Jæja, mér datt í hug að lífga aðeins upp á áhugamálið og fjalla svolítið um Ford fyrirsætukeppnina sem verður haldin 24. nóvember.
Hún hefur verið haldin nokkuð oft og náði ég að rekja hana til ársins 1999 en hún hefur samt ekki verið á hverju ári eftir það. Þá vann Edda Pétursdóttir og hefur hún verið að gera góða hluti síðan. Hún hefur m.a. birst í blöðum eins og Elle og Marie Claire og hefur hún verið á samning hjá Ford Models í París.
Keppnin var líka haldin árið 2002 og þá var það Stefanía Benónísdóttir sem hreppti titilinn og árið 2004 var það Sif Ágústsdóttir frá Vestmannaeyjum. Allar fóru þær í Supermodel of the World sem er oftast haldin í New York. Þar safnast módel frá öllum heimshornum og keppa um titilinn, í verðlaun er samningur við Ford Models ásamt miklum peningaverðlaunum og fleiru. Þetta er mjög eftirsótt keppni og hefur Íslendingur aldrei unnið hana. Á síðasta ári var það Ingrid frá Kanada sem vann, mjög sérstök stelpa með langt og slétt hár.
Nú er aðeins eitt ár síðan Sif vann keppnina hérna heima og er hún ásamt Elínu Jakobsdóttur, fyrrverandi keppanda í Ford búsettar í London þar sem þær vinna sem fyrirsætur á hverjum degi.
Þannig það er til mikils að vinna og verður Ford stúlkan 2005 valin í nóvember og verða raunveruleikaþættir sýndir á meðan undirbúningi stendur og verður fyrsti þátturinn sýndur á Sirkus 5. nóvember. Aðeins eru fimm þættir og standa þeir að keppni lokinni.
Búið er að velja þær sem komast áfram og eru þær 14 talsins og mun sigurvegari keppninnar fara til New York í janúar þar sem Supermodel of the World verður haldin.