Fyrir nokkru síðan áskotnaðist mér bók nokkur eftir David Day, Tolkien's Ring. Bók þessi er ákaflega fróðleg fyrir þá sem hafa það sem mætti kalla “djúpstæðan áhuga” á Tolkien og hans fræðum, enda fjallar hún um mýtólógíuna í hugarlendum hans útfrá hliðstæðum í mismunandi menngingarheimum okkar Jarðar. Hún greinir m.a. frá skírskotunum í bókmenntir og frásagnir fyrri alda, vísunum í Artúrsku goðsagnirnar, sögurnar af Karlamagnúsi og riddurum hans, ævintýri Austurlanda fjær, germanskar, grísk/rómanskar og keltneskar fornsögur auk okkar háæruverðugu og snilldarlegu norrænu fornbókmennta.
Það er gríðarlega forvitnilegt að lesa hvernig Day greinir hinar ýmsu hliðstæður. Þar ber helst að nefna það hvernig Tolkien “skiptir” Óðni Alföður í tvennt og gerir þar úr Gandalf, annars vegar, en Sauron hins vegar. Sauron er hinn illi, lúmski og lævísi helmingur sem gerir allt til að þjóna eigin hagsmunum og ferðast um veröldina í hinum ýmsu dulargervum til þess eins að nota og svíkja og pretta. Það má ímynda sér að Tolkien hafi lagt áherslu á þetta með því að hafa Sauron í mynd hins “Illa auga” eða “The Evil Eye” en eins og allir vita var Óðinn líka eineygður. Hann gaf sitt auga til þess að öðlast meiri visku en nokkur annar en varð þar með mesta veran í sínum heimi. Andstætt þessu missti Sauron allt og átti ekkert eftir annað en augað sem hann notaði til þess að skima um og vekja ugg í brjóstum hinna frjálsu þjóða.
Óðinn átti hringinn Draupni. Þessi eini hringur var þeim eiginleikum gæddur að með níu nátta millibili drupu af honum 9 aðrir hringar. Hringurinn var því ekki lengi að færa eiganda sínum geigvænleg auðæfi og völd enda markaði þessi hringur vald Óðins yfir heimunum níu. Með því að drottna yfir hringnum gerðist hann það sem heitir “Hringadróttinn” eða “Ring-lord” þar sem hann gaf umboðsmönnum sínum sem ráða skyldu hver yfir sínum heimi einn hring sem merki um hollustu þeirra. Það markaði því lítið annað en ógæfu fyrir Ásgarð þegar Óðinn gaf hringinn frá sér en sem betur fer náðist að endurheimta hann áður en það varð um seinan.
Á ferðum sínum um lönd og höf var Óðinn ætíð í líki göngugarps með staf og í kufli. Þessa mynd könnumst við við úr Hringadróttinssögu þar sem Gandalfur birtist fótgangandi þegar hans er síst von. Ef hann er ekki á fæti situr hann hest þann er Húmfaxi heitir (Shadowfax). Sá er mestur hesta og á ekki sinn jafnoka er enn stígur gresjur Róhan. Óðinn átti einnig Sleipni, mestan allra hesta, og stóð hann í átta fætur. Hann fór hraðast allra yfir, líkt og Húmfaxi gerði, og bar einungis á baki sér vitrastan allra, Óðinn.
Mun fleiri hliðstæður er þarna að finna. T.d. er margt að sjá í Ragnarrökum sem gerist einnig þegar heimur Tolkien endar. Freyr mætir Surti (sem beitir eldsverði) á brúnni Bifröst. Brotnar hún undan þeim og þeir falla til tortímingar. Eins mætir Gandalfur Balrogginum, myrkum anda síðan úr forneskju, á Khazad-Dum, þar sem þeir falla í hyldýpið saman, þó ekki sé það til tortímingar…
Svona mætti lengi telja, og mun vera talið, ef menn óska eftir því. Það fer eftir því hvernig tekið er í þessa grein hvort ég nenni að skrifa meira. Ég bið ykkur bara að njóta vel… :)