Fyrst af öllu vil ég taka það fram að 2469 átti hugmyndina af þessari reynslusögu minni um Hringadróttinssögu og ég tileinka honum algjörlega þessa hugmynd. Þegar ég las greinina hans hér á Tolkien áhugamálinu sem heitir
,Reynsla mín af Hringadróttinssögu, þá datt mér í hug að skrifa mína eigin reynslusögu um hvernig ég kynntist Hringadróttinssögu (hér með skammstafað LOTR til styttingar) upplifði hana o.s.frv.
Og hér kemur það.
Það er skömm mín að segja frá því að ég kynntist ekki LOTR fyrr en um páskana 2002 þegar ég fór á LOTR the fellowship of the ring í bíói á heimaslóðum mínum en þá var bíóið þar nýopnað. Það byrjaði þannig að foreldrar mínir spurðu mig hvort ég vildi ekki koma með þeim í bíó á fyrstu bíósýninguna sýnda í þessu bíói í 10 ár eða meira. Þau sögðu að myndin héti Hringadróttinssaga og þau ætluðu að bjóða mér á hana ef ég vildi koma með.
Mér til meiri skammar man ég að ég hugsaði bara “Hringadróttinssaga hvað í helvítinu er það?” en orðaði það fallegara og sagði bara “hvað er það?”. Ég hafði aldrei heyrt um þessa Hringadróttinssögu en foreldrar mínir sögðu mér að hún væri byggð á bókum sem hétu sama nafni. Mér til ennþá meiri skammar sló ég bara til vegna þess að þau ætluðu að splæsa á mig miðanum og namminu og líka vegna þess að ég hafði ekki farið á sýningu í þessu bíói í meira en 10 ár (tækin voru orðin úrelt og þar af leiðandi þurfti bíóið að hætta) svo við fórum í bíó.
Við gerðum þetta venjulega sem allri gera áður en þeir fara í bíó, keyptu miðana (augljóslega), fengum okkur nammi og fórum á klósettið (bannað að verða mál í miðri mynd og þurfa að fara á klóið). Svo fundum við okkur sæti, settumst niður og biðum, loks dofnuðu ljósin og allir fóru að klappa þar sem fyrsta myndin í meira í 10 ár í þessu bíói var að hefja sýningu sína. Svo byrjaði myndin. Tilfinningin sem helltist yfir mig á meðan á sýningunni stóð var einu orði sagt ólýsanleg, ég ætla ekki einu sinni að reyna en þetta var góð ólýsanleg tilfinnig. Eftir að myndinni lauk man ég bara að við töluðum um hvað þetta hafði verið góð mynd sérstaklega ég og síðan spurði ég foreldra mína einnar spurning “bíddu sögðuð þið að það væru bækur líka?”.
Næst þegar bókasafnið var opið fór ég og fékk fyrstu bókina lánaða. Og man vel hversu mikið ég hneykslaðist yfir að þeir sem gerðu kvikmyndina skyldu hafa sleppt svona miklu úr byrjuninni á bókinni. Eða fyrst var það reyndar öfugt ég hneykslaðist yfir að það skyldi vera svo margt í bókinni sem var ekki í myndinni, fannst að þessir fyrstu kaflar væru í raun óþarfir, þó svo að seinna meir vendist ég þeim og nú hef ég alveg tekið þá í sátt.
Svo var dálítil bið á ég læsi bók 2 hún var alltaf í útláni þar sem allir vildu vita hvað myndi gerast í mynd tvö. Svo loks var röðin, á biðlistanum yfir bókina, komin að mér. Ég las og varð ekki fyrir vonbrigðum. Hljóp næstum á bókasafnið og skilaði bókinni og fékk þá þriðju lánaða las með mikilli spennu, gleði, sorg og allskonar blendnum tilfinningum og í endan með vonbrigðum.
Já með vonbrigðum, ég hafði lesið þetta meistaraverk fantasíubókmenntana á nokkrum mánuðum fundist allt algjör hreinræktuð snilld og farið að dýrka þessar bækur og umgangast þær með fasi sem jaðraði við lotningu og orðið fyrir vonbrigðum með endinn. Ég gat bara ekki verið sátt með endinn, hvernig sem ég reyndi fannst hann bara ekki réttur og ástæðurnar fyrir því tel ég að: Ég hafi verið (og er enn í dag) orðin svo tilfinningalega tengd bæði við bækurnar, heimin í þeim og persónur þessa heims. Sú ákvörðun Tolkiens að láta Fróða aldrei finna fullkomna hamingju og frið í hjarta sínu á Miðgarði og láta hann yfirgefa vini sína og ættingja í leit að þeim friði í öðrum heimi (þó með fullvissu um að hann myndi finna þann frið og hamingju þar, sem er þó smá huggun) og einnig sú staðreynd að Miðgarður, sá yndislegi staður, skyldi aldrei verða sá sami aftur. Allir álfarnir voru að hverfa á braut, mennirnir myndu aldrei ná sinni fornu dýrð í neinu því sem þeir myndu taka sér fyrir hendur, dvergarnir myndu samt halda áfram, en aldrei líkt og mennirnir ná sinni fornu dýrð í neinu og hobbitarnir, yndislegu, elskulegu, ljúflyndu hobbitarnir, myndu halda áfram á sama hátt og þeir hefðu alltaf gert, (fyrir utan það ár eða svo sem Héraða var nánast eyðilagt af Sarúman og fylgismönnum hans) sama um allt sem gerðist fyrir utan Hérað. Aldrei vitandi það að heimi þeirra hafði næstum verið tortímt og satt best að segja nokkuð sama um það, þar sem Sómi, Fróði, Kátur og Píppinn höfðu reynt að segja þeim hvað hafði næstum gerst en þeim virtist bara nokkuð sama um það. En kannski, og ég tel að það sé líklegri skýring, þeir vildu ekki trúa því né hlusta á það þar sem tilhugsunin ein um þessa næstum tortímingu (þó þeir þekktu ekki alla söguna) hræddi þá óumræðanlega svo þeir ákváðu að láta bara eins og ekkert væri og halda áfram eins og alltaf.
Þetta ofangreinda tel ég ástæðuna fyrir því að ég gat ekki með nokkru móti á þessum tíma (miðsumars 2002) sætt mig við endinn. Í stuttu máli, Fróði var horfinn á braut og Miðgarður myndi aldrei ná sinni dýrð og ég var bara, hvernig sem ég reyndi, ekki sátt sérstaklega ekki við Tolkien fyrir að hafa endinn svona.
Svo allavega síðan kom mynd tvö og váá annað meistaraverk jafnvel betri enn sú fyrsta og þá er mikið sagt. Og ég man að þótt ég hefði lesið bókina var ég svo himinlifandi glöð þegar Gandálfur kom aftur á sjónarsviðið.
Eftir að hafa séð myndina las ég bækurnar aftur og einnig Hobbitann og fannst hún góð en mér fannst hún höfða meira til yngri lesendana þó svo að hún sé náttúrulega einnig fín skemmtun fyrir þá eldri.
Svo jólin 2003 kom loksins þriðja myndin (eða það fannst mér það sem það voru orðin meira en 1 og ½ ár síðan ég las fyrst seinustu bókina). Sömu jólin fékk ég allar LOTR bækurnar í kiljuformi skreyttar með myndum úr bíómyndunum. Og ég dreif mig og las allar bækurnar í þriðja sinn áður en myndin var sýnd í bíóinu heima hjá mér. Svo rann stóra stundin upp þann dag voru planaðar ekki bara ein heldur tvær sýningar á LOTR the return of the king. Sú fyrri kl 15:00 og seinni kl 20:00 og ég vildi náttúrulega fara á fyrri sýninguna þar sem ég gat bara ekki beðið. En þá kom smá upp á.
Ég og foreldrar mínir höfðum ætlað saman, en þann dag var mamma að vinna til kl 16:00. Ég varð brjáluð ég nauðaði og nauðaði í pabba þar til hann samþykkti að við færum á fyrri sýningun og litli bróðir minn með, sem mér fannst svo sem allt í lagi. Mér leið samt pínku illa að fara án mömmu en það varð bara að hafa það. Kl 15:00 sátum við í bíóinu og ég var að deyja úr spenningi. Svo loksins, loksins hófst sýningin, svo kom hlé tvisar og svo kom það sem ég hafði verið að bíða eftir endirinn.
Já ég hafði verið að bíða eftir endinum sem ég hafði orðið fyrir svo miklum vonbrigðum með í bókinni, ég hlakkaði til að sjá hvernig Peter Jackson myndi túlka hann. Svo þegar The end birtist á skjánum og tónlistin byrjaði að óma og stafirnir að renna yfir skjáin og allir stóðu upp var ég… fullkomlega sátt. Ég hafði greinilega bæði þurft að lesa og sjá endinn á þessu meistaraverki til að verða sátt við hann og þegar ég sá hann í fyrsta skiptið eftir að hafa lesið hann þrivsar varð ég, eins og ég er búin að segja var, loksis sátt.
Og svo fór ég aftur á myndina kl 20:00 og þá með mömmu og fannst hún jafnvel betri í seinna skiptið.Það var bara tilfinningaflóð sem vildi ekki stoppa. Daginn eftir var ég í hálfgerði leiðslu og átti erfitt með að fylgjast með í skólanum.
Það sumar tók ég mig til og gerði tilraun tvö á Silmerilinum ég hafið byrjað á honum eftir að hafa fengið Hobbitann og LOTR lánaðar í annað skiptið á bókasafninu. Ég taldi að fyrst þegar ég hafði fengið hana lánaða hafi ég bara einfaldlega verið of ung til að ráða við svona, flókna sögu með svona mörgum persónum. En í þetta skiptið hélt ég áfram þar sem frá var horfið og tókst (og það er mér mikil skömm að segja þetta) naumlega að klára hana á útlánstímanum sem var 1 mánuður. Ég held að ég sé bara ekki Sílmeríls manneskja og vil bara biðja alla þá sem dýrka Sílmerílin fyrirgefningar. En ég ætla mér að reyna aftur við hann og hvort mér tekst að sigra Sílmerílin eða ekki verður bara að koma í ljós. En ég bæti þetta upp með því að hafa lesið LOTR og Hobbitann 5 sinnum og ég hef líka lesið ævisögu Tolkiens sem er mjög góð.
Svona í endan vil ég bara segja að ég tel að heimur minn væri mun fátæklegri ef ég hefði ekki kynnst þessum yndislega heimi Tolkiens og öllum persónum hans og ég mun örugglega halda áfram að lesa LOTR og Hobbitann aftur og aftur um ókomna framtíð og alltaf upplifa sama yndislega tilfinningaflóðið. Sérstaklega þegar ég les LOTR þar sem Hobbitinn er bara ekki eins góð bók og öll miklu minni í sniðum og nær engan vegin að láta mig upplifa það sama og þegar ég les LOTR en engu að síður er hún góð bók sem á allt gott hrós skilið.
En alvöru hrósið á höfundur allra þessara bóka (LOTR, Hobbitinn og Sílmerílinn) skilið og þá er ég náttúrulega að tala um J.R.R. Tolkien, að láta sér detta slíkt stórvirki í hug og hafa þolinmæði í að festa það allt á blað og þróa heim þess í nánast fullkomnun. Það er eitthvað sem mjög fáum rithöfundum hefur tekist og fyrir það hefur Tolkien alla mína virðingu. Vildi ég bara óska þess að ég hefði getað hitt hann til að votta honum virðingu mína og segja honum að bók hans hefði auðgað líf mitt meira en allar aðrar bækur sem ég hef lesið, til samans. Það að hann skildi eyða svona mörgum árum ævi sinnar í að þróa þetta stórvirki sem Hringadróttinssaga er, gerir Tolkien að stórkostlegum manni.
Og hér með líkur þessari reynslusögu minni af LOTR þótt ég hafi aðeins sagt frá reynslu minni með hinar bækur Tolkiens líka. Og svona í bláendan vil ég hveta alla til að skrifa sínar eigin reynslusögur um hvernig þeir kynnstust bækum Tolkiens og líka benda þeim á komandi reynslusögu mína um Harry Potter á samnefndu áhugamáli hér á Huga.is.
Vona að þið hafið notið þessara “stuttu” reynslusögu.
Kveðja Catium.
P.S. endilega komið með álit bara ekki mjög kvikindisleg því að þá á ég aldrei aftur eftir að þora að skrifa aðra grein og senda inn á Huga.is.
Heimsyfirráð, súkkulaði og Harry Potter.