Náttúruleg laus fyrir bauga
Þetta er indversk uppskrift sem ætti að sýna árangur eftir 7-10 daga.
safi úr 1/2 agúrku eða safi úr 1 tómati
1/2 tsk túrmerikduft
1 tsk sítrónusafi
4 msk fínmalað maísmjöl (cornmeal)
Til að ná safanum úr agúrkunni eða tómatinum er gott að nota safapressu. Ef nota á matvinnsluvél þarf að flysja grænmetið og fjarlæga fræin, mauka svo í vélinni og sigta. Bætið túrmerikduftinu og sítrónusafa í grænmetissafann. Hrærið maísmjölinu í safann í litlum skömmtum. Ef blandan er orðin að þykku mauki þarf ekki að bæta við meira maísmjöli. Smyrjið blöndunni varlega á baugana með bómul eða baugfingri. Skolið varlega af eftir um þrjár mínútur en gætið þess að nudda ekki svæðið.
Háreyðing með hunangi og sykri
Ágætis lausn til háreyðingar. Heldur svæðinu hárlausu í allt að sex vikur og er líklega ódýrari en vaxmeðferð á snyrtistofu. Hendið afganginum eftir notkun.
Safi úr 1/2 sítrónu
2 msk hunang
1 bolli sykur
Slatti af bómullarræmum (1,5 cm á breidd og 10 cm á lengd)
1 frostpinnaspýta
Setjið sítrónusafa, hunang og sykur í pott og hitið þar til sykurinn er uppleystur og fljótandi. Kælið blönduna í 10 mínútur eða þar til hún hefur náð þægilegu hitastigi. Notið spýtuna til að bera blönduna á svæðin sem á að meðhöndla. Athugið að bera hana á í sömu átt og hárið vex. Leggið bómullarræmu yfir svæðið og nuddið hana þar til hún hitnar. Togið ræmuna ákveðið í gagnstæða átt við hárvöxtinn til að fjarlægja blönduna (og vonandi hárin) af svæðinu. Ef hárvöxturinn er lítill ætti þetta ekki að vera sárt en ef hárvöxturinn á svæðinu er þéttur er þetta sennilega sársaukafullt. Endurtakið ferlið þar sem óæskilegan hárvöxt má finna en notið nýja bómullarræmu í hvert skipti. Það er skynsamlegt að prófa blönduna á litlu svæði til að sjá hvort húðin þolir hana. Notist ekki á viðkvæmna, sára eða sprungna húð.
Andlitsmaski með kakói og kaffi
Þessi andlitsmaski hentar vel fyrir venjulega eða feita húð, því mjólkin er mild og kaffið styrkjandi.
4 msk fínmalað kaffi
4 msk kakóduft
8 msk nýmjólk eða rjómi
Blandið saman kaffi og kakói. Bætið mjólkinni við þar til blandan líkist helst búðingi. Dreifið á andlit og háls en setjið ekki nálægt augum eða munni. Bíðið í 15 mínútur og skolið svo af með heitu vatni.
Sefandi smyrsl fyrir sólbruna
Sumarsólin er ennþá sterk á Íslandi. Þetta smyrsli er einfalt að búa til og það þrælvirkar.
5 msk aloe vera-safi
1 egg
1/2 tsk sítrónusafi
3 tsk sykur
1 1/2 tsk hrein jógúrt
smávegis maizenamjöl (ef skyldi þurfa að þykkja blönduna)
Þeytið saman aloe vera-safann og egg, til dæmis með gaffli, þar til blandan er jöfn (ekki of lengi). Blandið sykrinum saman við og hrærið þar til hann er uppleystur. Í annarri skál skal hræra jógúrt þar til hún þynnist og bæta henni svo saman við blönduna. Ef blandan er of þunn til að haldast á húðinni skal bæta við örlitlu maizenamjöli til þykkingar. Kælið blönduna í ísskáp. Smyrjið svo á sólbrennda húð og látið liggja á eftir þörfum. Þvoið af með volgu vatni og mjúkum klút.
Eldhússkápaskrúbbur
Einfaldur, fljótgerður og virkar vel.
1 msk matarsódi
1 msk hunang
1 msk ólifuolía
Blandið hráefnum saman í þykkni. Makið á hreint andlit. Ef blandan dreifist illa má bæta örlitlu vatni í þykknið. Þegar þið skolið blönduna lauslega af andlitinu byrja agnirnar í matarsódanum að virka. Klárið að skola andlitið og njótið sléttrar húðar.
Majónesmeðferð fyrir þurrt andlit
Þetta er einföld og góð aðferð til að draga úr húðþurrki.
1 egg
1 msk ólífuolía
1/2 msk nýkreistur sítrónusafi
Blandið öllum hráefnum saman og hrærið af krafi þar til þau ganga saman. Smyrjið blöndunni á andlit og háls og bíðið í 15 mínútur. Skolið af með heitu vatni og setjið á ykkur rakakrem.
Heimildir - Morgunblaðið
your bridges were burned, and now it's your turn