Þetta er grein sem ég skrifaði í Skinfaxa, annað skólablað MR. Ég veit að hún er ekki fullkomin, ég náði ekki að fara yfir hana sem skyldi. En fyrir ykkur sem eiga aldrei eftir að lesa blaðið, gjörið þið svo vel:



Undanfarin misseri hafa fleiri og fleiri dolfallist. Hvernig er annað hægt? Nær allir sem hafa komist í kynni við hana hafa ekki verið samir við sig eftir á. Hún vekur upp vonir þess að í hverri einustu manneskju búi eitthvað gott. Hún fjallar um allar þær dyggðir sem í hávegum hafa verið hafðar. Hún lætur enga manneskju ósnortna. Hún tekur mann í ferðalag um heim raunverulegri en þann firrta samtímaheim sem við lifum í um þessar mundir. Ég er að sjálfsögðu að tala um Hringadróttinssögu. Nú ætla ég að segja aðeins frá sögunni bakvið söguna.

En fyrst aðeins um bíómyndina. Flestir vita að búið er að gera kvikmynd eftir bókinni. Þrátt fyrir það að bíómyndin hafi tærnar ekki nálægt því þar sem bókin hefur hælana virðast fáir halda vatni yfir henni. Enda ekki að ástæðulausu. Þær endurskilgreindu mat mitt á góðri bíómynd. Þær sprengdu skalann þegar kemur að væntingum til kvikmyndabrellna og búninga. Ég held að það sé hægt að segja með sanni að aldrei hafi verið né muni verða settur jafnmikill metnaður í sköpun kvikmyndar. Þetta meistaraverk kvikmyndaði sig ekki sjálft. Það hefur verið mikið og langt ferðalag hjá Peter Jackson, aðalleikstjóra myndarinnar, að fá þá fjármögnun sem nauðsynleg var til að koma lifandi blaðsíðum Hringadróttinssögu yfir á sjónvarpsskjáinn okkar. Margir tala um myndina í fleirtölu og vilja meina að þær séu þrjár. Ég segji að það sé bull enda er ekki hægt að horfa á neinn af þessum þrem pörtum sem sjálfstæða mynd óháða hinum. Þetta er eins með myndina og bókina á sínum tíma. Það er hagkvæmara að gefa hana út í þremur pörtum og þess vegna er það að sjálfsögðu gert.

Þeir sem hafa ekki séð myndina geta bara átt sig. Þeir sem hafa séð myndina hinsvegar eru eflaust að velta fyrir sér ýmsum hlutum. Hvað var Gandalf? Hvað var málið með Balrogginn, Dvergana, Álfana og Sauron? Ef þið veltuð þessu ekki fyrir ykkur þá eruð þið að missa af svo rosalega miklu. Strax eftir að ég las Hringadróttinssögu hef ég verið yfir mig numinn af henni. Það var ekki nóg hjá Tolkien að aðeins skrifa Hringadróttinssögu heldur skapaði hann heilan heim utan um söguna. Hann skrifaði um sköpun heimsins, tilkomu Mannanna, Álfanna og Dverganna í heiminn og svona mætti endalaust telja. Ég ætla ekki að rekja hérna allan bakgrunn Miðgarðs enda ekki pláss til. Það sem stendur hér að neðan er aðeins brotabrot af öllu sem Tolkien skapaði. Sumt kannist þið við úr myndinni, sumt ekki.

Í upphafi söng Alfaðir guðina í heiminn, guðirnir kölluðust Ænúar eða Valar. Hann söng í tilveruna heim sem þeir skyldu eiga sinn þátt í að varðveita og móta. Margir Valar fóru frá Alföður og inn í þennan nýja heim. Með þeim fylgdu Majarnir. Þeir voru andar ekki ósvipaðir Völunum aðeins óæðri.
Löngu áður en Sólin, Máninn og Stjörnurnar birtust á himninum höfðu Valarnir verið að móta og skapa eitthvað nýtt í heiminn til að undirbúa hann undir komu Mannanna og Álfanna að skipan Alföðurs. Heimurinn var eins fallegur en hægt var að hugsa sér. Sumir hlutir eru samt of góðir til að vera sannir. Einn aflmesti valinn Melkor fór að girnast yfirráð yfir heiminum. Hann eyðilagði margt sem aðrir Valar höfðu skapað. Yndislega hluti sem aldrei áttu eftir að geta verið endurskapaðir. Hann byrjaði á að hrynda niður Lömpunum tveimur sem lýstu upp heiminn. Þegar þeir hrundu og skullu á jörðinni þá olli það þvílíkum náttúruhamförum að allt landslag heimsins breyttist og átti aldrei eftir að vera samt við sig aftur. Melkor spilltist meira og meira með tímanum. Fljótlega gat hann ekki lengur skapað líkt og hinir Valarnir heldur stal hann hugmyndum eða reyndi að afskræma þær.
Það sem Valarnir sköpuðu það eyðilagði Melkor. Það sem Melkor eyðilagði reyndu Valarnir að endurbæta. Þannig gekk þetta um ómældan tíma. Valarnir voru sífellt að reyna að undirbúa heiminn fyrir komu Álfanna og Mannanna. Svo kom að því að fyrstu nóttina sem Tunglið skein á himninum vöknuðu Álfarnir til lífsins. Í fyrstu voru þeir einir og bjuggu sér til eigið tungumál. Fyrsti Valinn til að sjá að Alfaðir væri búinn að senda börn sín í heiminn var Melkor. Hann handsamaði nokkra Álfa áður en hinir Valarnir vissu af þeim. Hann pynti þá og afskræmdi í aldir. Þannig urðu orkarnir til. Ekki hans eigin sköpun heldur afskræming á annarri.
Melkor var ekki einn í sinni útlegð. Með honum fylgdu margir aðrir andar, Majarnir. Flestir þeirra voru Eldmajar sem urðu að Balroggum þegar illskan og spillingin náði tökum á þeim. Balroggar voru helstu vopn Melkors gegn veldinu sem Álfar höfðu byggt upp á Miðgarði. Álfar náðu þó að halda herkví um land Melkors eða alveg þangað til Drekarnir birtust. Þeir voru óstöðvandi í fyrstu og hefðu Álfarnir fallið hefðu hinir harðgeru Dvergar ekki komið þeim til hjálpar. Ekki er vitað hvernig Drekarnir urðu til en sköpun þeirra hefur eitthvað að gera með hroðaverkunum sem Álfarnir gerðust sekir um endur fyrir löngu, meðal þeirra hroðaverka má nefna Frændvígin og Eiður Fjanors. Seinna þegar illa var komið fyrir veldi Álfa og Dverga birtust Mennirnir og áttu þeir eftir að vinna miklar hetjudáðir í verðandi stríðum en einnig verða þeim að falli líka. Mennirnir birtust á jörðinni fyrsta dag og sólin fór að skína á himninum. Þegar Hringadróttinssaga gerist eru fáir Drekar og Balroggar eftir á Miðgarði. Flestir þeirra voru drepnir í Heiftarstríðinu þegar Valarnir fengust loks til að taka í taumana og keðjuðu hann og spörkuðu honum í Tómið þar sem hann reikar enn úti fyrir endimörkum alheimsins.
Þótt Melkor væri horfinn úr heiminum þá var skaðinn sem hann gerði óbætanlegur. Hann skildi eftir sig eftirmann sem var reiðubúinn að fylla það skarð sem myndaðist eftir Melkor. Sá eftirmaður var Maji. Hann hét Sauron. Einn helsti hershöfðingi Melkors meðan hann var og hét en nú mikill seiðkarl. Þó hann væri ekki nógu öflugur til að kveða til sín alla þá Dreka og Balrogga sem eftir voru þá átti hann sér fáa ef ekki engan jafninga í Miðgarði. Eftir fall Melkors tók Sauron við af honum sem harðstjóri Miðgarðs. Þótt hann hafi verið handsamaður með Melkor þá náði hann að flýja og stofnaðu sitt ríki í Mordor í Miðgarði. Konungsætt Manna hafði fengið sitt eigið ríki á eyju sem Valarnir sköpuðu handa þeim eftir heiftarstríðið, hún kallaðist Númenor. Konungar Manna lifðu og dóu þar öldum saman í mesta góðæri sem þekkst hefur verið í Miðgarði. Veldi Mannana var orðið svo mikið að bera mátti það saman við gömlu Álfaríkin. Sauron lifði þá í Miðgarði. Han átti auðvelt með að sýnast betrumbættur. Hann tók sér upp leyninafnið Annatar, Sá Örláti, og tók að vingast við Álfana sem eftir voru á Miðgarði en flestir höfðu farið með til Valalands eftir Heiftarstríðið. Sauron kenndi þeim margt, m.a. hringasmíði. Þó hann sýndist góður og betri Maji þá var hann alltaf að hugsa leiðir til að taka yfir allan Miðgarð. Hann líka öfundaði Númenora af ríki þeirra og vildi koma því um koll líka. Hann bjó svo til Hringana Níu og gaf þá Konungum Manna sem spilltust og urðu seinna Hringvomarnir, eftir að Sauron smíðaði Hringinn Eina. Þrír þeirra voru höfðingjar í Númenor. Saurin smíðaði Hringinn Eina með því markmiði að ráða yfir öðrum hringum. Níu hringum Manna, sjö hringjum Dverga og .þrem hringjum Álfa. Mennirnir eru auðvelt að spilla og þeir eru gráðurgir í völd svo þeir beygðu sig strax undir vilja Saurons. Dvergahringarnir náðu að spilla eigendum sínum en þar sem Dvergar eru staðfastir í meira lagi þá beygðu þeir sig aldrei undir vilja Saurons. Sauron reiddist það og safnaði þeim aftur að sér, þó eru enn nokkrir af Dvergahringunum sem ekki er vitað um hvar séu. Álfarnir skynjuðu strax þegar Sauron setti á sig Hringinn Eina svo þeir tóku þá niður um leið til þess að Sauron gæti ekki lesið huga þeirra. Þegar Sauron gerði þetta sýndi hann loks sinn innri mann.Þá vissu Álfarnir loks hver þessi Annatar var í raun og veru. Hann hafði aðeins verið að kenna þeim hringasmíði til þess eins að ráða yfir þeim seinna með gerð Hringsins Eina. Álfar lýstu þá stríði við Sauron en gátu þó ekki sótt að honum í Mordor sökum fámennis. Þannig var þetta lengi.
Mennirnir tóku loks að leiðast í góðæri sínu á Númenor, eyjunni sinni. Þeir byrjuðu að sigla um heimsins höf. Þeir tóku að gera sér nýlendur í Miðgarði. Smám saman fóru Mennirnir að öfunda Álfana af ódauðleika þeirra. Þeir fóru að spillast og nú í stað þess að kenna og hjálpa fólkinu í nýlendum sínum fóru þeir að láta það dýrka sig sem guði og undiroka það. Konungar Manna urðu smátt og smátt fégráðari og þeir fóru að deyja fyrr sökum elli. Það ýtti aðeins á löngun þeirra í ódauðleika. Loks ákvað einn Konungurinn að fara í stríð við Sauron og gera hann að lénsmanni sínum. Allt Númenor hervæddist. Þeir fóru til Miðgarðs með ógrynni liðs. Sauron hafði ekki gert sér grein fyrir styrk Mannanna svo hann ákvað að beita kænsku í stað afls. Hann kom fram úr virki sínu og gaf sig á vald Mannanna. Sauron birtist þeim svo fagur og vitur að Mennirnir vissu ekkert hvað þeir áttu að gera við hann. Þeir ákváðu að taka hann með sér til Númenor en leyfa honum að ganga um frjáls þar. Með klænsku tókst Sauroni að gera sig að fremsta ráðamanni Konungsins. Hann sagði þeim að með því að ráðast inn í Valaland öðluðust þeir ódauðleika. Í fávisku sinni og að undirlagi Saurons réðst Númenor á Valanna. Alföður sjálfur birtist og bauð honum við yfirlæti Barna sinna. Hann olli svo miklum flóðum og hamförum að Númenor sökk í sjó og einnig hálfur Miðgarður. Öll konungsætt manna dó nema lítill hópur sem sá í gegnum blekkingar Saurons og hafði flúið litlu áður og ekki sótt í stríð. Sá hópur kallaði sig Hinir Trúföstu eða Dúndanir. Þeir sigldu til Miðgarðs og stofnuðu tvö ríki. Anor og Gondor.
Þótt Sauron hafi fallið í hyldýpið sem myndaðist við hamfarir Alföðurs dó hann ekki. Hann var Maji svo andi hans sveif til Mordor, fyrrum virki hans, og settist hann að þar. Hann byrjaði að líkamnast að nýju en nú gat hann ekki lengur þóst vera annar en hann var. Ásýnd hans nú var hræðileg. Augnaráð hans lýsti slíkri illfýsn og hatri að aðeins fáir meðal Álfa og Manna þorðu að horfast í augu við hann. Ekki leið á löngu áður en flóttamennirnir frá Númenor gerðu sér grein fyrir því að Sauron væri snúinn aftur. Eftir að Sauron réðist á borgina Mínas Íthil (sem við sjáum væntanlega í þriðju myndinni) og Osgiliath, Stjörnuborgina, mynduðu Álfar og Dúndanir saman Síðasta bandalag Manna og Álfa og saman gengu þeir í átt til óvinsins. Þeir lögðu undir sig allt veldi Saurons á Miðgarði nema Mordor. Ógurlegir voru orkaherir Saurons en þeir áttu ekkert í tignarlega her Álfa og Manna. Það þurfti sjö ára umsetur áður en Sauron loksins kom út úr virki sínu. Í umsátinu dó Anaríon konungssonur, bróðir Ísildurs. Elendill konungur Manna og Gil-Galað Álfahöfðingi börðust báðir við Sauron og féllu. En Sauron féll einnig. Ísildur ekk upp að honum þar sem hann lá, tók upp brot Narsils, sverði pabba síns, og hjó Meginbauginn af Sauroni. Sauron var gjörsigraður og yfirgaf líkama sinn. Ekkert spurðist af honum í mörg hundruð ár.
Löngu seinna þegar aftur fór að bóla á Sauroni sendu Valarnir hjálp til Miðgarðs. Þeir sendu til Miðgarðs Vitkana. Vitkarnir voru upprunalega Majar sem höfðu búið í Valalandi frá upphafi tímans. En þegar þeir voru sendir til Miðgarðs var þeim veittur líkami með öllum hans göllum. Svo Vitkarnir eru í mörgu ekki lengur Majar. Vitkarnir gátu dáið, fundið fyrir sársauka, svengd, elst og gleymt. Þeir voru sendir með því markmiði að hjálpa Álfunum og Mönnunum að sigrast á því illa sem eftir lifði í Miðgarði. Þeim voru sett þau óbrjótanlegu skilyrði þó að þeir mátti aðeins hafa áhrif á gang mála með ráðum en alls ekki valdi. Þeir máttu ekki undiroka neinn og ekki safna að sér valdi. Meðal þessara vitka voru þeir Sarúman og Gandalfur. En þeir höfðu eins og áður var sagt líkama, með öllum hans göllum. Með tímanum fóru Vitkarnir að gleyma upprunalega markmiði þeirra. Sarúman settist að í Ísarnsgerði og fór að sökkva sér inn í hin myrku fræði. Upphaflega markmið hans með því var að skilja Sauron og þannig eiga auðveldara með að sigra hann en enginn getur lengi starað í hyldýpi illskunnar því það starir á móti inn í mann. Þannig að Sarúman heillaðist og spilltist af illskunni og fór að vilja, líkt og Sauron, að undirroka aðra og láta tigna sig sem guð. Aðeins einn af Vitkunum hélt sínum upphaflegu markmiðum en það var hann Gandalf.
Sama tíma og Vitkarnir birtust fyrst á ströndum Miðgarðs, komu Hobbitarnir fram á sjónarsviðið. Enginn veit neitt um tilkomu þeirra en þeir eru sennilega skyldastir Mönnum. Þeim hafði ekki verið gefinn neinn gaumur fyrr en að sjálfu Hringastríðinu kom. Hobbitar eru alveg sérstakir að mörgu leyti. Þeir virðast hafa meira þol en aðrir yfir göldrum og sést það best á því hvað Bilbó og Fróði báru báðir Hringinn Eina lengi án þess að vera verulega illt af.
Um tilkomu Dvergana í heiminn er þetta að segja. Alfaðir hafði sagt Völunum frá fyrirhugaðir komu Álfanna og Mannanna í heiminn en ekki sagt þeim hvenær þeir gætu átt von á því að þeir kæmu. Einn Valanna var orðinn óþolinmóður og ákvað í barnslegri trú að hann gæti bara sjálfur skapað sín eigin börn sem hann gæti kennt iðnir sína. Þessi Vali var Smíðaguðinn Áli. Hann skapaði Dvergana í sinni mynd. Þeir una best við sig neðanjarðar að vinna úr gimsteinum jarðarinnar. Þeir voru skapaðir þegar veldi Melkors var mikið svo Dvergarnir voru gerðir rosalega sterkir og þrautseigir. Alfaðir sá þetta að sjálfsögðu, kom niður og sagði Ála frá því að hann gæti aldrei gefið þeim lífsandann, það væri aðeins á færi Alföðurs. Áli iðraðist mikillæti sitt og ætlaði að brjóta sköpun sína. Alfaðir miskunnaði sig yfir hann og í þann mund sem Áli var að fara að sveifla til Dverganna þá kom í þá líf og þeir flýðu undan hamrinum. Alfaðir sagði þó að Dvergarnir mættu ekki koma í heiminn á undan sínum börnum svo þeir voru geymdir inn í fjalli uns þeir máttu vakna til lífsins á ný.
Um Entanna er þetta að segja. Javanna, Vali náttúrunnar, hafði áhyggjur um að Dvergarni hefðu ekki verið gerðir með tilliti til ásts á náttúrunni. Hún var hrædd um að þeir myndi höggva niður trén hennar miskunnarlaust til að geta sinnt sinni ástríðu, smíðalistinni. Hún lét æðsta Valinn, Manve, vita af áhyggjum hennar. Manve hafði samband við Alföðurs sem sagði að hún skyldi ekki hafa áhyggjur. Hann skyldi senda í skógana Hirðmennina. Tré með ekki aðeins hugsun og lífskraft heldur skyldu þeir einnig vera gríðarlega sterkir og geta ferðast um líkt og Börn Alföðurs.

Nú vona ég að þið gerið ykkur grein fyrir umfangi Hringadróttinssögu. Hún býr svo mikið meira bakvið hana en aðeins sagan sjálf. Ég ætla ekki að skrifa meira heldur leyfa ykkur að lesa sjálf það sem ég sleppti hérna. Þið getið verið viss um að þið eigið ekki eftir að verða fyrir vonbriðgum. Til er mikið meira í viðbót til að lesa en það er svo mikið að það er ekki á hvers manns færi að nálgast það allt, hvað þá að lesa það. Hinsvegar vill ég benda ykkur á Silmerillinn, bókina sem Christopher Tolkien, sonur J.R.R. Tolkien skrifaði en hún er stuttur samandráttur á heiminum sem Tolkien skapaði. Ef Silmerillinn er ekki nóg þá er History of Middle Earth það harðasta sem venjulegur lesandi kemst í. Þar er farið nánar út í allt sem hann skrifaði í 6000 blaðsíðna ritverki. Ég ætla rétt að vona að ég hafi náð að vekja upp hjá þér lesandi góður áhuga á því að lesa bókina vegna þess að myndin kemur ekki nema pínulitlu brotabroti til skila af snilld bókarinnar.