegasta sem gæti hugsast, að Hobbitinn Bilbó Baggi(sem flestir ættu að kannast við) fann Hringinn þegar Gollrir týndi honum. Þar með var djásnið hans eina, hans verðmætasta eign horfin. En afþví að hann þráði Hringinn svo mjög sem hann gerði, fór hann loksins út úr Þokufjöllum að leita að Bilbó og Hringnum. Hatur hans á Sólinni og allri birtu var ekki enn orðin svo mikil, að hann tók það framfyrir ást hans á Hringnum. Samt sem áður þoldi hann hvorki sólar- og tunglsljósið né aðrar lifandi verur.
En ógæfan dundi yfir hann í miðri leit sinni að Hringnum.
Stuttu áður en Hringastríðið hófst, var hann handsamaður af Sauroni, og náði með píningum og –kvölum á aumingjans dýrinu, að toga uppúr honum “Bagginnsss!” og Hérað. Hann sleppti honum síðan eftir þessar verðmætu upplýsingar(nokkuð sem maður gæti aldrei trúað) og var handsamaður af Aragorn og Gandalfi. Gandalfur náði einnig að veiða uppúr honum söguna á bak við Hringinn þegar hann var í fórum Gollris, og fann þar með mikilvægt púsl í púsluspilið á Hringnum.
Því næst var honum komið hjá Álfunum, sem gættu hans vel að þeir héldu, en þó ekki nógu vel því eitt sinn við árás orka árið 3018, slapp Gollrir frá þeim og var aftur kominn uppá sjálfan sig. Að sjálfsögðu hélt hann áfram leit sinni á Hringnum, og eftir nokkurn tíma fann hann Föruneytið og með einhverjum undraverðum hætti komst hann inn í námur Moría, og elti þá þar í gegn og Lórinenland.
Hérna kemur nokkurskonar vendipunktur á þessari þáttöku Gollris í Hringastríðinu. Hingað til hafði hann aðeins verið til vandræða, en nú neyddist hann til að “hjálpa” þessum tveim Hobbitum, svo Hringurinn félli ekki í hendur Saurons. Svo ólíklega vildi til að hann sveik þá ekki í einu eða neinu og leiddi þá samviskusamlega til Cirith Ungol. En hans gamla eðli var ekki nærri því horfið. Núna ætlaði hann sér að svíkja þá, og vísaði þeim beint í gin kóngulóarinnar Skellu. Þar bjóst hann við að Skella myndi drepa þá báða, og Gollrir fengi Hringinn sinn aftur.
***SPOILER*** Þessi ráðagerð hans mistókst, og núna varð hann að treysta á síðasta haldreipi hans í áætlun sinni um að fá Hringinn til baka. Í iðrum Dómsdyngju ætlaði hann að stela Hringnum af Fróða, en ekki betur vidi til en svo að hann datt sjálfur með Hringinn niður í eldgíginn og endaði þar líf sitt. Engir hetjusöngvar voru sungnir um hann, allir vildu helst gleyma honum sem fyrst.
***SPOILER BÚINN *** Svo ég komi því aðeins til skila hve mikla óbeit hann hafði á mönnum, álfum, ljósi og öðru slíku, þá þoldi hann fátt af því sem tengdist álfum. Reipin sem þeir bjuggu til brenndi hold hans, vegabrauðið Lembas þoldi hann ekki og bragðaðist sem úldið óæti í kjaftinum á honum. Hann vildi aldrei soðinn eða eldaðan mat, heldur kaus frekar að borða það hrátt og fersk eins og villidýr. Líkami hans var grindhoraður, svo virtist sem hann héngi á beinunum einum saman, og stór lýsandi augu hans vöktu hroll meðal þeirra sem viðkvæmir voru. Gollrir var nafn hans vegna ógeðslegs hljóðs sem hann gaf stundum frá sér, svo gúlgraði eða gollraði í hálsi hans.
Hans raunverulega nafn er það sem minnst er þekkt, eða Thrahald (Þráhöldur eins og ég myndi gera mér það í hugarlund). Það nafn var honum gefið af Mönnum í Norðrinu, sem þýddi eitthvað sem grefur sig, ormur eða e-ð þvíumlíkt. Á Samtungu heitir þetta Sméagol (Smjagall)
Önnur nöfn sem hann bar var “Her Sneak” af orkum Cirith Ungol og “My preciousssss”(Minn dýri”) sem hann kallaði sjálfan sig.
Jæja gott fólk. Eftir þessa frásögn ætti að vera nóg efni til að moða úr einhverjar kenningar um hann og spurningar sem óneitanlega vakna þegar maður les þessa grein.
Hvaðan í ósköpunum kom þetta dýr úr hugarheimi Tolkiens? Er þetta kannski eitt af þeim atriðum sem Tolkien bjó til handahófskennt þegar hann skrifaði Hobbitann? Þar virðist hann hafa ratað á góða persónu sem verðugt væri að nota seinna til að gera Hringadrótinssögu fjölbreyttari og safaríkari. Enda þurfti að vera góð tenging milli þessara tveggja bóka svo fólk myndi ná frekar uppdrögum Hringastríðsins.
Rétt eins og með Tom Bombadil (humm, efni í grein) þá virðast þessar tvær persónur koma sem þruma úr heiðum himni. Báðar hafa vakið athygli meðal Tolkien aðdáenda, sem sýnir að þessi heimur er ekki bara fullur af magnþrunginni alvöru þar sem allar persónurnar verða að vera fullskapaðar og henta vel umhverfinu sem þær lifa í. Gollrir var í svo brenglaðri mynd af umheiminum að viðbrögð hans og hugsanir voru gjörólíkar öllum öðrum skepnum. Það sama á við um Tuma Bumbalda. Þeir voru báðir sjálfs síns herra.
Með þökk fyrir lesturinn
Hvurslags