Þessi grein er fyrst og fremst ætluð lesendum sem vilja
kynnast veröld Tolkiens enn frekar eftir að hafa lesið
Hobbitiann og Hringadróttinssögu.
Silmerillinn kom út árið 1977, 4 árum eftir lát Tolkiens. Það var
sonur hans Christopher sem raðaði sögnunum saman og
gaf þær út undir nafninu The Book of Lost Tales en síðar
festist nafnið The Silmarillion eða Silmerillinn við verkið.
Silmerillinn hefur því miður ekki orðið eins vinsælt verk og
Hringadróttinssaga og er það synd því að Silmerillinn er alls
ekki síðri en Hringadróttinssaga þó verkin séu mjög ólík.
Silmerillinn er í raun saga alls Miðgarðs frá byrjun til enda en
Hringastríðið er t.d. sagt í styttra formi. Sagan hefst á
byrjuninni þegar heimurinn var skapaður í tónaflóði og
Ænúarnir sungu eftir stefi Alföður eða Ilúvatar eins og hann
kallast á Álfatungu. Svo er rakin saga hvernig Ænúarnir, sem
kölluðust Valar eftir að þeir fluttu í heiminn, undirbjuggu
heiminn fyrir börn Alföður, Álfa og Menn. Einnig er sagt frá
hvernig annar Valinn, Melkor, sem seinna fékk nafnið Morgot,
smám saman snerist til hins illa og gerði allt sem hann gat til
að eyðileggja fyrir hinum Völunum. Rakin er saga hans alveg
þar til lærisveinn hans Sauron tók við, m.a kemur fram hvernig
hinn hræðilegi kynþáttur Orka varð til. Þegar Álfarnir komu í
heiminn dreifðu þeir sér um allan heiminn. Margir hlýddu kalli
Vala og sigldu yfir hafið til hins blessaða Amanslands, land
Valanna á meðan aðrir dreifðu sér um Miðgarð. Dvergarnir
komu seinna, og var það Valinn Áli sem bjó þá til og erfðu
Dvergarnir áhuga hans á handverki, steinum og gimsteinum.
Samskiptin milli þessara kynþátta gekk vel í fyrstu en svo kom
upp atvik sem varð til þess að stöðugur rígur varð á milli Álfa
og Dverga allt til daga Hringastríðsins. Rakin er saga
Mannanna frá því þegar þeir komu í heiminn á Miðgarði þar til
í lokin að þeir tóku við Miðgarði af Álfum, eins og einnig segir í
Hringadróttinssögu. Í sögu Manna má ekki gleyma
konungdæminu Númenor og ekki heldur svikum manna í
stríðinu gegn Melkor. Af Álfasögum ber hæst sagan um Fjanor
og Silmerlana og bölvun Mandosar, sú saga er reyndar svo
löng að hún endar ekki fyrr en næstum í lokin á bókinni. Á milli
stóru sagnanna eru svo ótal spennandi smásögur t.d hin
spennandi og fallega saga um Beren af Mannakyni og Lúþíen
Tinúvíel af Álfakyni, hin sorglega saga af Túrin Túrambar,
sagan af hulduborginni Gondólín, sagan um hvernig
máttarbaugarnir voru smíðaðir og hverjir fengu þá í hendur og
ótal fleiri sögur.
Þetta hljómar kannski allt eitthvað voða fjarrænt og virðist ekki
vera viðbót við Hringadróttinssögu, en þegar maður byrjar að
lesa Silmerilinn þá rekst maður á eitthvert atriði sem maður
skildi ekki fullkomlega í Hringadróttinssögu. T.d segir Aragorn
í Hringadróttinssögu stuttlega frá sögunni um Beren og
Lúþíen þegar hann ræðir við Hobbitana og fram kemur að
Aragorn er síðasti uppistandandi Númeninn. Einnig er sagt
frá sögunni um Gil-Galað, Elendil, Ísildur og nefnir Gandalfur
Fjanor eitt sinn í Hringadróttinssögu þó hann kalli hann
reyndar Funor þá. Því mæli ég eindregið með Silmerlinum fyrir
alla þá sem vilja öðlast meiri skilning á Hringadróttinssögu
og þá sem einfaldlega hafa gaman af spennandi ævintýrum.
Silmerillinn kom út á íslensku í þýðingu Þorsteins
Thorarensen árið 1999.