Elrond Hér á eftir langar mig að gera smá samantekt um álfahöfðingann Elrond sem er einn af mínum uppáhálds álfum úr heimi Tolkiens. Ég ætla að reyna að koma með stutt æviágrip um kappann og helstu skyldmenni hans.

Elrond var fæddur í Sirion í kringum árið 525 á fyrstu öld. Hann var bæði Noldi og Sindarálfur, þar sem móðir hans var af ætt Sinda en faðir hans Nolda. Foreldrar hans voru Eärendil og Elwing. Eärendil þessi var hálfur álfur og hálfur maður en foreldrar hans voru þau Túor og Idril. Foreldrar Elwingar voru þau Dior Eluchíl og Nimloth. Elwing erfði einn silmerillanna eftir föður sinn, en hann fékk hann frá Beren föður sínum og það kom í hlut hennar og eiginmanns hennar að forða honum frá þeim sem vildu fá hann á sitt vald.

Elrond átti einn bróður sem hét Elros. Þar sem þeir bræður voru ekki 100 prósent álfar máttu þeir velja hvort þeir teldust til álfa eða manna. Elros valdi að vera talinn til manna og hann varð fyrsti konungur Númenors, en hann var konungur í 410 ár. Hann dó árið 422 á annarri öld. Elrond hins vegar valdi að verða talinn til álfa.

Sagan um þessa fjölskyldu, örlög hennar og silmerillans væri efni í aðra sögu. Sem dæmi má taka að bræðurnir Elrond og Elros voru teknir til fanga í árás sona Fjanors. Einn þeirra; Maglor, aumkaði sig þó yfir þá og sleppti þeim. Þeir fundust í helli á bak við foss nokkurn og það var þannig sem Elrond fékk viðurnefnið Álfurinn í hellinum (Elf of the Cave). Þessi saga er fengin af síðunni Council og Elrond.

Elrond fór til Lindon með Gil-Galad og voru þeir mikið saman. Þegar Sauron gerði innrás í Eriador var Elrond sendur þangað til aðstoðar álfunum þar. Eriador var lögð í rúst og Elrond hörfaði ásamt þeim sem eftir lifðu. Í djúpum dal stofnaði hann Imladris, öðru nafni Rofadal (Rivendell) árið 1697 á annari öld. Rofadalur var griðarstaður fyrir álfa og vini þeirra á tímum Hringastríðsins. Eins og flestir muna sem séð hafa kvikmyndirnar um Hringadróttins sögu er Rofadalur himneskur staður, ótrúlega fallegur og ósnortinn alsettur töfrum. Þannig sé ég hann einnig fyrir mér, ef ekki fallegri þegar hann var í sem mestum blóma. Gil-Galad gaf Elrondi hringinn Vilja (Vilya), hring loftsins, og með hjálp þessa mikla töfrahrings verndaði Elrond Rofadal frá illum öflum og viðhélt yndislegri náttúrunni.

Elrond barðist með Gil-Galad og Elendil í stíðinu við Sauron, því sem kallað var Síðasta bandalagið á milli álfa og manna (Last Allliance) á árunum 3429-3441 á annarri öld. Hann var m.a. viðstaddur þegar Isildur stóð í Dómsdyngju með hringinn eina. Hann hvatti Isildur til að eyða hringnum með því að kasta honum í eldgíginn en allt kom fyrir ekki.

Elrond kvæntist konu að nafni Celebrían. Hún var dóttir hinnar fögru Galadríelar og Seleborns eiginmanns hennar. Celebrían fór eitt sinn frá Rivendell til að heimsækja foreldra sína í Lothlórien en var á leiðinni tekin til fanga af orkum. Synir hennar björguðu henni frá orkunum en þeir uppgötvuðu að hún hafði verið særð eitruðu sári. Elrond gat læknað Celebrían að nokkru leyti en hún var þó tilfinningalega sködduð af reynslu
sinni og fór því yfir hafið árið 2510 á þriðju öld án eiginmanns síns.

Elrond og Celebrían eignuðust þrjú börn. Fyrst tvíburana Elladan og Elrohir árið 130 á þriðju öld og síðan dótturina Arwen árið 241 á sömu öld. Eins og frægt er orðið giftist Arwen Aragorni konungi í Gondor eftir Hringastríðið og valdi þar með að verða eftir á Miðgarði þegar síðustu álfarnir sigldu til Valinor. Hún dó í Lóríen eftir að konungurinn lést. Elladan og Elrohir voru góðir vinir Aragorns frá barnæsku og í Hringastríðinu voru þeir við hlið hans. Þeir fóru m.a. með honum í gegnum Dauðraslóð og börðust með honum og rekkunum. Þeir voru líka við hlið hans á Veggjaföllum (Pellenor Fields) og við svarta hlið Mordors þegar hringnum eina var að lokum eytt í Dómsdyngju. Um örlög bræðranna er ekki vitað, þ.e. hvort þeir hafi siglt til Valinor.

Á þriðju öld varð Elrond leiðtogi hvíta ráðsins, en í því sátu ásamt honum, vitkarnir Saruman og Gandalfur, álfarnir Sirdán, Galadríel og aðrir ónafngreindir Eldar álfar. Elrond spilaði nokkuð stórt hlutverk sem ráðgjafi í Hringastríðinu. Það var í Rofadal sem fulltrúar allra kynþáttanna á Miðgarði komu saman og ákváðu örlög hringsins eina. Elrond var vitrastur þeirra sem þar komu saman. Hann sagði frá mætti hringsins og hvað yrði að gera við hann; eyða honum. Það var þá sem föruneyti hringsins var stofnað og Hringadróttins saga hófst fyrir alvöru.

Eftir Hringastríðið sigldi Elrond í vestur til Valinor árið 3021 á þriðju öldinni með hringberunum Fróða og Bilbó, Galdalfi, Galadríeli, Celeborni og fleirum og með þeim hurfu flestir álfanna frá Miðgarði.

Ég læt þessari umfjöllun um meistara Elrond hér með lokið. Að sjálfsögðu væri hægt að skrifa mun meira um hann og krefja hvert einstaka atvik til mergjar. En það er efni í aðra grein. Ég læt mér nægja að enda þetta á því að nefna hve mikils Elrond var metinn. Menn og álfar leituðu til hans að svörum á erfiðum tímum. Hann hjálpaði og leiðbeindi af mikilli visku. Hann var aldagamall en þó ávalt ungur eins og álfum var eðlilegt. Fagur sýnum jafnt innra sem ytra. Að lokum vil ég geta þess að ég tel Elrond í hópi merkustu álfa sem gengið hafa á Miðgarði og efast ekki um að einhverjir geti tekið undir það með mér.


Karat.


E.s. á myndinni er Elrond til vinstri ásamt Gil-Galad til hægri. Myndin er úr kvikmyndum Peters Jacksons.