Ef að einhver einstök föt hafa náð mikilli útbreiðslu á síðustu árum og almennri notkun þá hljóta gallabuxur að vera þar efst á lista. Svo mikilar eru vinsældir þeirra og meðal flestra aldurshópa að einstakt má telja. Það þarf ekki annað en að fara á Laugaveginn eða í Kringluna til að sjá það. Gallabuxur hafa orðið að merkjavöru og líka haft margvísleg áhrif á aðra tísku.
En upphaflega voru gallabuxur búnar til sem vinnuföt og það var ekki fyrr en upp úr 1970 að þær urðu að þeirri tískuflík sem þær eru í dag. Fyrstu gallabuxurnar voru settar á markað um 1850 af Levi Srauss, tvítugum innflytjanda frá Bæjaralandi í Þýskalandi. Hann er maðurinn sem Levis gallabuxurnar heita eftir og lifa enn þann dag í dag, góðu lífi. Það var í tengslum við gullæðið sem þá geysaði í Kaliforníu að hann fékk þá hugmynd að framleiða sterkar vinnubuxur og þannig fór boltinn að rúlla, síðar þegar kom fram á tuttugustu öldina, fóru kúrekar vestanhafs að nota gallabuxur og svo um 1950 fóru þær að komast í tísku meðal ungmenna á rokktímanum sem notuðu þær m.a til að sýna andstöðu við ráðandi gildismat og tjá nokkurs konar uppreisn gegn hefðum þjóðfélagsins. En það varð svo um 1970 sem gallabuxurnar slógu endanlega í gegn og urðu að þeim klæðnaði sem stærstur hópur ungs fólks vildi vera í. Hippatíminn var ríkjandi á þessum tíma og gallabuxurnar sem þá urðu vinsælar voru útvíðar að neðan en níðþröngar yfir rass og læri.
Upp úr þessu kom það snið sem við öll þekkjum og höfum flest gengið og verið hvað vinsælast og er orðið nánast sígilt, þröngar gallabuxur. Þær komu á markað um leið og diskótíminn hóf innreið sína um 1975 og fylgdu annari buxnatísku á þeim tíma, þegar buxur áttu að vera sem allra þrengstar og þeim mun þrengri því betra. Ekki voru þessar buxur sérlega þægilegar því að þær voru stífar og fólk lá oft á gólfinu til að geta rennt upp rennilásnum! Um 1980 verður svo enn ein byltingin í sögu gallabuxnanna og kannski sú stærsta. Þá komu fyrstu stretch gallabuxurnar á markað og líka urðu þær að merkavöru, þá er átt við að einstakir framleiðendur náðu almennri hylli og merktu buxurnar með áberandi hætti. Merki eins og Sergio Valentine, Jordache, Levis og Wrangler urðu að tískuvöru. Á þessum árum þótti það allra flottast að vera í dökkbláum niðurþröngum stretch gallabuxum og helst sem þrengstum. Stretch efnið var algjör bylting, buxurnar urðu teygjanlegri og þægilegri en áður en samt mjög þröngar í sniðinu. Sú sem þetta ritar man enn eftir fyrstu stretch gallabuxunum um 1982, það var ótrúleg tilfinning að vera í þeim og geta setið án óþæginda en verið samt í níðþröngu. Um 1986 komust svo snjóþvegnar gallabuxur í tísku, sniðin víkkuðu aðeins en snið eins og Levis 501 voru og eru mjög vinsæl. Á síðustu árum hafa stretch gallabuxurnar haldið innreið sína á ný með ennþá mýkri og teygjanlegri efnum, blandaðar með t.d 35% polyester eins og t.d Miss Sixty buxurnar. Gallabuxnasniðið sem slíkt hefur líka orðið sígilt, þ.e buxur með tveim vösum aftan á en tveim að framan og mörg önnur efni hafa verið notuð í þannig buxur. Um 1996 voru t.d mjög vinsælar hér á landi stretch polyester buxur með gallabuxnasniði sem kallaðar voru Radio City. Sú sem þetta skrifar var ein af þeim sem nánast “bjuggu í þessum buxum” og tók miklu ástfóstri við þessar mjúku og fallegu buxur sem samt voru svo þröngar. Ekki man ég hvað ég átti margar en þær voru mjög, mjög margar og enn bregð ég mér í þær þó svo að gallabuxur sem slíkar standi fyrir sínu.
Þó að þessi grein sé alls ekki ýtarleg og tæmandi þá er hún kannski fyrst og fremst hugsuð til opna augu fólks fyrir því að sum föt eru nánast orðin sígild og það á við um blessaðar gallabuxurnar.
SEPTEMBER.