Uppáhalds persónan mín - Legolas Uppáhalds persónan mín – Legolas


Jæja svona til að halda áfram greinaskrifum á áhugamálinu ætla ég nú að fjalla örlítið um uppáhalds persónuna mína í Hringadróttins sögu, álfinn Legolas.
Til að byrja með koma hér nokkrar staðreyndir um Legolas. Legolas var sindarin álfur, þ.e. hann var af þeim stofni álfa sem ekki höfðu ferðast til Valalands á forndægrunum. Þess er ekki getið í bókum Tolkiens hvenær Legolas var fæddur en það kemur fram í viðauka Hringadróttins sögu að eftir að Aragorn konungur dó hafi Legolas loks hlýtt kalli hafsins og siglt
yfir hafið.
Nafn Legolasar; Legolas Grænalauf (Greenleaf) merkir í raun grænt lauf eða græna lauf. Þ.e. eftir því sem ég best skil hét hann græna lauf bæði að fyrra og seinna nafni. Legolas bjó fyrir Hringastríðið í Skóginum Myrkviði (Mirkwood) þar sem faðir hans, Thranduril var konungur. Í Myrkviði héldu álfarnir á tímabili Gollri föngnum og erindi Legolasar til Rofadals var upphaflega að tilkynna þar að Gollrir hefði sloppið úr prísundinni. Eins og allir vita varð Legolas í framhaldi af ráðstefnu meistara Elronds einn af félögunum í föruneyti hringsins og fulltrúi álfaþjóðarinnar. Legolas var afar trúr félögum sínum og vék hann aldrei frá Aragorni. Legolas hélt m.a. með honum á Dauðraslóð og barðist við Mínas Tírit auk þess sem hann barðist í orrustunni við Hornaborg og Hjálmsdýpi svo eitthvað sé nefnt. Besti vinur Legolasar var þó dvergurinn Gimli. Þó að samband þeirra hefði verið fullt tortyggni og verið stirt í upphafi urðu þeir félagar síðar óaðskiljanlegir og riðu þeir jafnan saman á hesti Legolasar. Eftir Hringastríðið héldu þeir félagar til Hjálmsdýpis þar sem þeir skoðuðu saman hella sem Gimli var heillaður af. Síðan fóru þeir til Fangorn skógar þar sem Gimli skoðaði þennan dásamlega skóg að mati Legolasar með honum. Síðar fluttist Legolas til Íðilju ásamt fleiri álfum frá Mirkviði.
Legolas var trúlega ein síðustu álfanna til að sigla yfir hafið, og hann smíðaði skipið sitt sjálfur. Hann tók félaga sinn, Gimla með sér. Ekki er vitað um afdrif þeirra eftir að þeir lögðu af stað. Fram kemur að þeir hafi verið svo góðir vinir að þeir hafi ekki viljað skiljast að en einnig að Gimli hafi þráð svo mjög að hitta Galadríeli aftur (en hann dáði álfadrottninguna meira en allt annað) að hann hafi viljað sigla til Valalands til að sjá hana á ný. Hvort Gimla var síðan hleypt inn í Valaland kemur ekki fram í sögunni en ýjað er að því að Galadríel hafi e.t.v. haft einhver ítök til að tala máli hans við Valana.
Svo að einhver einkenni Legolasar séu nefnd má helst nefna skarpa sjón hans. Álfar höfðu flestir skarpa sjón, mun betri en menn og sá hann margar vikur vegar fram fyrir sig. Hann var einnig frár á fæti auk þess að vera léttur á fæti og mjög fótalipur. Sem dæmi um það má nefna þegar hann beinlínis tiplar yfir djúpan snjó í fyrstu bókinni. Legolas þurfti heldur ekki að sofa og var nánast óþreytandi.
Legolas kvikmyndanna er að mínu mati ein sú tignarlegasta persóna sem ég hef séð í kvikmynd. Það er breski leikarinn Orlando Bloom sem fer með hlutverk Legolasar (þó ég vilji helst bara gleyma að þetta sé leikari). Orlando er Legolas í mínum huga og ég get alls ekki hugsað mér að sjá hann í öðrum hlutverkum, því þessi maður er bara Legolas. Ég tek það fram að ég er ekki hrifin af Orlando Bloom sem persónu og finnst ekkert spes við hann, en sem Legolas er hann frábær. Legolas kvikmyndanna er eins og áður segir afar tignarlegur, og eins og leikarinn sagði í Gerð myndanna LOTR, svo glæsilegur að honum fannst hann alltaf verða að vera beinn í baki þegar hann var kominn í gervið. Álfarnir eru fallegustu persónurnar í Hringadróttins sögu, enda áttu þeir að vera mjög fallegir skv. bókunum. Legolas er þarna engin undantekning, hár og ljóshærður með sítt hár að hætti álfanna. Reyndar finnst mér Elrond og Haldír báðir hafa þennan sama tignarlega blæ. Legolas kvikmyndanna er oft á tíðum alvarlegur, hann á sínar bestu stundir í ROTK og þá sérstaklega í hetjulegri baráttu við Mínas Tírit. Hann er einnig spaugsamur og það gerir myndirnar aðeins léttari þegar Gimli og Legolas bregða á leik bæði í TTT og ROTK og telja hve marga óvini þeir fella hvor um sig í nokkurs konar keppni. Flottasta atriðið sem Legolas á í kvikmyndunum er þegar hann klifrar upp á Ollifantinn og ég verð að segja að ég átti bara bágt með mig því mér fannst þetta svo flott atriði.
Þó svo að Legolas kvikmyndanna hafi verið tignarlega klæddur og vel vopnum búinn sá ég hann þó frekar fyrir mér sem græna laufið, grænklæddan og léttfættan skógarálf þegar ég las bækurnar, en þannig er honum lýst í þeim.
Ég veit að þið þekkið þetta allt saman svo ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni en vona að einhverjir hafi haft gaman að. Heimildir eru fengnar úr bókinni (svona það sem ég man úr þeim) og af síðunni http://www.councilofelrond.com/modules.php?op=modload&n ame=Encyclopedia&file=index&action=DisplayTerm&pn_vid=2 &pn_id=1299

Karat