Góðan daginn Hugarar nær og fjær.

Þegar ég sá í gær grein eftir ‘hvurslags’, stjórnanda hér á Tolkien áhugamálinu, þar sem hann greindi frá því að hann og Feanor ætli að standa að greinarsamkeppni, hugsaði ég “Uh uh uh, ég ætla svo sannarlega að taka þátt í þessu kvikindi!” og í dag ætla ég að hefja þátttöku mína. Ég byrjaði að hugsa í gær um hvað í ósköpunum ég ætti að skrifa og komst að þeirri niðurstöðu að það er búið að skrifa um langflest sem mig langaði að skrifa um - þannig ég ákvað að skrifa um eitthvað sem enginn annar Hrannar hefur skrifað um. Ég veit ekki alveg hvernig ég kem orðum að þessu, en ég byrja bara að skrifa - og vonandi, þó það sé ekki beint líklegt, verður einhver punktur þarna í þessu öllu saman.

-

“Pabbi, hver af þeim er Fróði?” – “Mamma, eru þetta hobbitar?” “Af hverju er þessi gamli karl alltaf með staf með sér?” - Þessar spurningar, og svona þrjúhundruð aðrar, heyrast oft á tíðum þegar Hringadróttinssaga er sýnd – hvort sem það er í kvikmyndahúsi, skemmtiferðaskipi, flugvél, á heimili eða hvar sem er. Ekki ætla ég að fara að pirra mig á því, heldur ætla ég að skrifa um vinsældir bókanna, ímyndir fólks á persónunum, vinsældir bókanna eftir myndirnar og margt fleira sem einfaldlega dettur inn jafn óðum. Ef þið eruð með ofnæmi fyrir stafsetningarvillum þá mæli ég með því að þið takið pillurnar, nefspreyjið og augndropana þegar í stað því hérna byrjum við.

Alltof margir lásu Hringadróttinssögu eftir að þeir sáu myndina(r), sem er synd í sjálfu sér en samt sem áður skiljanlegt. Helsti gallinn við það er sá að fólkið lætur Peter Jackson, og þá sem komu að myndunum, ráða hvernig heimurinn, persónurnar og allt apparatið lítur út - í stað þess að ímynda sér þetta á meðan það les bækurnar og hugsa svo í kvikmyndahúsinu annars vegar ‘Vá, þetta er alveg eins og ég ímyndaði mér’ eða hins vegar ‘pff.. þetta lítur ekkert svona út í bókinni’

Mín reynsla af þessu öllu saman er sú að ég las bækurnar fyrst er ég var 13,7 ára gamall og hef lesið þær, og hinar Tolkien bækurnar, nokkrum sinnum eftir það. Ég hugsaði í kvikmyndahúsinu þann 26. desember árið 2001 ‘Vá, þetta er alveg eins og ég ímyndaði mér’ á meðan gamla herfan við hliðina á mér, sem ég þekkti ekki baun, hugsaði ‘pff.. þetta lítur ekkert svona út í bókinni’ - En síðan var auðvitað fólk þarna sem vart vissi um hvað Hringadróttinssaga fjallaði, og hafði einungis séð auglýsingarnar og smá brot úr myndinni; Það fólk kalla ég mömmu. Hún móðir mín, eins öldruð og hún nú er, hefur aldrei lesið Hringadróttinssögu og sá hún ekki fyrstu myndina fyrr en ég keypti hana á DVD 8. ágúst árið 2002. Henni fannst hún ótrúlega mögnuð en sofnaði síðan yfir Tveggna Turna Tal þegar ég keypti hana c.a. ári seinna…

Þið sem skörp getið talist tókuð e.t.v. eftir því að ég kom með nokkrar setningar þarna í byrjun greinar - spurningar sem ég hef ekkert talað um, en núna er komið að því. Það eru alltaf einhver börn sem einfaldlega hrífast að sögunni, persónunum, og bara ‘jú neim itt’ - svona krakkar eins og 10 ára gamall bróðir minn sem hefur bara lesið teiknimyndabækurnar og svo séð myndirnar aðeins of oft. Það er auðvitað frábært þegar börn geta farið með foreldrum sínum og systkynum að sjá þessar myndir, og jafnvel lesið bækurnar með einhverjum eða bara hlustað á einhvern sem les uppúr bókinni - og ég tala nú ekki um þegar þau eru farin að lesa 300ogeitthvað blaðsíðna bækur á eigin spýtur.

Tölvuleikirnir sem komu í kjölfar kvikmyndanna eiga sjálfsagt einhvern þátt í vinsældum myndanna meðal barna – þó svo að ég hafi mjög gaman af þessum leikjum, sem eru einstaklega vandaðir og stórskemmtilegir. Ég hef ekki orðið var við neina teiknimyndaþætti sem tengjast Hringadróttinssögu – en ef það er búið að gera þannig þætti, þá hljóta þeir að vera vinsælir – nema þeir séu sýndir bara sýndir í einhverju landi þar sem einungis 3% þjóðarinnar eiga sjónvarpstæki. En engu að síður, þá henta þessar bækur öllum – alveg frá 5 ára börnum upp til elstu manna.

Helsti punktur þessarar greinar er sá að Tolkien bjó til heim sem allir geta fundið sig í; Heim sem allir geta misst sig í og gleymt sér í – og þ.a.l. gleymt sínu fábrotna lífi. Þannig snilligáfa vex ekki á hverju strái.

Kveðja,
Hrannar Már.