Í einu af greinarsvörunum við greinina “Allt dautt” kom fram sú alhæfing að þeir sem hefðu lesið bækurnar og séð myndirnar um LOTR væru á sama máli um að bækurnar sköruðu fram úr myndunum hvað gæði og upplifun varðar. Orðrétt segir FraqGer:
“þetta áhugamál var ekki gert til að snúast í kringum bíómynd, sem þó ágæt sé er ekki nærri eins öflug af reynslu og að lesa meistaraverkið sjálft. Ég held að lang mest ykkar sem eruð að lesa það sem ég er að skrifa og hafið lesið bækurnar og séð myndirnar séu sammála mér um að þar mæli ég sannleikann.”
Ég er ekki alveg sammála þessu. Ég hef lesið allar bækurnar og séð myndirnar (þær sem eru komnar) og mér finnst eiginlega að Peter Jackson takist betur til með að koma sögunni frá sér. Með nokkrum undantekningum þó. Mér finnst allar hans breytingar út frá söguþræði Tolkiens, sem ekki eru margar, vera til batnaðar nema hvað Faramir varðar. Ég var mjög ósátt við þá meðferð sem hann fékk í TTT. Hann er miklu betri en þetta og átti ekki skilið að fá svona aðför.
Mér fannst mjög erfitt að lesa fyrstu bókina. Hún var þung og hæg yfirferðar og fylgdi Fróða allt of vel. Mig vantaði að vita meira um hinar persónur föruneytisins. Við kynntumst þeim lítið sem ekkert. Við þekkjum t.d. Boromir hérumbil ekkert í bókinni. Ég efast um að ég hefði komist í gegn um fyrstu bókina ef ég hefði ekki verið búin að sjá myndina. Reyndar veit ég að ég hefði ekki komist í gegn um hana því að ég var byrjuð fyrir nokkru síðan en gafst upp. Það var ekki fyrr en ég var búin að sjá myndina sem ég tók hana upp aftur.
Mér fannst þetta reyndar batna í TTT og ROTK þegar föruneytið sundrast og við fáum að sjá með augum annarra en bara Fróða. Ég veit ekki hvort að það er bara sagan sem fer svona á flug eða hvort að Tolkien hafi smám saman orðið betri rithöfundur á meðan hann skrifar þetta meistaraverk. Reyndar hallast ég æ meir að því síðarnefnda. Sérstaklega eftir að hafa séð hvað Peter Jackson tókst snilldarlega til með sama söguþráð.
Nú vil ég ekki verða misskilin. Mér finnast þessar bækur hreint meistaraverk og þetta eru bestu ævintýrabækur sem ég hef nokkurntíman lesið. En ég held að stærstur hluti af því hve góðar þær eru er heimurinn sem býr að baki. Allt sem Tolkien veit um þennan heim, öll vinnan sem liggur að baki þess að búa til slíkan heim skilar sér í sögunni. Við finnum að það eru engin “plotholes” hann veit alltaf hvað er að gerast og afhverju. Það er það sem gerir söguna stórkostlega.
Spurningin er ekki hvor er meiri meistari sagnagerðar Tolkien eða Jackson, því þar er engin spurning.
Spurining er bara hvor kom henni betur frá sér?
Tzip