Mig langar að taka þátt í þessari greinasamkeppni en vissi ekki alveg um hvað ég átti að skrifa, ég er búinn að lesa yfir mig um allt sem tengist bæði höfundinum og sköpunarverki hans og gæti alveg skrifað eitthvað svakalega fræðilegt um það en ég er bara ekki nógu góður í því og ætla að leyfa öðrum að sjá um það.
Ég ákvað þess í stað að skrifa um það hvernig ég kynntist þessari sögu og afhverju ég elska hana jafn mikið og ég geri.
Ég var að ráfa eitthvað um bókasafnið í grunnskólanum mínum að leita mér að einhverju að lesa þegar ég sá þessa ljósbrúnu þykku bók í einni hilluni, ég tók hana út og leit á kápuna, þar var mynd af einhverjum hring og svo eitthvað dót í kringum það, mér fannst það spennandi og af einhverjum ástæðum minnti það mig á Narníu bækurnar sem ég var þá nýbúinn að lesa.
Ég tók bókina og spurði einn bókasafnsvörðinn hvort hún hefði lesið hana og hún sagði já og mælti eindregið með henni.
Ég fór með hana með mér heim og byrjaði að lesa. Það er skemmst frá því að segja að mér fannst hún alveg hundleiðinleg - nennti ekki að lesa einhverjar 100 blaðsíður um afmæli hjá einhverjum matarsjúkum dverg, ég gafst þessvegna upp og skilaði henni daginn eftir. Sagði konunni að ég gæti ekki ímyndað mér að bók þar sem 1/5 af sögunni væri um veislu gæti ekki verið skemmtileg.
Hún sagði mér þá að þetta væri fyrsta bókin af þremur, næsti hluti myndi koma út næstu jól. (þetta var þegar verið var að gefa út þýddu útgáfurnar)
“NÆSTU JÓL!!” - átti ég að fara lesa fyrsta hlutann af sögu og geta svo ekki fengið framhaldið fyrr en mörgum mánuðum seinna, ég hélt nú ekki.
Ég gleymdi þessari asnalegu sögu og sneri mér að öðru.
Í einhverjum próflestrinum næsta vetur rak ég svo aftur augun í þessa bók, nema að nú var komin önnur við hliðina á henni í sama ljósbrúna lit, aftur heillaði kápan mig og ég ákvað að gefa henni annan séns - En allt fór á sama veg, í miðju afmæli gafst ég upp og skilaði bókinni.
Það var svo ekki fyrr en í þriðju atrennu sem ég náði að hanga út allt afmælið. Bókasafnsvörðurinn kom að mér síðasta prófdaginn með allar 3 bækurnar í poka og sagði mér að ef ég myndi lesa bækurnar í jólafríinu og koma svo til hennar og segja henni að mér fyndist þær leiðinlegar þá myndi hún aldrei aftur skamma mig fyrir að tala hátt á bókasafninu.
Ég tók tilboðinu og fór með bækurnar heim.
19. desember lagðist ég svo í rúmið mitt og hóf lesturinn, næstu dagar eru svo í hálfgerðri móðu, en það næsta sem ég man er að 26. desember stóð ég uppúr rúminu.
Ég var búinn að lesa síðustu setninguna í síðustu bókinni, ég vissi ekkert hvað ég átti að gera, ég var búinn að missa af jólunum.
Og ég grét, hágrét. Ekki afþví að bókin var svona sorgleg, heldur afþví að ég vissi ekkert hvað ég átti að gera. Var þetta bara saga, ég neitaði að trúa því að þetta væri bara skáldsaga um fólk sem var ekki til og hafði aldrei verið til. Þessi heimur var jafn raunverulegur og sá sem ég lifði í, ef þetta fók var ekki til þá var það svo gott sem dáið og það þýddi að ég var búinn að missa marga vini á örfáum sekúndum.
Hvað á maður að gera þegar maður er búinn að lesa alla Hringadróttinssögu á nokkrum dögum, búinn að lesa bestu sögu sem samin hefur verið?
Ég fór fram í móki, þar var fjölskyldan að undirbúa sig fyrir eitthvað jólaboð, ég nennti ekkert að fara í eitthvað asnalegt jólaboð, ég myndi bara grenja þar líka.
Ég laug því að mér væri illt í maganum, meikaði ekki að fara í boðið.
Fór aftur inní herbergi, opnaði Föruneyti hringsins og byrjaði uppá nýtt - Fróði, Sómi, Aragon, Myrkviður, Trjáskeggur, Fangorn að Gandalfi sjálfum ógleymdum og Miðgarður allur beið eftir mér - því á meðan ég var að lesa, þá voru þessir vinir mínir ennþá á lífi.
Seinna gerði ég mér svo grein fyrir því að það eru alltaf einhverjir að lesa þessa sögu og munu gera það um ókomna framtíð, sem þýðir að þessir bestu vinir mínir munu lifa góðu lífi löngu eftir að hef yfirgefið þennan heim….
Takk fyrir mig.
PS: Ég hætti samt ekki að tala hátt á bókasafninu