Eins og margir vita en fæstir sjá er hrikalegt málfar haft við hér á Huga.is. Í rauninni er Hugi helvíti málunnandans, þar sem stafsetningarvillur og beinlínis ljótt mál virðast engum enda ætla að ná.
Eins og við vitum vonandi öll var Tolkien mikill tungumálamaður. Hann unni ekki einungis eigin tungu heldur varði hann miklum tíma í að læra annarra þjóða mál til þess að geta lesið bókmenntir þeirra óþýddar og ómengaðar. Rit hans eru skrifuð á skemmtilega enskan hátt þar sem fagurmælgi dregur ýmist upp ógurlegar og gríðarlegar hamfarir jafnt sem spaugilegar samræður og skoplegar aðstæður. Tolkien gerði þetta á kynngi magnaðan hátt, enda enginn aukvisi við ritvélina.
Finnst ykkur ekki mál til komið að upphefja málverndarstefnuna hér á Huga.is, og þá sérstaklega til heiðurs J.R.R. Tolkien? Það er nauðsynlegt hverjum þeim sem vill koma vitneskju eða skoðun sinni á framfæri að geta gert það á frambærilegan hátt. Að öðrum kosti er svo erfitt að taka mark á þeim. Þið félagar sem eruð duglegastir við skrifin, Amon og fleiri, megið íhuga þetta við skrif ykkar. Er hægt að orða setninguna betur? Er hægt að gera greinina ekki einungis fróðlega, heldur einnig fallega? Það er það sem Tolkien hefði viljað.