Sméagol Sméagol / Gollum

Sem aðra grein mína í greinasamkeppninni(eftir Tom Bombadil greinina), ætla ég mér að skrifa um Gollum, eða Sméagol eins og hann hét upprunalega. Ég mun ræða um líf hans áður en Hringurinn tók yfir honum, einnig mun ég ræða um lífið í hellunum(sem var þó frekar einhæft). En ég mun lítið sem ekkert fara út í ferð hans með Frodo og Sam til Mt. Doom(við þekkjum hana öll). Ég vil einbeita mér að hlutunum sem allavega einhverjir kannast ekki við. En takið eftir, að hluti af greininni er eiginlega bara endursögn úr köflum úr The Hobbit. Annars er þetta að mestu leyti samansöfnun af atburðum í lífi Sméagols.

Svo hef ég ákveðið að hafa greinina með einungis enskum nöfnum þar sem ég ræð ekki við að finna öll íslensku orðin yfir þau. Ef þið finnið það í ykkur að taka tillit til þess þá væri það mjög gott. Ég einfaldlega verð að gera þetta frekar en að hafa sum á ensku og sum á íslensku, og hafa hana enn asnalegri.

Sméagol var persónan sem hjálpaði Frodo og Sam að komast alla leið að Mt. Doom, án hans hefði Hringnum ekki verið eytt. Og án hans hefði Middle-earth mögulega fallið. En af honum stafaði þó mikil hætta, þó honum langaði til að hjálpa Frodo og Sam, hafði hann alltaf í huga að drepa þá á leiðarenda, eða láta “hana” drepa þá.

En eins og maður segir; “first thing’s first”.

Sméagol var af hobbitategund, og var hann kominn af hobbitunum sem höfðu yfirgefið Eriador og haldið til Gladden Fields í kringum 1355 á þriðju öld. Gladden Fields láu í kringum Gladden ánna sem rann út í Anduin ánna úr vestri. Þessir hobbitar voru komnir af stoor hobbitunum, og lifðu þarna ágætis lífi, aðeins einfaldara en venjulegir hobbitar lifðu, en þó meira og minna venjulegu hobbitalífi.

Sméagol lifði þarna með sínu fólki. Hann var kominn af mikilli og virtri fjölskyldu. Hann bjó í holu ömmu sinnar, sem var einmitt ættmóðir fjölskyldunnar. Þarna var Sméagol kallaður Trahald, sem er í raun sama nafn og Sméagol, og hefur sömu merkingu. Hann lifði góðu lífi þarna og átti vini og ættingja sem þóttu afar vænt um hann. Amma hans sagði honum oft sögur sem Sméagol þótti gaman að. Hann fór einnig oft að veiða með vini sínum Déagol(Nahald). Þeir höfðu báðir mikið gaman að því að fara öðru hvoru og veiða saman í Gladden ánni. Þeir tveir eru stundum sagðir frændur, en það er einfaldlega vegna þess að ættirnar sem voru þarna á þessu svæði voru það litlar að þarna voru næstum allir skyldir.

Á afmælisdag Sméagol’s fóru vinirnir tveir að veiða í ánni, og kom að því að Déagol náði fisk, en þó tókst honum ekki að draga hann upp í bátinn, í staðinn datt hann ofan í ánna og ákvað svo að elta fiskinn í vatninu. Örstuttu seinna sá hann eitthvað glóandi á botni árinnar, og sleppti hann þá veiðistönginni og ákvað að fara og ná í það sem hann sá. Hann sá að það lá gullhringur á botni árinnar. Hann tók hann og synti með hann upp á bakkann þar sem hann skoðaði hann vandlega. Sméagol kom fljótlega til hans til að athuga með hann. Þegar Sméagol sá hringinn, varð hann strax heillaður af fegurð hringsins. Hann bað Déagol um að gefa sér hringinn í afmælisgjöf, en Déagol neitaði þar sem hann hafði verið búinn að gefa honum gjöf sem var meira virði en hann hafði efni á.

Sméagol gerði sér grein fyrir að Déagol vildi ekki gefa honum hringinn og endaði þetta með því að Sméagol kyrkti Déagol, faldi líkið og tók hringinn. Fjölskylda Déagol’s vissi aldrei hvað orðið hafði um hann.

Fljótlega eftir að Sméagol kom heim aftur eftir veiðiferðina, áttaði hann sig á því að hringurinn sem Déagol hafði fundið gat gert notanda hringsins ósýnilegan. Þetta kom honum skemmtilega á óvart, og notaði hann hringinn til að stela hlutum af fólki og komast að leyndarmálum um hina og þessa.

Seinna komst þetta upp og varð hann þá fyrirlitinn af fólkinu í kringum sig. Hann byrjaði að framkvæma skrítin hljóð í hálsinum á sér, sem hljómuðu mjög líkt nafninu Gollum. Þetta varð að því að fólkið í kringum hann byrjaði að kalla hann Gollum. Amma hans kastaði honum út úr holunni hennar og vissi Sméagol þá ekkert hvað hann átti að gera. Hann byrjaði að reika norður með Anduin ánni. Labbaði hann svo upp með lækjarsprænu upp að Misty Mountains og endaði það með því að hann fann gat í fjallinu þar sem hann komst inn í fjöllin. Þarna ákvað Sméagol að kveðja lífið undir himnum og halda niður til hellana undir Misty Mountains(þetta gerðist árið 2470). Eftir að hafa lifað í myrkrinu fór Sméagol að hata ljósið frá sólinni og tunglinu. Hann fór jafnvel að hata allt að utan, og lifði aðeins einn í myrkrinu með hringinn sinn.

Í rúm fimm hundruð ár lifði hann á lítilli eyju í neðanjarðarvatni. Hann hafði aðallega lifað á fisk og fannst hann orðinn bestur hrár. Í fyrstu hafði Gollum alltaf hringinn í för með sér hvert sem hann fór, en kraftur hringsins fór að fara illa með hann og ákvað hann þá að geyma hringinn í litlu hreysi sem hann bjó í á eyjunni litlu.

Gollum var orðinn sjúskaður og aumur. Þó sjón hans og snerpa héldust í toppstandi. Hann missti nær öll hár og hélt aðeins sex tönnum. Líkami hans minnkaði og var hann orðinn nær óþekktur sem hobbiti lengur. Gollum hélt einnig heyrninni og gat því enginn læðst upp að honum, hann heyrði í minnstu hlutum í órafjarlægð.

Hringurinn skynjaði að kraftur Sauron’s jókst í austrinu og ákvað hann því að flýja Gollum. Ég get nú sjálfur ekki ímyndað mér hvernig hringurinn fór að þessu, en einhvern veginn átti hann að hafa flúið.

Árið 2941 er hobbitinn Bilbo Baggins á leið í gegnum helli Gollum’s og finnur hann þá hring, gullhring sem hann tók upp og setti í vasann. Gollum kom auga á Bilbo og fylltist forvitni, enda hafði hann ekkert séð nema fiska og orka í rúm 500 ár.

Þeir enda með því að fara í gátukeppni, með þeim skilyrðum að ef Gollum ynni þá mætti hann éta Bilbo og ef Bilbo ynni þá myndi Gollum sýna honum leiðina út. Þar sem Bilbo var nokkuð mikið villtur hvort sem er þá samþykkti hann skilyrðin. Gátuleikurinn endaði svo með því að Bilbo spurði Gollum hvað hann væri með í vasanum, Gollum kvað það vera ósanngjarna spurningu en þó vissi hann það ekki. Hann fékk þrjár tilraunir og giskaði fyrst á hendurnar á Bilbo(sem var ekki rétt því hann hafði verið nýbúinn að taka þær úr vasanum), svo giskaði hann ef mig minnir rétt á vasahníf og snæri, sem var hvort tveggja vitlaust.

En nú er ég kominn út í hreina endursögn, en ekki ætla ég mér að halda svoleiðis áfram. En gátuleikurinn endar með því að Bilbo vinnur og ætlar svo Gollum aftur til að ná í hringinn(og drepa Bilbo) en áttar sig þá á því að hann sé farinn. Eltir hann þá Bilbo út, en áttar sig ekki á því að Bilbo hafði sett hringinn á sig og endar það þannig að Bilbo eltir Gollum út.

Þarna sleppur Bilbo með hring Gollum’s útúr hellinum og fyllist Gollum þá hatri og sorg. Hann týnir Bilbo einfaldlega og getur ekki elt hann vegna orka sem bíða fyrir utan.

Þremur árum síðar sér Gollum að hann getur ekki lifað án hringsins, þannig hann ákveður að yfirgefa hellinn og byrja leitina að hringnum “sínum”. Gollum var líka orðinn sterkari eftir að hafa týnt hringnum, og var hann orðinn tilbúinn til að drepa þann sem tók hringinn.

Hann byrjaði á því að fara í gegnum Mirkwood og þaðan til Dale. Ekkert fann hann þar, en heyrði hann sögur í Dale um Bilbo. Sögur af honum og Thorin að reyna að ná Lonely Mountain aftur af drekanum Smaug. Hann komst einnig að því að Bilbo bjó í landi sem kallað var The Shire.

Gollum ætlaði þá að snúa sér vestur og fara til The Shire, en einhvern veginn fór hann að því að reika suður í staðinn. Sauron var að safna öllum illum til sín og var Gollum einn af þeim. Árið 3017 nær Sauron Gollum og pínir hann og kvelur, þangað til að Gollum kallar út tvö orð; Shire og Baggins. Þessi orð vísa nokkuð beina leið beint á hringinn og sendi Sauron því þjóna sína til að athuga málið frekar. Þó gaf Gollum í skyn að The Shire væri austan við Misty Mountains í staðinn fyrir vestan við þau. Gollum var svo sleppt.

Stuttu eftir að Gollum hafði verið sleppt náði Aragorn honum. Aragorn setti reipi í kringum háls hans og endaði með að fara með hann til Mirkwood, til Thranduil konungs. Þar hittu þeir Gandalf og byrjaði þá Gandalf að spyrja Gollum ýmissa spurninga. Komst Gandalf þá að öllu um hann.

Seinna komst Sauron að því að Gollum væri haldinn fangi norðar í Mirkwood(þetta var þegar Sauron hélt sig í Dol Guldur í Mirkwood) og sendi hann þá þjóna sína þangað. Svo þegar Gollum var klifrandi í trjám skógarins, komu orkar og réðust á álfana og slapp þá Gollum frá álfunum, Aragorn og Gandalf.

Þrá Gollum’s til að ná hringnum eina aftur var ennþá mikil og ákvað hann að halda til The Shire. Leið hans lá að Misty Mountains og í gegnum þau. Þegar hann loksins fann vestri hlið Moria, áttaði hann sig á því að hann kunni ekki að opna það. Þannig að hann komst ekki þar út.

Ekki leið á löngu þar til dyrnar opnuðust og birtust fyrir honum níu manns. Þetta var föruneytið sjálft á leið sinni í gegnum Moria. Það var þarna þar sem Gollum byrjaði að elta föruneytið. Gandalf var að sjálfsögðu strax var við hann, en hinir tóku eftir honum aðeins seinna.

En ég ætla mér ekki að skrifa meira um líf hans, þar sem þið vitið öll hvað gerist eftir þennan atburð. En eins og flestir vita þá endar hann með því að detta ofan í The Cracks Of Doom, og síðasta orð hans var “precious..”.


En eins og ég sagði í byrjuninni; þá var Gollum hliðin alltaf bundin hringnum, en Sméagol hliðin langaði virkilega að hjálpa Frodo og Sam. Þetta voru taldar tvær hliðar Gollums/Sméagols. Til gamans má geta að Sam hafði skýrt þessar hliðar; Slinker(Sméagol hliðin) og Stinker(Gollum hliðin). Án Gollum’s hefði Frodo aldrei náð að eyðileggja hringinn, og hefði þá Middle-earth fallið undir vilja Sauron’s. Þó Gollum sjálfur hafi ekki eyðilaggt hringinn, þá hefði hins vegar aldrei verið hægt að eyðileggja hann án hans.

Sméagol hliðin hafði greinilega yfirhöndina mest allan tímann, nema í endann, þá náði Gollum hliðin að taka yfir honum og reyndi hann þá að drepa Frodo og ná hringnum af honum. En ég sjálfur hefði gaman að því að sjá hvernig Sméagol hefði orðið eftir eyðileggingu hringsins, hann hefði kannski orðið fúll. En hvað eftir það? Hefði hann orðið venjulegur, ég hefði gaman af því að vita það. Aldurinn hefði örugglega náð honum, en þó hefði hinn rétti Sméagol kannski snúið alveg aftur.

Og ekki er það nú meira í bili…

Ég skrifaði mikið um líf hans áður en hann hittir föruneytið, og skrifaði ég lítið þegar Gollum var að elta það eða þegar hann var með Frodo og Sam. Ég vil einfaldlega bara fræða fólk um það sem það kannski veit ekki, en ekki vera að segja því það sama og myndirnar gera.


Orðið Sméagol:
Til gamans má geta að orðin Sméagol og smial(hobbitaorðið fyrir hobbitaholu) er upprunið af sama orðinu; smygel. Þetta orð er komið úr engilsaxnesku. Þessi orð þýða á ensku “burrow” sem þýðir að grafa undir e-ð. Sméagol hafði einmitt gaman að því að grafa ofan af hlutum og sjá hvað væri hulið bakvið.


Ég vona innilega að þið hafið notið greinarinnar.

Takk fyrir,
Steinþór.


Heimildir:
1. – http://www.tuckborough.net – Tuckborough
2. – http://www.councilofelrond.com – Council Of Elrond
3. – http://www.hobbitslive.com/gollum.html – Hobbits Live
4. – http://www.glyphweb.com/arda – Encyclopedia of Arda