Í verkum Tolkiens endurspeglast að mörgu leyti tvenns konar ólík sýn á heiminn. Annars vegar má sjá mikil áhrif frá forn germönskum hugmyndum; hins vegar er lífssýn kristinna, og þá einkum kaþólikka, mjög sterk. Nálgun hans við hetjur og hetjuskap eru meðal þess sem að er mjög litað af viðhorfum hvors tveggja. Tom Shippey (2005: 175-180) gerir því skóna að hetjur Tolkiens endurspegli togstreitu milli mismunandi hugmynda þessara tveggja lífsskoðana á því, hvað sé hetjuskapur. Víst er að Tolkien tengir hetjur og hetjuskap mjög við hugtökin von og örvæntingu. Heiðin norræn og germönsk viðhorf boða hugdirfsku fram í rauðan dauðann og aldrei meir en þegar allt virðist glatað og örvæntingin ein blasir við. Kaþólskar hugmyndir snúast aftur á móti um að lifa í voninni og trúa á handleiðslu guðs.

Tolkien dáði mjög hin forn germönsku viðhorf, skilyrðislaust hugrekki og staðfasta trú á málstaðinn, þrátt fyrir nánast enga möguleika á sigri. Tom Shippey telur að sú aðdáun hans hafi mótað mjög persónur hans, og baráttu þeirra við örvæntinguna:

„In a sense this Norse mythology asks more of men, even makes more of them, than does Christianity, for it offers them no heaven, no salvation, no reward for virtue, except the sombre satisfaction of having done what is right. Tolkien wanted his characters in The Lord of the Rings to live up to the same high standard“ (2005: 177).

Aftur á móti trúði Tolkien sjálfur mjög staðfastlega á vonina og handleiðslu Drottins í aðstæðum sem virðast ómögulegar. Þessi ólíku viðhorf takast því á í honum sjálfum og í persónunum má sjá tilraunir hans til þess að samræma þau á mismunandi hátt. Sem dæmi má taka álfana. Þeir hafa í þúsundir ára háð baráttu á Miðgarði sem þeir vita að getur aðeins endað á einn veg: með ósigri þeirra þegar þeir annað hvort flytja til vestursins eða tapa mætti sínum og eftirláta mönnum stjórn alls. Samt þrauka þeir áfram, bæði vegna þess að þeir eiga ekki annarra kosta völ en líka því að þeir halda í fjarlæga von um að þeir geti lagt sitt af mörkum til að hið góða hafi yfirhöndina, að minnsta kosti enn um sinn.

Útkoman er sú að á milli örvæntingar, hugdirfsku og vonar er órjúfanlegt samband í hugarheimi persónanna. Hin germanska hugmynd um að gera það sem rétt er þrátt fyrir að það virðist ekki til neins lifir, vegna þess að það er alltaf von, hversu slæmt sem útlitið er. „For even the very wise cannot see all ends“ (FR, 58), segir Gandalf við Frodo og sú hugmynd er afar mikilvæg. Í óvissunni er alltaf falin ákveðin von og á meðan sú von lifir ber að halda áfram og gera sitt besta.

“'I wish it need not have happened in my time,' said Frodo. ‘So do I,’ said Gandalf, 'and so do all who live to see such times. But that is not for them to decide. All we have to decide is what to do with the time that is given us” (FR, 50).

Þar með sameinar Tolkien þessi tvö viðhorf sem honum voru svo kær. Persónur hans þrauka þrátt fyrir litla von um sigur, þær gera það sem rétt er án þess að vonast til þess að uppskera eftir því – en þetta megna þær að gera vegna þess að það er alltaf von. Von þess sem trúir þrátt fyrir allt og veit að hans eina val er að gera það besta úr þeim tíma sem hann hefur.

Heimildir:
Shippey, Tom (2005). The Road to Middle Earth. London: Harper Collins Publishers.

Tilvitnanir í The Lord of the Rings:
Tolkien, J.R.R (2001). The Lord of the Rings (Mordern Classics útgáfa). London: Harper Collins Publishers.
I can't do everything, but I'd do anything for you…