Kæru hugarar.
Nú þegar það er kominn hávetur vaknaði ég upp einn morguninn og uppgötvaði að púðrið mitt var allt í einu orðið mun dekkra en húðin á mér (taka skal fram að greinarhöfundur stundar ekki ljósaböð, enda annt um að fá ekki hrukkur of snemma). Mér finnst persónulega fátt eins ljótt og þegar konur eru með svo stífan og dökkan farða að þær virðast vera grímuklæddar. Endilega verið frekar með ykkar lit á andlitinu, það er miklu eðlilegra og fallegra.
Nú, þá var ekkert annað að gera en að kaupa púður og hélt mína leið út í næstu búð og bað um aðstoð frá starfsfólkinu.
Ég sagði eins og satt var að gamla púðrið væri og brúnt og ég vildi endilega fá púður sem væri nær mínum lit. Starfsmaðurinn byrjaði á að sýna mér Dior-púður sem kostaði litlar 4000 krónur. Það þótti mér dýrt og bað um eitthvað ódýrara.
Tókst henni þá ekki að selja mér í sakleysi mínu L´oréal púður sem ég uppgötvaði þegar heim var komið að var mun dekkra en það gamla! Samt hafði konan sagt mér að þetta væri akkúrat minn litur og fleira.
Mér finnst að það ætti alltaf að vera hægt að fá prufur með sér heim áður en maður kaupir eitthvað sem er svona dýrt, það er ekkert að marka ef einhver klínir einni skellu á hálsinn á manni með fingrunum og ef maður kaupir rangan lit, þá er það bara ,,Æ æ, grey þú" og ekkert hægt að skila eða skipta þar á bæ.
Hér eftir ætla ég allavega að fara sérstaklega varlega þegar ég kaupi mér annað púður einhverntíma á næstu dögum og ég hvet ykkur endilega að láta ekki plata ykkur!
Kveðja Hibi