Lord of the Rings: The Two Towers (SPOILER-LAUST) Á þriðjudaginn kl. 20.00 var sérstök forsýning haldin í Laugarásbíói fyrir fjölmiðla. Ég var þarna staddur fyrir hönd “Íslenska Lord of the Rings vefsins” en það var samþykkt einróma á fundi stjórnar vefsins að ég fengi að fara. Allt í lagi, nóg af einkahúmor….

Sýning þessi var sama dag og Evrópufrumsýningin sem er í París og m.a. þess vegna var mikil öryggisgæsla og leitað var á manni með málmleitartækjum. Reynt er að komast í veg fyrir eins lengi og hægt er að kvikmyndin fari á Internetið og því gengur auðvitað ekki að sleppa einstaklingum með vídeóvélar inn í kvikmyndahús.
Ég var þarna mættur og fjöldi fólks á staðnum, mun fleira en í fyrra. Þegar maður komst í gegnum málmleitartækin var manni rétt blað þar sem þýðingin á Álfamálinu í myndinni stóð. Það er nefnilega þannig að filman sem Myndform fær í hendurnar er algerlega textalaus og þar með senurnar þar sem talað er Álfamál einnig. Ætlast var greinilega til þess að þegar maður skildi ekki neitt það sem maður heyrði átti maður að kíkja á blaðið. Að sjálfsögðu gekk það engan veginn þar sem dimmt var í salnum og eitt atriðið botnaði maður því lítið í. Þetta verður svona líka á Nexus-sýningunni held ég og því hvet ég ykkur til að lesa blaðið vel og vandlega áður en myndin byrjar. En maður sætti sig alveg við þetta. Hinsvegar var ekki ánægður með lélegt sæti sem ég fékk, nánast upp við tjaldið og því var stundum dálítið óþægilegt fyrir mig að fylgjast með því sem gerðist. Ég verð því að fara sjá myndina aftur bráðlega…

En grein þessi átti víst að fjalla um kvikmyndina sjálfa. Athugið að greinin er tiltölulega spoilerlaus.

Byrjun annars hluta Lord of the Rings er stórkostleg og virkilega flott. Ég ætla ekki að skemma fyrir neinum hvernig hún er, en ég sé eftir því að hafa vitað af því áður en ég sá myndina. Það fór hrollur um hann alveg. Uppbygging kvikmyndarinnar er frekar óhefðbundin, alla vega hvað varðar ævintýramyndir. Myndinni er í raun skipt í þrjár sögur þar sem stöðugt er verið að flakka á milli. Annars vegar höfum við Frodo og Sam sem halda leið sinni áfram að Mount Doom með því markmiði að eyða hringnum. Svo höfum við þá Merry og Pippin sem eru í haldi Orkanna en eins og menn muna voru þeir teknir höndum í lok Fellowship of the Ring. Að lokum sjáum við söguna með augum Aragorns, Legolasar og Gimla sem elta Orkana.
Í bókinni var þetta gert á annan hátt en þar voru sögurnar sagðar í heilu lagi á eftir hvor annarri. Fyrrgreinda aðferð tel ég virka mun betur en þetta getur þó ábyggilega verið dálítið ruglingslegt á köflum fyrir þá sem ekki þekkja sögurnar. Stundum fannst mér líka skiptingin hefði mátt koma á betri tíma.

Saga þeirra Frodo og Sam er mjög áhugaverð, og þar ber hæst kvikindið Gollum sem kemst inn í söguna á ný. Kvikindi þetta hafði stöðugt verið að elta Föruneytið í fyrstu myndinni eins og menn muna en hér ákveður hann að stíga fram. Gollum er frábær persóna í kvikmyndinni og ég held að hann steli eiginlega alveg senunni. Persóna þessi er algerlega tölvugerð og er svo ótrúlega raunveruleg að ég veit ekki hvað. Þetta er án efa raunverulegasta tölvugerða persóna sem sést hefur í kvikmyndum. Ég held að það sé alveg eins hægt að veita WETA tæknibrellufyrirtækinu Óskars-verðlaun fyrir tæknibrellur strax. Maður hefur ekki séð neitt þessu líkt áður. Hitt sem gerir persónuna svona áhugaverða er hvað hún er vel leikin. Þegar myndin var tekin upp lék Andy Serkis á móti Elijah Wood og Sean Astin (Frodo & Sam) og tölvutækni notuð svo til þess að teikna yfir leikarann. Andy Serkis sá svo algerlega um rödd Gollum og líkamshreyfingar. Andy Serkis túlkar þessa fígúru á svo undraverðan hátt að maður á ekki orð. Ég hef lesið það á Netinu að það er jafnvel talið líklegt að leikarinn geti verið tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir hlutverkið. Ég skil það vel að það sé talinn möguleiki og yrði það áreiðanlega skondið ef tölvugerð persóna verði tilnefnd.
Þeir Frodo og Sam hitta svo Faramír á leiðinni en hann fer fyrir hópi Gondor-manna og tekur hann þá Frodo og Sam höndum. Margir Tolkien aðdáendur urðu fyrir miklum vonbrigðum þegar þeir heyrðu hvernig persónu Faramírs var breytt og því er ekki að neita að persónu hans var breytt mikið. Ég hef aldrei verið mikill aðdáandi þessarar persónu en ég skil þó vonbrigðin hjá mörgum. Mér sýnist ástæðan fyrir þessari breytingu á persónu hans vera til þess að gera ferð þeirra Frodo og Sam aðeins dramatískari og svo sýndist mér lík að senan sem einkennir persónu hans í bókinni hefði einfaldlega ekki virkað á hvíta tjaldinu.

Saga Merry og Pippin er mun minni en ég átti von á en mér finnst það nú samt allt í lagi. Hobbitaleikararnir tveir leika hins vegar mjög vel í þeim senum sem þeir fá og tekur maður eftir því hvernig þeir hafa þroskast talsvert síðan í Fellowship of the Ring en þar voru þeir notaðir dálítið sem persónur til að hlæja að. Dominic Monaghan kemur sterkur inn og stendur sig mjög vel og minnir meira á þann Merry sem ég man eftir úr bókunum. Inn í sögu Merry og Pippin bætist við persónan Treebeard sem er einnig tölvugerð. Þeir sem lesið hafa bækurnar vita hvers konar furðuvera þetta er og geta ábyggilega ímyndað sér að erfitt hljóti að vera að búa til trúverðuga persónu út úr lýsingum Tolkiens á þessari fígúru. Ég var dálítið farinn að óttast það, sérstaklega eftir gagnrýni sem ég las um daginn en þar fannst höfundi persónan óttalega fáránleg. Svo var sem betur fer ekki raunin og er ég mjög ánægður með hvernig Treebeard gekk upp. Treebeard þessi er það sem Tolkien skírði “Ent” og fleiri Entur koma einnig fyrir í sögunni. Sérstaklega er lokaatriðið með þessum Entum stórkostlega vel gert og spennandi.

Aragorn, Legolas og Gimli sjá um að koma þriðju sögunni til skila en þeir eru að elta Orkana uppi í byrjun myndarinnar. Á leiðinni hitta þeir Róhansriddara og þá kemur fyrst fram persónan Eomer sem leikur svo seinna stórt hlutverk í myndinni. Ég held að það sé orðið nokkuð ljóst að allir viti að Gandalfur snúi aftur í þessari mynd þannig að ég ætla ekkert að fela það. Atriðið þegar þeir félagarnir hitta hann á ný er mjög vel gert og mjög gott. Í framhaldinu kynnumst við svo Róhansríkinu með mörgum litríkum persónum eins og Théoden, Gríma Wormtongue og Éowyn og stóðu allir leikararnir sig mjög vel og nákvæmlega eins og ég ímyndaði mér þá í bókinni. Sérstaklega fannst mér Miranda Otto vinna mikinn leiksigur og fannst mér hún líka bara svo falleg. Það verður spennandi að sjá Return of the King en þar leikur hún stærra hlutverk og tekur líka þátt í senu sem maður getur varla beðið eftir.
Aðalkafli myndarinnar var svo bardaginn við Helm’s Deep og má að vissu marki segja að fyrri hluti myndarinnar hafi fyrst og fremst verið til að undirbúa þann bardaga. Bardagi þessi er sá allra flottasti sem ég hef séð. Hann stóð frekar lengi en samt aldrei of lengi og endirinn á honum er svo glæsilegur að ég veit ekki hvað. Margt gerist í þessum bardaga og spennan er stöðugt að magnast.

Samantekt:

Ljóst er að annar hluti Lord of the Rings bregst ekki. Ég er ekki alveg viss um hvort myndin er betri eða ekki. Ég get ekki sagt það ennþá. Ég sat satt að segja á hroðalegum stað og upplifun mín á myndinni var ekki lík því sem ég fann fyrir þegar ég sá fyrstu myndina. Ég sá að myndin er góð en ég var einhvern tímann alltaf fyrir utan hana , á meðan ég sogaðist inn í myndina í fyrra og sogaðist ekki út fyrr en þremur tímum seinna. Þegar ég hugsa til baka, langar mig rosalega til þess að fara að sjá myndina aftur, sum atriði eru það eftiriminnileg að það er mér þungt í brjósti að ég þurfi að bíða fram á 26. des þar til ég fái að sjá hana aftur. Leikarar stóðu sig mjög vel. Eins og áður sagði er Andy Serkis í miklu uppáhaldi og er bara langbestur. Miranda Otto var frábær og túlkar Éowyn á mjög góðan hátt. Aðrir stóðu sig auðvitað mjög vel og enginn lék illa. Sá eini sem var ekki að virka fyrir mér var sá sem lék Hama en mér rödd hans bara eitthvað svo undarleg. John Rhys-Davies var með tvö hlutverk í myndinni. Hann hélt hlutverki sínu sem Gimli og fannst mér það sniðug hugdetta hjá leikstjóra og handritshöfundum að láta Gimli vera fyndna karakterinn í myndinni en salurinn var stöðugt hlæjandi að hugdettum hans. John sá einnig um rödd Treebeard og gerði það mjög vel.
Það sem einkenndi fyrri helming myndarinnar er hvað hún er ótrúlega trú bókinni. Maður tekur varla eftir sögubreytingum en í seinni hlutanum fer maður að verða var við þær. Mér fannst viðbætur Peter Jackson yfirleitt mjög góðar og ljóst er að hann ber virðingu fyrir sögunni þó hann láti hana ekki ráða ferðinni gjörsamlega.