Jæja, þá er ég búinn að fara á forsýninguna. Mér datt í hug að deila þessu með ykkur hinum…

-HUGSANLEGIR SPILLAR-


Ég og vinur minn mættum á svæðið rúmlega 19:10. Var þá strax farið inn í “bíó-anddyrið” (Í öll þessi ár sem ég hef stundað bíóferðir hef ég aldrei fundið gott nafn yfir þetta… en þið vitið hvað ég á við) og var þar margt á boðstólum. M.a. var hægt að skoða bæklinga um kvikmyndina, prófa LotR-spilakerfið frá Games Workshop, næla sér í ókeypis LotR-söfnunarspjöld og fleira.

Miðasala hafði gengið svo vel að pakkað var í báða salina sem að myndin var sýnd í, sali 1 og 2. Undirritaður náði að smeygja sér inn á milli fólksins og ná góðum sætum fyrir miðjum salnum.

Eftir mikið poppkornsát voru trailerarnir sýndir. Sýnt var úr Don't Say A Word, Austin Powers: Goldmember, Spider-Man og Star-Wars: Episode 2. Eftir nokkurn tíma hófst svo myndin. Undirritaður missti allt tímaskyn sökum þess hversu geðveikislega góð myndin var.

Ég ætla ekki að fara að dæma myndina neitt mikið, þar sem að fólk hefur örugglega fengið sig fullsatt af þeim. Þó mun ég minnast á einstaka hluta myndarinnar sem vöktu athygli mína:

Tæknibrellurnar
Hreinasta afbragð. Varla hægt að segja annað. Bardagasenurnar eru hreint út sagt stórkostlegar, og fólk bókstaflega verður að sjá þær á hvíta tjaldinu. Höfundur var mjög hrifinn af því hvernig t.d. Balrogginn, Gollum og Sauron voru gerðir.

Leikarar
Já, enn og aftur frábært. Allir standa sig frábærlega, þó sérstaklega Ian McKellen, Elijah Wood, Viggo Mortensen og Christopher Lee í hlutverkum Frodo, Gandalf, Aragorn og Saruman.

Skemmtun
Myndin er yfirfull af spennu og skemmtun, hvort sem þú hefur lesið bókina eða ekki. Hobbitarnir og föruneytið eru fyndnir á köflum, en aldrei svo mikið í einu að það skemmi andrúmsloftið.

Þessi mynd er stórkostleg að öllu leyti, og er búin að bætast í uppáhalds-myndasafnið. Höfundur mælir tvímænalaust með henni.