Ég horfi nú yfirleitt ekki á þessar keppnir (og gerði það ekki heldur í þessu tilviki). Ástæðan er sú að mér finnst stelpurnar sem taka þátt í þessum keppnum allar vera eins, ekki bara það að þær eru nánast allar ljóshærðar, bláeygar og með stór brjóst, heldur er andlitsfallið líka svipað; meðalstór augu, meðalnef, meðalþykkar varir, meðalútstæð kinnbein.
Svo kemur stelpa sem samræmist ekki fullkomlega þessari stöðluðu ímynd, en er engu að síður mjög falleg, bara á annan hátt. Kannski hefði hún átt að taka þátt í UngfrúÍsland.is þar sem þessir eiginleikar hefðu orðið henni til framdráttar.
Það er mjög misjafnt eftir fólki hvað telst vera fallegt og hvað ekki. Þess vegna eru það alltaf stelpurnar sem eru meðalfallegar sem vinna þessar keppnir. Þær eru ekki fallegastar, en þær höfða til allra; öllum finnst þær vera fallegar, þó ekki fallegastar.
Og nú er svo komið að þessi staðlaða meðalfegurð er komin inn í undirmeðvitund fólks. Ef stelpa er með stærri brjóst en þessi meðalstelpa er hrópað: sílíkon!. Ef hún er með mjög útstæð kinnbein hefur hún farið í lýtaaðgerð. Það er eins og fólk hafi gleymt að fólk er mismunandi. Stelpur eru með mismunandi stór brjóst, mismunandi langa fótleggi, misstór nef o.s.frv.
Mér fannst Manúela eiga það skilið að vinna einmitt vegna þess að hún var ekki eins og allar hinar, vegna þess að hún var með stærri brjóst, grennra mitti og útstæðari kinnbein. Og hvað með það þó að hún hafi fengið kjól frá Mike Tyson. Þetta var stórglæsilegur kjóll og það er engin spurning að hann átti stóran þátt í að hún vann. En kjóllinn hefði ekki unnið einn, það þurfti stórglæsilega unga stúlku sem bar hann einstaklega vel til þess að vinna.
Voðalega væri það gaman ef fólk myndi hætta að vera alltaf svona öfundsjúkt út í aðra sem eru þeim fallegri eða gáfaðari. Það ætti frekar að samgleðjast með þeim í staðinn fyrir að þurfa endalaust að níðast á þeim og ljúga upp á þau, en Íslendingum finnst það síðarnefnda mjög skemmtilegt.
Guess what! I've got a fever, and the only prescription is more cowbell!