Það geta allir saumað. Það þarf bara smávegis þolinmæði og forgangsröðun. Það eru nokkur atriði sem er mikilvægt að huga að þegar farið er að sauma flík. Það ÞARF að búa til snið, ekki sniðugt að byrja bara að klippa. Saumablöð með sniðum er hægt að nálgast í bókabúðum, kallast Burda. Þessi blöð er einnig hægt að nálgast á bókasöfnun. Á mínu bókasafni eru eingöngu Burda blöð og þar er hægt að fá blöð sem kallast Easy Fashion frá Burda sem eru með öllum helstu útskýringum hvernig á að sauma flíkina, sniðin eru einföld og aðgengilegt að taka þau í gegn. En að eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar flík er saumuð:
– Fyrst þarf að taka mál. Brjóst, mitti og mjaðmir er algengast að þurfi að taka mál af. Best er ef einhver annar sér um að taka málið af þér og stendur þá aftan frá. Yfir brjóstin verður að taka þar sem viðkomandi er breiðust og í beinni línu. Mittið er þar sem viðkomandi er hvað grennstur. og mjaðmirnar er þar sem viðkomandi er breiðastur yfir rassinn. Það á ekki að þrengja að, heldur gera þetta mátulega, ekki of laust heldur. Það þýðir ekkert að ljúga þegar verið er að taka mál, þykjast vera minni eða stærri hér og þar því að það bitnar bara á flíkinni;)
– Þegar verið er að draga upp sniðið er best að hafa sníðapappír. Ef það er ekki mögulegt er smjörpappír næst bestur. Það þarf að passa að fara eftir réttum línum, þar sem það er mismunandi eftir stærðum. Það er lang öruggast að taka upp sniðið með blýanti.
– Í 95% tilvika þarf að bæta við saumförum. Það er best að gera það beint á sníðapappírinn áður en hann er klipptur til. 1 cm allsstaðar þar sem á að sauma, ef um ermar sem þarf að brjóta upp á er best að gera 4-5 cm en ekki beint út heldur öðru meginn verður að fara út á við. Þar sem rennilásar koma er best að bæta við 2 cm og þar sem á að falda c.a. 4 cm. Mikilvægt er að hafa saumför því annars minnkar flíkin.
– Þegar verið er að falda, hvort sem það eru buxur eða pils þá verður að brjóta upp á. Eðlilegast er að það sé miðað við að 3 cm séu notaðir til þess að falda og verður að brjóta tvisvar sinnum upp á. 1.5 og svo aftur 1.5. Það er lang einfaldast og auðveldast að strauja yfir áður en það er faldað. Ef um fínni flík er að ræða og það þarf að falda þannig að það sjáist ekki er nauðsynlegt að gera það í höndunum. Saumavélar skilja alltaf eftir sjáanleg ummerki. Þegar verið er að falda í höndunum þarf fyrst að strauja u.þ.b. 3-5 cm upp á brot. Það þarf ekki að vera tvöfalt. Fundin er nál og tvinni við hæfi og saumað þannig að það sé bara tekinn nánast einn “þráður” úr efninu þar sem það sést og svo er farið í upp á brotið. Það er gert með jöfnu milli bili, ekki of stutt á milli og ekki of langt á milli.
Alltaf að lesa allar leiðbeiningar! Stundum þarf að bæta við sentimetrum og margt þannig. Það tekur tíma að sauma og það þarf þolinmæði. Vonandi kemur þetta einhverjum að gagni og athugið að ég er ekki klæðskeri eða neitt þannig, þetta er bara eitthvað sem ég hef lært af saumakennaranum mínum.