Ég er að lesa Hringadróttingssögu í fyrsta skipti. Ég er á þriðju bók. Mín útgáfa hefur 6 bækur, 2 í hverjum hluta (t.d. 2 fellowship of the ring, 2 í The Two Towers osfrv). Þetta hefur verið ánægjuleg lesning ef það væri ekki fyrir einn hlut. Tolkien er ótrúleg
karlremba.

Í fyrstu bókinni er ekki minnst á konur nema eina sem gefur þeim mat og aðra sem er algert skass.
Í annarri bókinni (ennþá í fellowship of the ring) þá eru þeir 9 í föruneytinu en ekki ein einasta kona. Ekki ein. Samt er í lagi að hafa homma. Mér finnst það reyndar stór plús en ef Tolkien gat haft homma í föruneytinu (þ.e. Sam, sem elskar Frodo svo mikið að hann getur ekki án hans verið) afhverju þá enga konu? Sterkasti kvenkarakterinn í bók 2 er álfadrottningin en hún getur ekkert nema að gefa þeim gjafir og fögur orð!

Fram að þriðju bók er þetta augljósa viðhorf að konur eru ekki til annars nýtilegar en að gefa gjafir pínu-pirrandi en eyðileggur lítið söguna sjálfa. Það er ekki fyrren sagt er frá Entunum að þetta er farið að fera meira en lítið lélegt. Entarnir eru að deyja út
af því að Ent-eiginkonurnar (allar kvenkyns Ent-verur eru kallaðar eiginkonur, það er gert til að undirstrika að þær tilheyri karl-Entunum) eru svo vitlausar að fara bara eitthvað að
rækta plöntur í stað þess að búa í óræktinni hjá karl-Entunum. Síðan þegar Entunum fer að langa að ríða þá finna þeir ekki Ent-eiginkonurnar þó að þeir leiti út um allt. Það er því
Ent-eiginkonunum að kenna að Ent-mennirnir eru að deyja út. Það er ekki málið að Ent-mennirnir hafi verið svo miklir lúðar að sinna ekki konunum sínum að þær hafi neyðst til að fara eitthvað
annað til að geta verið þær sjálfar! Hvernig hefði Ent körlunum liðið ef þeim hefði verið gert að búa í skipulögðum garði og rækta grænmeti og aðrar plöntur? Ég bara spyr.

Þarna lá við að ég gæfist upp á þessari vitleysu. Það er bara hægara sagt en gert að gefast upp á þessari bók. Það er eitthvað sem dregur mann áfram, sem betur fer. Sagan heldur nefnilega áfram í Rohan. Þar fara allir karlmennirnir í stríð en gefa konu einni völdin. Þá varð ég mjög ánægð og næstum búin að fyrirgefa Tolkien prakkarastrikið í skógi Entanna. Þá fattaði ég að hún var ekki sett yfir vegna gífurlegra stjórnunarhæfileika heldur er hún bara látin passa hinar konurnar og börn þar til Karlarnir (með stóru kái) koma til baka. Það nennti nefnilega enginn af körlunum að verða eftir þegar þeir gátu gert eitthvað spennandi.

Semsagt: Konur, notist í neyð!

Ég geri mér fullkomna grein fyrir að Tolkien er af gamla skólanum. Hann hefur ekki verið alinn upp við háleitari skoðanir á kvenfólki en eru við lýði í Afganistan í dag (staður konunar er í eldhúsinu). Hann er samt það klár að geta skapað heilan heim. Ég hefði þó búist við að hann gæti eignað konum ákveðinn sess líka. Þessi karlremba gerir söguna gamaldags og því minna virði í nútímanum (hún er sem sagt ekki tímaóháð!).

Mér skilst að í kvikmyndunum sjálfum þá geri Peter Jackson meira úr kvenhlutverkunum (amk einu) og það verður fróðlegt að sjá hvernig það kemur út. Hvort að það styrki söguna eður ei.