Útlit & staðalímyndir Hvað er það sem fær fólk til að fara í ræktina, létta sig og hugsa almennt um útlit sitt? Er það sjálfsálitið eða er það eitthvað annað, t.d. álit annars fólks á því? Ég tel að það sé minna út af sjálfsálitinu, heldur en hitt, þar sem fólk dæmir út frá útliti og er það bara staðreynd, og eru þetta kallaðir fordómar. Sem sagt að dæma fyrir kynni.

Ef maður sér gothara. Hvað hugsar maður þá? “Þessi gaur er örugglega þunglyndur”. En hvað ef maður sér strák sem klæðist öðruvísi en allir aðrir? “Þessi gaur eru örugglega MR'ingur”. Fordómar eru til staðar, og getum við ekki gert neitt í því að stöðva þá. Það er ekki séns að við getum breytt hugarfari fólks, en það sem við getum gert er að breyta hugarfarinu okkar.

Eins og t.d. strákur sem ég var að vinna með. Hann klæddi sig alltaf öðruvísi en það sem “eðlilegt” er. Hann var með mjög sérstaka klippingu og hlustaði á mjög “óeðlilega” tónlist. Ég dæmdi hann út frá því öllu og spyr hann hvort hann sé í MR eða MH. Sú getgáta var náttúrulega alfarið byggð út frá útliti og háttum hans. En hvað hafði ég fyrir mér í því að halda að hann væri úr MR eða MH? Ekki neitt, bara fordómar og staðalímynd mín. Svo eftir að ég kynnist drengnum, kemst ég að því að þetta er frábær strákur.

En þessi þvengmjóu súpermódel sem eru í Victoria's Secret auglýsingum, eða mössuðu gaurarnir í Calvin Klein auglýsingunum. Það vilja allir líkjast þessu fólki. Það er hins vegar ekki bara út af þessum auglýsingum, þar sem þetta álit er bundið fast í okkur; “Mjótt er fallegt, allt annað er öðruvísi og ljótt.”. Hvað ef Victoria's Secret og Calvin Klein væri með afmyndað (feitt og ljótt) fólk í auglýsingum sínum? Myndi það breyta sjálfsáliti afmyndaða fólksins? Ég held nefnilega ekki.

Þyngd og útlit er eitthvað sem háir öllum, enginn er fullkominn. Hvað er annars fullkomnun? Er það að vera vel vaxinn, sætur, fyndinn og skemmtilegur? Það er nefnilega ekki fullkomnun, þar sem það fer eftir því hvað fólki finnst vera vel vaxið, hvað fólki finnst vera sætt, hvað fólki finnst vera fyndið og hvað fólki finnst vera skemmtilegt. Einum finnst þetta, en öðrum finnst annað. Það má hins vegar segja að eitthvað sé fullkomið FYRIR einhvern, en ekki fullkomið almennt.

En hvað er fólk að berjast við? Það berst náttúrulega við útlitið, en til hvers? Auðvitað til að breyta fordómum fólks. Sumum er alveg sama um hvað fólki finnst, en flestum er það ekki. Auðvitað á manni ekki að vera sama, en ekki að vera með þráhyggju út af því. “Hvað ætli þessum strák finnist um mig? Er ég of feit, of mjó, eða er ég ljót?”. Þetta veldur því að fólk velur breytingar, þ.e. að fara í ræktina, berjast við aukakílóin o.s.frv. og oft á tíðum velur heimskulegar leiðir til þess, eins og t.d. lýtalækningar, bara til þess að breyta útliti sínu. Þetta er heimurinn sem við lifum í, í dag.

Ég sé ekkert að því að hugsa um útlitið og sjálfan sig, stunda ræktina og peppa sig upp í hvert skipti sem maður fer út. Til hvers er ég eiginlega að fara í sturtu, klippingu, hrein föt, laga á mér hárið og setja rakspíra á mig, áður en ég fer út? Út af því að ég vil koma vel fram! Það er ekkert að því. Það væri svolítið erfiðara að kynnast fólki ef ég væri alltaf drulluskítugur, með ógreitt hár og í ógeðslegum fötum. Þess vegna verður maður að hugsa um útlitið. Ég á samt til að gera það of mikið. Ég er kannski bara haldinn þráhyggju. :)

Ef einhver stjarna fæðist í Hollywood. Lítil og sæt stjarna, stendur sig vel sem krakki í kvikmyndum. Hvað svo þegar hún eldist og verður kannski ekki eins sæt og hún var? Þá fer hún í milljón tíma hjá einkaþjálfurum, stílistum og lýtalæknum, bara til þess eins að breyta útliti sínu, svo annað fólk fordæmi hana ekki og svo hún sé ánægðari með sjálfa sig. Ég tek Lindsay Lohan sem dæmi. Hún var rauðhærð, venjulega vaxin og sæt. Núna er hún þvengmjó, ljóshærð og búin að fara í strekkingu, sílíkon og hvað eina! Breytingin, sem hún taldi vera góða, varð bara verri, þar sem hún hugsaði of mikið um að verða “fullkomin”. Svona er þetta með allar þessar Hollywood stjörnur og módel nú til dags. Ef eitthvað er ekki í lagi, þá bæta þau það með hjálp lýtalækna.

Það er alveg til fólk sem fer meira eftir innra útlitinu, heldur en ytra útlitinu, en er það ekki bara fólk sem er ófrítt? Ef manneskjan er ekki ófríð, þá tekur það ófríðu manneskjuna mun lengri tíma að kynnast fríðu manneskjunni. Sérstaklega þegar manneskjan er af gagnstæðu kyni, þar sem útlitið er “first impression” og ef fríðu manneskjunni finnst hin manneskjan ófríð, er það slæmt “first impression”, og því mun erfiðara að kynnast manneskjunni betur. Þar sem ef pakkningin er falleg, þá er auðveldara að nálgast fólk.

En varðandi ljótleika. Það er ekki allt staðlað “ljótt” og “ófrítt”, svipað og með “fallegt” og “frítt”. Sumum finnst eitthvað ljótt og sumum finnst eitthvað fallegt. Á meðan einni stelpu finnst einhver strákur ljótur, þá gæti annari stelpu þótt hann mjög fallegur.

En svo við förum aðeins meira út í þessar auglýsingar með fallegu og vel vöxnu fólki í. Er þetta ekki bara aðferð til að selja meira vöruna sína? Eins og þessi auglýsing, þar sem gullfalleg stelpa er að dæla bensíni á bílinn sinn á einhverri bensínstöð. Er þetta ekki bara aðferð til þess að fá fólk til að hugsa: “Fallega fólkið verslar við þessa bensínstöð, þannig ég ætla að byrja á því”? Maður spyr sig.

Þetta er náttúrulega allt tengt sálfræðinni, allar þessar auglýsingar. Ef þú sérð auglýsingu með sætri stelpu vera að borða súkkulaðistykki, þá er það gert til þess að heilaþvo fólk með því næst þegar það sér sæta stelpu, þá mun fólkið hugsa um þessa tilteknu súkkulaðitegund, og það eykur sölu! Til þess er leikurinn gerður.
Gaui