Karlmenn með bólur í andliti líður eins og þeir séu að auglýsa sjúkdóm framan á sér tuttugu og fjóra tíma á sólarhring. Það er því engin furða að menn hafa orðið víðáttufælnir, dregið sig inn í eigin skel, verið skelfingu lostnir við þá tilhugsun að fara út, bugaðir á sál vegna þeirra félagslegu afleiðinga sem geta fylgt þessum kvilla.
Bólur geta dregið verulega úr lífshamingju manns. Það hefur komið fram í rannsóknum að bólóttir unglingar eiga það á hættu að verða þunglyndir. Þeir standa sig verr á prófum en jafnaldrar þeirra með postulínsandlitin. Líkur á að karlar á þrítugs- fertugs- og fimmtugsaldri sem eru mjög bólóttir fái vinnu eftir viðtal við atvinnuveitanda eru minni en hinna og því eru fleiri þeirra atvinnulausir en þeir með hreina húð.

Bólóttum körlum finnst að þeir séu ekki jafn kynferðislega aðlaðandi og karlmenn með slétta húð. Þeim getur fundist að þeir séu neyddir til einlífis vegna húðarinnar. Þeir óttast kannski að draumadísin þeirra hrökkvi í baklás ef hún flettir frá þeim skyrtunni og í ljós komi bólótt bringa eða bak.

Bólur geta aukið á vanda manna við að finna og njóta leitarinnar að maka. Þær geta dregið úr ánægjunni við það að fara á stefnumót. Þær geta komið í veg fyrir að maður finni maka og svipt þá andlegri næringu, vexti og huggun sem getur verið samfara heilbrigðu og nánu sambandi.

Bólur geta farið mjög illa með sjálfsmynd manns. Það getur verið erfitt að vera ánægður með sjálfan sig þegar maður lítur í spegil og sér enn eina bólureiðuna. Þetta getur verið linnulaust og þreytandi stríð. Einni lotu er kannski nýlokið þegar önnur virðist ætla að taka við. Manni getur liðið eins og það sé hvergi neitt athvarf að finna þar sem maður getur fengið smáfrið til að sleikja sárin. Þessi orrusta fer fram fyrir allra augum.

“Sumir sjúklingar eru með bólur í fjögur til fimm ár og velta fyrir sér hvort þetta ætli engann endi að taka,” segir húðsjúkdómafræðingurinn dr. Bart Ramsay. Hann viðurkennir að bólur geti staðið í vegi fyrir því að menn komi á samböndum, haft neikvæð áhrif á frama manna í starfi og dregið úr atvinnumöguleikum. Hann þekkir menn sem hafa hætt að stunda íþrótt sem þeir hafa haft yndi af vegna þess að þeir kunnu ekki við að láta aðra sjá bólótt bak sitt í búningsherberginu.

Bólur geta haft áhrif á líkamsfitu, segir dr.Ramsey. Hjá körlum geta þær dregið úr líkamsfitu en konur með bólur hafa tilhneigingu til að fitna. Hann segir það misskilning að það geti dregið úr bólum að drekka mikið vatn, neyta sérstaks mataræðis eða fara í andlitssnyrtingu.

Hversu margir karlar fá bólur ? Um 80% karla á unglingsaldri fá bólur- einmitt þegar ungir piltar eru að stríða við það að verða fullorðnir og þegar sjálfsímyndin og sjálfstraustið er á sínu viðkvæmasta stigi.

Bólur herja á allt að fimm prósent manna á þrítugs-, fertugs-, og jafnvel fimmtugsaldri. Þær geta líka komið fram í fyrsta sinn á eldri mönnum.

"Þessar upplýsingar eru að finna í bókinni Heilsa Karla -gefin út af PP Forlagi,,