Meriadoc (Merry) Brandybuck Ég ætla að skrifa hér smá umfjöllun um uppáhaldshobbitann minn, hann Meriadoc Brandybuck, eða Káradúk Brúnbukk eins og hann er kallaður á íslensku. Ég mun þó nota í bland íslensk og ensk nöfn og hugtök í þessari grein (reyndar eru ensku nöfnin mér miklu tamari en þau íslensku). Vona að þið fyrirgefið mér það.

Nú, Meriadoc, eða Merry eins og hann var alltaf kallaður, var fæddur og uppalinn í Bukksveit (Buckland), rétt fyrir utan Héraðið, árið 1382(samkvæmt Héraðstímatali). Faðir hans var Saradoc Brandybuck, Meistari af Bukksveit (Master of Buckland), sem var nokkurs konar ættarhöfðingi yfir sveitinni. Móðir Merrys hét Esmeralda Took, en hún var systir Paladin Took, Fylki (Thain) af Héraði og föður Pippins (sem þýðir að þeir Merry og Pippin voru systkinasynir). Merry var einkabarn foreldra sinna, og þar sem hann og Pippin voru nú synir fínasta fólksins í Héraðinu, gátu þeir í rauninni gert það sem þeim sýndist oftast nær (ekki ósvipað og synir betra fólks í Englandi, á þeim tíma sem Tolkien var að alast upp).
Eins og flestir Bukksveitungar var Merry ansi laginn við báta, og það er mjög líklegt að hann hafi lært að synda líka, þar sem margir Bukksveitungar voru einnig syndir (ólíkt flestum öðrum hobbitum á Héraði). Hann var að minnsta kosti engan veginn vatnshræddur.
Merry var góður vinur Frodo Baggins frænda síns, en þeir tveir voru skyldir bæði í föður- og móðurætt (ég ætla ekki að rekja það hér, þar sem það væri að æra óstöðugan að átta sig á skyldleika hobbitanna hægri og vinstri… kíkið bara í ættartölurnar). Merry var Frodo til dæmis til aðstoðar bæði í afmælisveislunni frægu þar sem Bilbó Baggins hvarf, og einnig þegar Frodo síðar seldi Bag End og flutti niður í Crickhollow (Krika) í Bukksveit, þar sem hann keypti hús sem var í eigu Brandybuck-fjölskyldunnar (Merry hjálpaði til við þau viðskipti). Þetta gaf Merry ágætis tækifæri til að njósna um Frodo og Hringinn hans, en Merry hafði af einskærri tilviljun orðið vitni að því þegar Bilbó setti upp hringinn, eitt skiptið þegar leiðindakellingin hún Lóbelía Sackville-Baggins birtist.

En jæja, eins og við öll vitum, þá varð það svo úr að þegar Frodo ásamt Sam yfirgaf Héraðið með Hringinn, þá fór Merry ásamt Pippin með þeim. Þetta var árið 1418, þegar Merry var 36 ára. Þegar þeir komu síðan til Rivendell, voru þeir fyrir tilstilli Gandalfs valdir í Föruneyti Hringsins. Elrond ætlaði fyrst ekki að leyfa þeim að fara með, ætlaði reyndar að senda þá heim, en Gandalfur taldi að vinátta myndi ekki skipta síður máli í Föruneytinu en vopnfimi, og á það félst Elrond.
Merry og Pippin voru síðan með Föruneytinu allt þangað til þeir síðan féllu í hendur Orkanna við Amon Hen. Síðan, eins og við vitum, sluppu þeir, komust í kynni við Treebeard í Fangorn-skóginum, og saman hjálpuðust Merry, Pippin og Enturnir við að leggja Isengard í rúst. – Í Fangorn-skóginum gerist það einnig að þeir Merry og Pippin drukku af Entamjöðinum, sem olli því að þeir tóku vaxtarkipp og náðu mestu hæð sem hobbitar höfðu náð, eða 6 og hálft fet (um 135 cm eða svo).

Nú, ég ætla kannski ekki að rekja söguþráðinn mikið frekar, en þegar Pippin fór síðan með Gandalfi til Minas Tirith, fór Merry með hinum til Helm’s Deep og síðan til Edoras. Merry komst þar í kynni við Théoden Róhanskonung, og hreifst svo mikið af honum að hann gekk í þjónustu hans. En þar sem Merry var jú bara lítill hobbiti, vildi Théoden ekki leyfa honum að koma með til Pelennorvalla, þar sem orrustan um Minas Tirith var háð. Merry varð náttúrulega mjög svekktur yfir því, þar sem allir vinir hans voru farnir burt, og honum fannst það skammarlegt að vera skilinn eftir. En Éowyn, sem vildi líka berjast en fékk það ekki vegna þess að hún var kona, aumkaði sig yfir hann og laumaði honum með sér til Pelennor, þar sem þau tvö felldu síðan Nornakonunginn frá Angmar, leiðtoga Nazgúlanna. Þau voru reyndar í kjölfarið á því slegin svo illa af hinum svarta andardrætti (black breath), að þau hefðu dáið, hefði Aragorn ekki bjargað lífi þeirra með athelas-jurtinni.
Fyrir þetta afrek var Merry síðan gerður að heiðursriddara af Róhan, og þau Éowyn og Éomer kölluðu hann alltaf Meistara Skjólvin (Master Holdwine). Merry hafði verið viðstaddur þegar Théoden konungur féll á Pelennorvöllum, og syrgði hann mjög, því hann hafði byrjað að elska hann sem sinn eigin föður.

Þegar Merry kom síðan aftur til Héraðs ásamt félögum sínum, seint á árinu 1419, naut hann góðs af þeirri reynslu sem hann hafði fengið í hernaðinum fyrir sunnan, þegar Sarúman og hyski hans voru nánast búnir að leggja Héraðið algjörlega í rúst. Þegar Éowyn kvaddi Merry í Róhan, hafði hún að skilnaði gefið honum lítið horn, sem hafði verið smíðað af dvergum. Í þetta horn blés síðan Merry, til þess að ræsa Héraðið til uppreisnar gegn ribböldum Sarúmans. Merry og Pippin, ásamt Sam (Frodo vildi ekki berjast), leiddu síðan uppreisnina, eða Héraðshreinsunina svokölluðu, og tókst að sigrast á ribböldunum og hrekja þá burt. Merry drap einnig einn af leiðtogum ribbaldanna. – Síðar þegar gerður var listi yfir þá sem höfðu tekið þátt í Héraðshreinsuninni, voru nöfn Merrys og Pippins efst á listanum.

Þegar faðir Merrys, Saradoc, lést síðan árið 1432, tók Merry við titlinum Meistari af Bukksveit. Um einkalíf hans er ekki mikið vitað, en þó er vitað að hann kvæntist stúlku að nafni Estella Bolger, en hún var yngri systir Fredegars (Fattys) Bolger, sem var góður vinur Merrys. Ekkert er vitað um fjölda barna þeirra, en þau áttu mjög líklega að minnsta kosti einn son.
Merry var einnig afkastamikill rithöfundur, og skrifaði meðal annars bók um jurtir á Héraði (þar á meðal reykurtina frægu), og aðra bók um forn nöfn og orð í Héraði og skyldleika þeirra við róhönsk orð.
Merry hélt ávallt vinskap sínum við þau systkin Éomer og Éowyn, og árið 1484, þegar Merry var 102 ára og Estella kona hans látin, fékk hann skilaboð frá Éomer Róhanskonungi um það, að hann lægi fyrir dauðanum og langaði til að sjá Merry í síðasta sinn. Þá varð það úr að þeir Merry og Pippin sögðu báðir af sér embættum sínum og fólu þau sonum sínum, og lögðu svo af stað til Róhan, þar sem þeir dvöldust þangað til Éomer konungur lést. Eftir það fóru þeir til Gondor, þar sem þeir dvöldust síðan í Minas Tirith síðustu æviárin.
Bæði Merry og Pippin voru síðan jarðsettir í grafhýsinu í Rath Dínen, sitt hvoru megin við gröf Aragorns konungs.

Mér finnst Merry alltaf svo heillandi persóna í bókinni, því hann er alltaf svo mikill róttæklingur, þ.e. hann er svona persóna sem vill aldrei bara sitja á rassinum og gera ekkert, þegar eitthvað mikið liggur við. Og hann er líka svo tryggur vinur vina sinna, sérstaklega Pippins og Frodos.
Til gamans ætla ég að geta þess, að nafn Merrys, “Meriadoc Brandybuck” er í rauninni bara ensk þýðing á hinu raunverulega hobbitanafni hans, sem er “Kalimac Brandagamba”. Kalimac var svo yfirleitt stytt niður í “Kali” (engin tengsl við indversku gyðjuna), sem þýðir einmitt “kátur”. :)

Jæja, ég vona að þetta hafi verið eitthvað bitastætt. Ég þakka fyrir mig, og góðar stundir.

Kveðja,
Hrafnista

PS: Ef þessi grein kemst inn, þá skrifa ég kannski eitthvað um Pippin seinna. Við sjáum til. ;)