Flestir áratugir eða tímabil hafa haft sín sérkenni. Misgóð að sjálfsögðu og nægir að nefna til 9. áratuginn margþvælda sem var eftirminnilegur fyrir mörg “trademark” einkenni. Hve góð þau öll voru er önnur saga en ég ætla að vona að tískuslys síðustu ára verði ekki eftirminnilegt einkenni á þessum áratug.
Og hvaða tískuslys er það? Gallapils! Ég veit ekki hvaða húmoristi var upphafsmaður þeirra, eða þá kannski að endurkomu þeirra (ég er ekki svo tískufróður) en hann hlýtur að hafa verið kvenhatari.
Þessi hryllilegi partur af klæðavali kvenna í dag pirrar mig æ meira. Meira að segja þegar maður er á ferðinni í miðbænum á helgarsíðkvöldum fær maður að sjá stúlkur, dressaðar upp að því er þæt halda, í gallapilsum. Af hverju? Ég hef aldrei séð konu sem fór vel að vera í gallapilsi. Það sem verra er þá virðist þetta geta skemmt línur jafnvel fallegustu kvenna. Ég tala ekki um hvernig þetta dregur fram minnstu og lítilvægustu galla hjá stúlkum sem eru kannski með minna en fullkominn vöxt. Stúlkur sem vafalaust væru snotrar í öllu öðru en gallapilsi virðast fá á sig monsterfótleggi og Guð hjálpi þeim ef það hafa nokkur aukagrömm villst á bossan á þeim eða lærin!
Mig rámar í stelpur sem ég þekki eða hef hitt sem höfðu þennan ósið. Ein var lagleg stúlka alla jafna en í gallapilsi varð hún að kjagandi kvenréttindaskessu (með fullri virðingu, maður á ekki að dæma fólk af útlitinu einu en þetta var ímyndin sem kom upp í hausinn á mér). Önnur var ákaflega snotur en það þurfti ekki nema fermetra af gallaefni til að flestir töfrar hennar töpuðust.
Afhverju? Er þetta svona þægilegt? Svo sýnist mér ekki vera en það væri þó góð og gild ástæða. Á þetta að vera smekklegt? Við hvað þá? Peysuna sem mamma prjónaði, röndóttar gammósíur og Hoover-ryksugu? Á þetta að vera smá “rebel”fílingur? Elskurnar, ef allir eru í einhverju þá er það ekki “rebel”. Ég er allavega viss um það að stúlkurnar sem nota þessi pils eru ekki að klæða sig illa viljandi. Ég get jafnvel sætt mig við að þær séu ekki að klæða sig fyrir mig. En ef þið klæðið ykkur fyrir ykkur sjálfar er þá ekki einmitt mál að gera það vel?
Með von um að fólk minnist ekki fyrsta áratugs árþúsundsins með samskonar brosi og þegar það rifjar upp '9. áratuginn.
Og plís, ekki minnast á föt sem eru hönnuð með “óhreinindum” eða sliti á strategískum stöðum…