Um Sauron og Balrogginn í Moría.
****
Þessi grein er fyrst og fremst hugsuð fyrir þá sem hafa lesið Hringadróttinssögu alla. Það má vel vera að einhverjir aðrir rekist á SPOILERA hér, en þá hefðu þeir betur látið það ógert að lesa þetta. Reyndar efast ég um að margir muni endast til að lesa þessa LANGLOKU
****
Ég er einn af fjölmörgum lesendum Hringadróttinssögu sem halda hvað mest upp á þá kafla sögunnar sem segja frá ferðalagi Föruneytisins í gegnum námur Moría og viðskiptum þeirra við Balrogginn, Durins Bana. Allt frá því að ég las söguna fyrst hefur Balrogginn vakið mikla forvitni með mér og hef ég leitað logandi ljósi í Tolkien literatúrnum að öllu því sem gæti varpað einhverju ljósi á hver hann var og hvernig tengslum hans við Sauron var háttað.
Skemmst er frá því að segja að ég hef lítils orðið áskynja utan þess sem segir af Balroggum almennt í Silmarillion og svo glefsum hér og þar (sjá afbragðs grein angelfire frá …). Það eina sem við vitum með vissu er að hann var einn af örfáum Balroggum sem komust undan í Heifarstríðinu og földu sig hér og þar á Miðgarði. Hann hefur síðan legið í felustað sínum djúpt undir Þokufjöllum þar til Durinsþjóð, í áfergju sinni eftir míþríl, vakti hann af dvala. Þetta var árið 1980 á Þriðju heimsöld og aðeins ári seinna er síðasti dvergurinn flúin frá Moría. Þar með má ætla að Balrogginn kasti eign sinni á Moría og ríki þar sem einskonar undirheima konungur. Að öðru leyti hefur hann sig lítt frammi.
Um þetta leyti er Sauron auðvitað búin að vera þó nokkurn tíma að magnast, m.a. í Dol Gúldur, en kemur þar þó ekki sterkur fram fyrr en í kringum 2460. Síðan er greint frá því að 20 árum seinna sé hann byrjaður að “manna” Þokufjöll með óþjóðalýð sínum og að m.a. sendi hann skrílinn inn í Moríu. En þetta vekur auðvitað upp spurningar um hvernig sambandi Saurons og Balroggsins sé háttað. Sér í lagi: getur Sauron reitt sig á Balrogginn?
Auðvitað er ég hérna komin út í hreinar vangaveltur, því lítið er er að finna í skrifum Tolkiens um þetta efni. En þá er bara að fara með heim Tolkiens sem sjálfstæðan veruleika, og reyna að “uppgötva” leyndarmál hans upp á eigin spýtur (en það að þetta sé hægt er auðvitað eitt aðal aðdráttarafl verka Tolkiens).
Ég held að við þurfum ekkert að velkjast í vafa um að Sauroni hafi snemma orðið full kunnugt um hverskonar Skepnu Dvergarnir vöktu af dvala í Moría. Til þess hefðu frásagnir og lýsingar sennilega einar nægt. Spurningin er hins vegar hvort Sauron hafi í þessu séð von um öflugan liðsstyrk eða þvert á móti hættu á samkeppni?
Sauron og Balrogginn voru auðvitað áður báðir í þjónustu Morgoths og við vitum að Morgoth mat Sauron mestan af sínum þjónum og að Sauron var honum í rauninni næstur að völdum. En í ljósi þessa mætti ætla, að fyrst Morgoths naut ekki lengur við, hafi Balrogginn í Moríu viðurkennt forystu Saurons. Einnig mætti hafa liðsflutninga Saurons inn í Moría til marks um þetta, og þá segja að varla hefði Sauron komist svo létt upp með þetta ef vilji Balroggsins lægi ekki fyrir. Eitthvað kann að vera til í þessum rökum, en ég held hins vegar að rökin fyrir því að Sauron hafi ekki getað treyst Balrogginum, nema þá rétt varlega, vegi þyngra.
Frá því er sagt að Sauron og Balroggarnir voru allir af stofni Maia. Sá munur var hins vegar á að Balroggarnir virðast frá upphafi hafa verið fylgisveinar Melkors/Morgoths. Sauron var aftur á móti í upphafi Maia af húsi Ála, en féll síðar fyrir krafti og djúpri þekkingu Melkors. Nú getur maður auðveldlega ímyndað sér að skjótur frami Saurons og dálæti Melkors á honum hafi valdið einhverri kergju meðal Balrogganna og þá kannski sérstaklega hjá Gothmogi sem var þeirra öflugastur. Út á við bar hins vegar ekkert á slíkri misklíð, enda hvergi í frásögur færð. Öll slík misklíð hefur líka verið kæfð af ægivaldi Morgoths sem hugsað um það eitt að sameina allan sinn herafli í hatri sínu á Sköpunarverkinu, en þó sérstaklega á Ljósinu, Völum og Álfum. En hér komum við að grundvallaratriði í þessu öllu saman: Öllu illþýði í heim Tolkiens er þetta hatur innrætt. Það er í þessu hatri sem það finnur sína einu samkennd. En á þeirri samkennd verður lítið byggt, því svo djúpt ristir þetta hatur að það sprettur út í sífelldum innbyrðis illdeilum og lítilsvirðingu fyrir öllu, og þá jafnvel þeim sem eru af sama sauðahúsi. (þessa hugsun má líka orða svona: bróðurþel, trúfesta og gangkvæmi virðing geta varla verið sterkar hliðar á Myrkraverum!)
Til þess að móbilisera þessa samkennd þarf því meira að koma til. Það þarf nefnilega Vald en þó fyrst og fremst óhemju sterkan Vilja; vilja sem yfirgnæfir vilja allra þeirra sem lúta Myrkrinu. Þessa eiginleika hafði Melkor auðvitað til brunns að bera. En að honum gegnum var engin í liðsafla hans þess megnugur að taka upp merki hans og sameina allt illþýði undir eitt Vald. Sauron var sá eini sem komst nálægt því, en þó virðist vilji hans ekki hafa verið nógu öflugur til þess að Balroggar eða Drekar sæju ástæðu til þess að koma úr felustöðum sínum og ganga til liðs við hann. Aftur á móti náði Vald hans auðvitað auðveldalega yfir Orka, en einnig varð honum vel ágengt með að koma vilja sínum yfir Menn. Með tíð og tíma magnaðist hins vegar styrkur Saurons og þegar hann smíðar Hringinn er hann á hátindi sínum. Þá lá nærri að honum tækist það sem Morgoth tókst aldrei, nefnilega að beygja Vilja Áfla undir sinn eigin.
Um það leyti má ætla að Vilji Saurons hafi verið orðin nógu sterkur til að beygja Balrogga og Dreka til liðs við sig. En Sauron fórnaði líka miklu fyrir Hringinn því hann batt mikið af sínu forna afli í Hringnum. Án Hringsins er hann því eiginlega bara skugginn af því sem hann annars væri. En þannig er einmitt ástatt fyrir honum þegar Balroggurinn vaknar í Moría og í ljósi þess sem hér hefur verið rakið, þá held ég að það sé ljóst að Sauron getur alls ekki reitt sig á liðveislu Balroggsins. Hér má engin misskilja mig þannig að ég haldi að Sauron ráði ekki við Balrogginn einan og sér. Það gerir hann alveg áreiðanlega, jafnvel án Hringsins. Hins vegar hefur Sauron bara svo mörgum öðrum hnöppum að hneppa. Þ.e.a.s. hann getur ekki samtímis stýrt öllu sínu liði og sínum aðgerðum og haft Balrogginn í vasanum um leið. Án Hringsins hefur hann ekki nógan styrk til þess.
En hvað þá um liðsflutninga Saurons? Því má t.d. svara með því að Sauron hefur engu að tapa með því að flytja lið inn í Moría. Með því gæti hann t.d. reynt að kaup sér “good will” (ef það er hægt að kalla það þvi nafni) Balroggsins, þ.e.a.s. látið það líta þannig út að hann sé að senda þessar herdeildir sem gjöf og að Balroggurinn geti farið með þær eins og hann listir. En einnig má spyrja: Ef Sauron getur treyst Balrogginum, afhverju telur hann þá þörf á að senda Orka inn í Moría? Var ekki Balroggurinn fær um, að því er virðist einn og óstuddur, að reka eitt öflugast Dvergaríki Miðgarðs út á gaddinn? (kannski að hann hafi notið þar aðstoðar einhverra Orka sem hann hefur þá sjálfur sankað að sér). Hér er nefnilega annað sem vekur eftirtekt: Balroggurinn lætur einkennilega lítið á sér bera eftir að hann rekur Durinsþjóð út úr Moría. Það er t.d. ekkert sem bendir til þess að hann hafi átt nokkurn beinan þátt í því að myrða Balin og hans menn. Þar virðast Orkarnir í Moría (væntanleg Orkar Saurons) hafa séð um öll skítverkinn. Það er því frekar eins og Balroggurinn kjósi að liggja í sínum gamla felustað og bíða endurkomu meistara síns, eða þá einhverju góðu tækifæri til þess að koma fram af meiri styrk. Í ljósi þessa má þá skilja ástæður Saurons þannig, að hann treystir Balrogginnum ekki fyllilega til að reka sína hagsmuni í Moría. Hvaða hagsmunir eru það?
Hér komum við að enn einu atriðinu sem ég hygg að sýni að vald Saurons (án Hringsins!) yfir Balrogginum er fremur takmarkað. Frá fornu fari hataðist Sauron við Moría (frá því í Hringastríðinu í Eregion) og hann lagði ofuráherslu á að Moría skyldi ekki vera í höndum óvina hans. Þannig séð hefur uppvakning Balroggsins og þær afleiðingar sem það hafði verið Sauroni mjög að skapi. Hins vegar geymir Moría nokkuð sem Sauron vildi gjarnan koma sínum gráðugu krumulum yfir. Nefnilega einu þekktu míþríl námur Miðgarðs. Þessi harðgerasti málmur Miðgarðs væri nú engin smá búbót í hergagnaframleiðslu Mordors! Og þótt Dvergar einir séu sagðir geta unnið hann, þá efast ég ekki um að Sauron, ef hann fengi til þess næði, gæti upphugsað einhver tól til þess að gera vinnslu málmsins mögulega öðrum. Þar að auki er frá því sagt í skrifum Tolkiens að einhverjar ættir Dverga hafi verið Sauroni handgengnar, þannig að honum hefði átt að vera það í lófa lagið að senda Dverga sveitir til Moría að grafa eftir míþríl. En eitthvað virðist hafa sett stopp á þetta og finnst mér freistandi að álykta að óvissa Saurons með Balrogginn hafi hér átt þátt að máli. (Reyndar má líka benda á að Austurhlið Moría liggur ansi nærri Lóríen, sem hefur eflaust sett eitthvað strik í reikninginn líka) Í ljósi þessa er fróðlegt að rifja upp frásögn Glóins af því þegar sendiboði Saurons heimsækir Dáin konung undir Fjallinu eina. Sendiboðin býður Dáni þau kaup að ef hann kemur höndum yfir þennan Bagga og lítilfjörlegan hring í hans fórum, þá muni Sauron gefa Dvergum þá þrjá hringa Dverga, sem enn eru við lýði, auk þess sem Moría verði að eilífu þeirra. En ef Dáin getur aðeins sagt einhverjar fréttir af þessum Bagga og hvar hann búi, þá mun Sauron bjóða þeim vináttu sinni (sem auðvitað er einskis virði!). M.ö.o. aðeins ef Dáin getur tryggt Sauroni Hringinn, þá getur Sauron lofað Dvergum Moría, enda mun hann þá hafa þann styrk og Vilja til að beygja Balrogginn undir sig og fara með Moría eins og honum sýnist. Og það er engin ástæða til þess að draga þetta loforð Saurons í efa, því hann mundi gera Moría að ævarandi fangabúðum fyrir Dverga, þar sem þeim yrði þrælað út myrkrana á mill við að grafa upp míþríl.
Nú, nú þetta eru þá helstu niðurstöður þessara hugleiðinga:
i) Sauron og Balrogginn eru báðir feikilega öflugir og báðir fulltrúar Melkors á Miðgarði. Að því leiti eru þeir samherjar og þeir yrðu, að ég hygg, samherjar í öllum átökum sem beint yrði gegn þeim báðum í einu
ii) En þar sem þeir eru báðir þetta öflugir og illir í senn þá mundi hvorugur viljandi falla undir Vald hins. Þeir fyrirlíta í raun hvorn annan, rétt eins og þeir fyrirlíta allt sem hrærist á Miðgarði.
iii) Til að Balrogginn falli undir Vald Saurons, þarf Sauron að sýna fram á styrk sinn. Þann styrk gæti Sauron áreiðanlega sýnt ef hann gæti einbeitt sér að Balrogginum. Í miðju kafi við að stjórna hervél sinni OG í leit sinni að Hringnum hefur hann hins vegar ekkert tóm til þess. Þetta skynjar Balrogginn kannski og ákveður því að sitja um kyrrt í Moría og bíða og sjá til. Engin ástæða til að gefa Sauroni tækifæri til að sýna mátt sinn og megin. Betra að sitja óbeygður í Moría.
iv) með Hringinn yrði Vald Saurons algert og Balrogginn myndi lúpast undir hann eins og laminn rakki!
v) (Auka niðurstaða) Með hringin á hendi sinni gæti Sauron beitt Balrogginum sem sínum skelfilegasti þjóni. Hann myndi áreiðanlega finna góð not fyrir hann í árásum t.d. á Lóríen eða Rofadal.
Í ljósi alls þessa er auðvitað gaman að hugleiða ferð Föruneytisins í gegnum Moría. Afhverju sér Balrogginn ástæðu til að koma fram úr skúmaskoti sínu? Níu ferðalangar á ferð í námunum? Orkarnir hljóta að geta afgreitt þá léttilega! En hmm, þetta er þó eitthvað spennandi, þeir koma frá Vesturhliðinu! Og hvað eru þeir eiginlega að flækjast hérna? Þeir hljóta að vera að fela eitthvað meira en lítið merkilegt. Þannig getur maður hugsað sér að forvitni hans hafi vaknað. En einnig er auðvelt að ímynda sér, að forynja eins og Balroggi hafi margvíslega hætti á að skynja umhverfi sitt. Þannig gæti hann t.d. skynjað návist Gandalfs, sem eins og “alþjóð” veit er af Maia stofni rétt eins og Sauron og Balroggarnir. En hann gæti líka skynjað eitthvað annað, nefnilega það máttarsvið sem stafar af Hringnum. Að því hefur hann þá dregist eins og járn að segli. Þannig ryðst hann (reyndar aðeins of seint) inn í Annála stofuna, þar sem Föruneytið er við það að sleppa út um austurdyrnar og Gandalfur að beyta lásagaldri á dyrnar. Hann þrífur í hurðar hankann og verður samstundis var við Gandalf og upphefst þá hin svakalegasta rimma, sem næstum ríður Gandalfi að fullu. Nú veit hann að hann má ekki láta þessa gaura sleppa!
Og hvað hefði gerst ef Föruneytið hefði ekki verið svo heppið að Balrogurinn náði þeim ekki næst fyrr en á brúnni? Ég held að það hefði orðið ansi tvísýnt hvor hefði sigrað. Og hefði Balrogginn sigrað þá hefði hann að sjálfsögðu fundið Hringinn. Og það er engin vafi í mínum huga að hann hefði samstundis slegið eign sinni á Hringinn. Þannig hefði Balroggurinn í Moría upphafist á stól hins nýja Myrkradróttins og Sauron hefði mátt bíta í það súra epli að gerast húskarl hans.
Þannig held ég að ef Sauron hafi haft vitneskju um að Föruneytið fór inn í námurnar (sem hann áreiðanlega gerði), þá hefur honum ekki verið rótt. Hann hefur vonað eins og allir aðrir að Föruneytið (eða a.m.k. Hringurinn) kæmist klakklaust í gegn
Jæja nú ætla ég að láta þessari langloku lokið. Ég hlýt að vera vitfirrtur að skrifa allt þetta bull! For Christ sake: hvernig er hægt að verða svona húkkt á bók, sem fjallar um Galdrakalla, Álfa, Dverga og púka (svo ekki sé minnst á Hobbita!)
Manve