G-strengir - pönk eða gelgjuskapur? G-strengs flóðbylgjan reis upp snemmsumars 2001 ef ég man rétt og skall á okkur öllum, grunnskælingum, menntskælingum, háskælingum og öðrum jafnfætis og reif okkur með áleiðis inn í 21. öld klámvæðingar og siðblinds markaðsþjóðfélags sem miðar að því að nýta sér heimsku íslenskrar og útlendrar æsku.
Maður er aldrei jafn heimskur og á aldursbilinu milli 8. og 10. bekkjar. Hormónarnir eru farnir á slíkt flug að þeir komast ekki lengur fyrir í manni og heimta útleið, hvort sem það er í gegnum ófyrirsjáanleg reiðu/frekju/gelgjuköst, eða einfaldlega út um húð manns í graftarformi. Hendur lengjast, búkur þéttist en ekki endilega allt á sama tíma. Maður er líka aldrei jafn ljótur og þegar maður er millum 8. til 10. bekkjar og því finnst mér alltaf jafn fyndið að maður skuli fermast á þessum tíma. Fermingarmyndin þín mun ALDREI gleymast.

Á þessum tíma eru foreldrar ekki lengur hið eina sanna ákvörðunar afl alls og sannleiksflytjandinn eini. Þess í stað hefur Svala Fólkið í bekknum fengið þann heiður og allt er gert til þess að sanna sig fyrir þeim (og í leiðinni sjálfum sér) og ein besta leiðin til þess er að gera uppreisn gegn yfirstjórninni, sem í 90% tilvika eru foreldrar. Og hvað eru foreldrar hræddastir við? Hvað er það sem fær foreldra barns til að skjálfa á beinum og hugsa að nú hafi ský dregið fyrir sólu þeirra og heimurinn er ekki lengur jafn bjartur og fagur og áður var?
Nú auðvitað að barnið sé ekki lengur barn, heldur unglingurinn. Hálfbarn/hálffullorðið. Sérkennilegt millistig. Og hvað breytir barni í ungling?
Kynþörf.
Hreinir, ómengaðir kynhormónar sem vessa út um allt frá “litla barninu” og hræðir líftóruna út úr foreldrunum. Barnið er orðið kynvera, sjálfstæður einstaklingur sem sættir sig hvorki við boð né bönn yfirvaldsins. Hvernig gerir þessi nýja kynvera uppreisn? Með því að sýna heiminum kynlegt eðli sitt. Rétt eins og pönkararnir múnuðu yfirvaldið forðum daga eru smágelgjur landsins að draga G-strengi sína lengstu leið upp úr brókum sér og sýna þannig að þær eru ekki lengur undir þann hæl settar að hlýða gömlum kreddum. Nú eru þær sjálfs síns herrar og er svo sannarlega frjálst að troða smáspottum lengstu leið upp í rassinn sinn sem mest þær mega!

En hver er rótin? Hvaðan kemur þessi rassgatstengda uppreisnarþörf?
Þermistigið
Fyrsta skipti sem þú reynir að sýna örlítið sjálfstæði er strax um 3-4 ára aldurinn þegar þú kemst á hið svokallaða “þermistig”. Kúkur, rass, piss, tippi og fleira gróteskt í þessum dúr fær gríðarlegan húmorískan sess í huga þér og þú grípur hvert tækifæri sem gefst til þess að benda á hinar skondnu, en fyrst og fremst sjokkerandi hliðar þessara vessa sem við látum öll frá okkur, en hugsum þó til með viðbjóði (flest, en sumir eru ekki eins og fólk er flest).
Strax á þessum aldri er barnið farið að reyna að sjokkera foreldra sína, sjá hvort það sé hægt að koma þeim úr jafnvægi og hrykkta þannig í undirstöðunum sem alvaldið hefur.

Því mætti telja að G-Strengurinn sé ekkert nema endurupplifun á þermistiginu sem undirmeðvitund okkar og eðlisávísun gæddi okkur strax á okkar fyrstu árum. G-Strenginn mætti kalla gunnfána reiðrar íslenskrar dónaæsku. Í stað bleika hanakambsins er nú kominn bleikur þvengur, í stað kreppts hnefa er komið blúnduklætt pínubíkíní.

Persónulega finnst mér þessi þróun ekki góð, en persónulegt álit mitt á þessu skiptir engu máli þar sem ég er af annari kynslóð. Ég hef engan rétt til þess að gagnrýna tjáningarmátann sem fólk velur sér, ekkert frekar en ég hef rétt til að níða hanakamb pönkarans.
En mér finnst samt sóðalegt að sjá 8. bekkjar gelgjur með Gísarann upp á bak…