Um Vala

Hér á eftir ætla ég að fjalla í stuttu mála um Valana, en það er til þeirra (til Valinor) sem Álfarnir sigla þegar þeir halda til vesturs. Valarnir tóku mjög virkan þátt í því að skapa jörðina og mætti því líta á þá sem nokkurs konar guði, eða í það minnsta verndara jarðarinnar.

Er, hinn eini Alfaðir, skapaði jörðina; Ördu með aðstoð tónlistar Ænúanna. Alfaðir sýndi Ænúunum jörðina og bauð þeim sem vildu að fara þangað niður og skapa ásýnd hennar, en þangað ætlaði hann að senda börn sín, Álfa og Menn og áttu Ænúarnir að undirbúa Ördu fyrir komu þeirra.
Með þessari frásögn er stiklað mjög á stóru, en til að gera langa sögu stutta þá ákváðu 15 Ænúar að flytjast niður til Ördu og voru það þau Manvë, Varda, Mendos, Javanna, Nienna, Ylmir, Áli, Ormar, Lóríen, Túlkas, Nessa, Este, Vana, Væfra og Melkor (síðar kallaður Morgot) og kölluðust þau síðan Valar. Melkor telst þó ekki lengur með Völum. Með Völunum til Ördu fóru nokkuð margir Majar, sem voru af lægri stétt Ænúa en þeir bjuggu einnig yfir nokkrum mætti Vala. Svo að nokkrir þeirra séu nefndir má nefna Melíönu, sem síðar varð eiginkona Þingólfs (áður nefndur Elvi) sem var konungur Doríants, en þau voru foreldrar Lúþíenar, Sauron, sem var lærisveinn Melkors, Aríen sem stjórnaði hringrás sólarinnar og Tilíon sem stjórnaði ferð Tunglsins. Þess má einnig geta að Gandalfur, Saruman og Ráðagestur voru Majar.
Sá sem var æðstur valanna var Manvë og var hann konungur þeirra og sá sem var nánastur og líkastur Alföður í hugsun og skildi best markmið hans. Manvë elskaði mest vindana og skýin. Hann hafði einnig viðurnefnið Súlímó; höfðingi andardráttar jarðar.
Varda var drottning stjarnanna og hún var mjög fögur. Vördu kölluðu Álfarnir einnig Elberíði; stjörnudrottninguna.
Ylmir var drottinn vatnanna og var næstur Manve að valdi.
Áli var drottinn þess efnis sem jörðin var búin til úr og hann mótaði allt þurrlendið. Hann var járnsmiður og meistari alls konar iðna. Það var hann sem bjó dvergana til því að hann þyrsti í að eignast lærisveina. Upp komst að hann hefði gefið dvergunum líf, en engar mannverur áttu að búa á Ördu á undan börnum Alföður, svo að dvergarnir voru látnir sofa þar til Álfarnir voru komnir fram. Þarna urðu Ála á mistök, en Manvë fann blessunarlega lausn á þessum vanda.
Javanna var eiginkona Ála og hún elskaði allt sem óx á jörðu, hún skapaði gróðurinn. Það var hún sem skapaði ljósatrén tvö á Valalandi, Söngvagull og Stjarneik og af þeim stafaði himnesk birta.
Mandos stjórnar dauðrasölunum, en þangað fara Álfar ef þeir falla. Mandos er einnig dómsmaður Vala og kveður hann upp dóma og úrskurði í boði Manvës. Það var einmitt Mandos sem kvað upp bölvunina yfir Noldum þegar þeir snéru til baka til Miðgarðs frá Valinor.
Lóríen var bróðir Mandosar og hann var meistari drauma og hugsýna.
Níenna var systir þeirra Lóríens og Mandosar, hún grét mein jarðarinnar og harmaði allt sem slæmt var.
Este var eiginkona Lóríens og hún læknðis öll sár og hvíldi þá sem voru þreyttir.
Túlkas, var einnig kallaður hinn hugprúði, hann naut þess að berjast og reyna á kraftana og var alveg óþreytandi. Hann kom til Ördu þegar Valar þurftu á aðstoð að halda gegn hinum illa Melkori.
Ormar elskaði veiðilendur Miðgarðs og það kom í hans hlut að veiða hinar illu skepnur sem Melkor skapaði þar til að ná yfirráðum á Ördu.
Vana var systir Javönnu og eiginkona Ormars, hún lét jurtir vaxa og blóm opnast.
Nessa systir Ormars og kona Túlkasar elskaði dýr skógarins og þau fylgdu henni jafnan.
Væfra var eiginkona Mandosar og var hún vefari sem óf alla hluti og atburði sem urðu í sagnavef sinn sem umlykur sali Mandosar.
Melkor, sem síðar var kallaður Morgot, fyrst af Noldanum Fjanori, var einnig einn af Ænúunum sem tóku þátt í tónlistinni við upphaf heimsins. Hann var sjálfstæður í hugsun og Alfaðir leit á Melkor og Manvë sem bræður. Melkor varð valdasjúkur og vildi skapa sína eigin hluti og reyndi að breyta tónlistarstefum Alföður. Hann vildi ná yfirráðum yfir heiminum og verða þar sjálfur konungur. Hann snérist því til hins illa og skemmdi ítrekað það sem hinir Valarnir bjuggu til og varð afbrýðisamur. Bæði Valar og Álfar (og Menn) háðu margar orrustur við hann, bæði í hinu helga Amanslandi og á Miðgarði. Það var Melkor sem skapaði ýmis ill kvikindi eins og balroggana og drekana og hann fangaði Álfa og úrkynjaði þá svo úr urðu Orkar. Melkor gat þó aldrei skapað verur í mannsmynd sjálfur.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í þetta skiptið, vona að þetta hafi varpað ljósi á eitthvað fyrir þá sem ekki hafa lesið Silmerillann, en heimildir þessarar greinar eru fengnar úr Silmerillanum, aðallega úr Valasögu.

Karat