Allir karlmenn með sjálfsvirðingu ættu að eiga jakkaföt í fataskápnum sínum. Það eru til óteljandi tegundir af jakkafötum, í mismunandi litum og stærðum og gerðum. Ég ætla aðeins að kenna ykkur á jakkafötin.
1. Val á Jakkafötum
Númer eitt tvö og þrjú er að þau verða passa, mega ekki vera of lítið og alls ekki of stór. Það er fátt sem lítur kjánalegar út en strákur í jakka sem er þrem númerum of stór. Jakkaföt fást útum allt og verðin eru útum allt. Frá 10.000 til 60.000. Þar er aðalmálið að merkið hækkar verðið.
Þær búðir sem ég mæli með eru Herra Hafnarfjörður (í Hafnarfirðinum) og Hjá Guðsteini (á Laugarveginum). Þar eru flott og góð jakkaföt á viðráðanlegu verði (20.000 fötin hjá Guðsteini) og þjónustan er ekki verri.
Boss og Sævar Karl eru náttúrulega rjóminn af jakkafatabúðunum, en þær eru frekar dýrar og í rauninni skiptir litlu hvort þú mætir í Armani jakkafötum á jólaballið eða ekki.
Fáið hjálp hjá sölumanninum (Helst karli, því þeir þurfa að nota svona föt) og hann segir þér hvort allt sé í lagi
2. Að klæða sig í jakkafötin
Svartir skór með svörtum eða bláum jakkafötum, svartir eða brúnir með gráum. EKKI nota strigaskó með jakkafötum, það er ljótt. Og jú, fólk tekur eftir skónum, sérstaklega ef þeir eiga ekki við.
Svartir sokkar. Engin frávik.
Ef þú ferð í skyrtu, vinsamlegast gyrtu hana. Það er möguleiki að púlla flott lúkk án þess að gyrða skyrtuna, en það er ekki fyrir byrjendur. Ef þú ferð með bindi er það möst að gyrða.
Ef þú átt er mjög flott að nota svart leðurbelti. Helst ekki nota brúnt belti við svört jakkaföt, það er kjánalegt.
3. Hnappar
Ein lítil upptalning.
Tveir hnappar = Hneppa efri, ekki neðri
Þrír hnappar = Sometimes – Always – Never. Stundum hneppa efsta, alltaf miðju og aldrei neðsta
Fjórir hnappar = Don’t go there.
Þetta á við þegar þú ert með hneppt á annað borð, ef þú ert með opinn jakkan þarftu ekki að hafa hneppt. Yfirleitt er þægilegra að sitja óhnepptur.
4. Bindi og Skyrta
Ef þú ert að fara eitthvert þar sem búist er við skyrtu og bindi þá eru nokkur atriði sem þú ættir að muna eftir.
Bindið ætti að passa við skyrtuna. Hnepptu efstu tölunni þegar þú ert með bindi. Passaðu að bindishnúturinn sé flottur, ekki of stór og ekki of lítill. Bindið verður að vera í réttri lengd, annars er það kjánalegt.
Ef þú ert í hvítri skyrtu er sniðugt að fara í hvítan bol undir, því oftar en ekki séstí gegn. Það lúkkar ekki mjög vel.
Ef þú ert ekki að nota bindi ekki hneppa efstu tölunni, það er of “stiff”. Það getur verið flott að af-hneppa næst-efstu tölunni, en það er ekki fyrir alla. Ef þú ert með mikið af bringuhárum, ekki afhneppa næst-efstu án þess að vera í bol innanundir. Bringuhár sem gægjast útúr skyrtunni eru óaðlaðandi.
Ég vona að þetta hafi hjálpað ykkur, strákar í jakkafataveseni.