Er líftími tískusveiflna (e. trends) að styttast ?! Mér sýnist það og þetta er áhugaverð þróun fyrir alla áhugamenn um tísku.
Tökum jakkaföt sem dæmi. 1950-1970 voru herrajakkaföt með þröngu og beinu sniði, buxurnar rétt ökklasíðar. Semsagt 20 ára trend sem hélt sér tiltölulega vel. Þá stækkuðu og breikkuðu boðungarnir á jökkunum all hressilega og jakkafatabuxurnar síkkuðu niður á skó og vel það ásamt því að þær urðu útvíðar. Þetta lúkk entist út áratuginn, ekki lengur. Uppúr 1980 styttast buxurnar aftur og þrengjast frekar um ökklann en halda sér frekar víðum að öðru leyti. Ca. 8 ára trend sem vék fyrir sígildum jakkafötum rétt fyrir 1990. Uppgangur grunge-tískunnar olli vissu tómarúmi í sparitísku á fyrriparti síðasta áratugar, hippatískan stakk sér niður aftur hjá hinum róttæku á meðan íhaldssamir reyndu að lífga uppá karakterlaus jakkafatasnið með æpandi skræpóttum hálsbindum og jakkafötum í pastellitum. Ekkert markvert gerist fyrr en gráa flannelið tröllríður öllu sundur og saman (með minimalískum sniðum og fútúrísku yfirbragði) 1998-2001 en nú er það líka úr hátískunni þó sígilt sé.
Í dag er síðan allt mögulegt inni - spurningin er ekki lengur “hvað er inni” heldur miklu frekar “hverju vil ég klæðast”. Þetta þykir mér afar skemmtileg þróun og sýnist mér að líftími trenda, þ.e. tísku sem er hópfyrirbrigði, sé að styttast niður í það óendanlega uns svo er komið að það er enginn tíska - bara mismunandi týpur. Sem eru trúar sínum persónulega og heildræna stíl með minniháttar frávikum. Fólk mun í aðalatriðum vera sjálfu sér samkvæmt í fatavali. Tískan mun semsagt felast í útúrdúrum og fylgihlutum - ekki í heildarútliti.
Svo er bara spurningin hvort þetta yrði skemmtileg þróun eða ekki. Viljum við tísku sem hópfyrirbrigði sem endist í takmarkaðan tíma…eða sem einstaklingseinkenni sem heldur sér til lengri tíma ?!?
Fyrir svona “first time writer, long time reader” á þessu áhugamáli eins og mig væri gaman að sjá hvað ofurhugarnir hér á tískunni segja um þetta.