Mönnum hefur verið tíðrætt um hversu skaðlegar nútíma poppfyrirmyndir séu fyrir unglinga og ungt fólk á síðustu áratugum. Vísindamenn hafa komið með þær tilgátur að öll þessi síbylja sem dynur á ungu fólki nú til dags eigi eftir að hafa miklar afleiðingar, hvort sem þær verða af hinu illa eða ekki.
Ég hef hins vegar engar áhyggjur af þessu, læt öll tónlistarmyndbönd, poppútvarpsstöðvar og auglýsingar á götum úti sem vind um eyru þjóta. Allir hafa sín sársaukamörk, hvort sem það er fyrir símasölumönnum, poppmyndböndum, auglýsingum eða hverju öðru. Um leið og farið er yfir þessi sársaukamörk byrjar áróðurinn sem teygði þolrifar þess að snúast gegn sjálfum sér og hefur algerlega andstæð áhrif. Fari t.d. símasölumaður yfir þessi sársaukamörk hjá “viðskiptavinum” sínum, hættir fólk að þola þá, og gerir sér það að leik að kaupa aldrei neitt af þeim þegar þeir hringja í mann kl. 7 að kvöldi á meðan maður nælir sér í kartöflurnar og afganginn af fiskinum í ísskápnum.
En svo við víkjum aftur að fyrirmyndunum, þá hafa þau einnig þessi svokölluðu sársaukamörk. Að vísu eru þau frekar einstaklingsbundin, og fara oftast nær eftir aldri, kyni, áhugamálum o.s.fr.
Í tónlistarmyndböndum sem við sjáum svo til daglega, gefur að líta íturvaxnar dilla-rassi-og-brjóstum-dansmeyjar, og (þótt sjaldgæfara sé) hraustlega vaxna Fabio-a 21. aldarinnar, sem ærslast og djöflast engu líkara en þau væru stödd í alls herjar vikivaka; allt í takt við steingelda popptónlist sem á ekki tilvist sína skilið. Ungir og ómótaðir unglingar taka þessar ímyndir beint inn í heilarótina, og með síendurteknu áhorfi(það er engin tilviljun að þessi tiltekni aldurshópur slær öll met í popptívíglápi) greypist þessi vöxtur, framkoma og útlit inn í aldurshóp sem veit varla í hvorn fótinn hann á að stíga þegar kemur að aukningu sjálfsmyndar sinnar. Hann grípur sitt traustasta haldreipi, nefnilega tónlistarmyndböndin, fataauglýsingar með tággrönnum fyrirsætum, fegurðarsamkeppnir o.s.frv.
(Ég ætla ekki að fara nánar út í hvernig þróun hins almenna tónlistar- og myndbandamarkaðs hefur átt sér stað og af hvaða orsökum, hugarar góðir vita vonandi meira en nóg um þau mál.)
Gott og vel.
Það er hins vegar önnur hlið á teningnum sem, að mínu mati gleymst hefur að skoða, sem er einmitt þessi merkilegu haldreipi. Varla urðu þau til þegar tónlistarmarkaðurinn fann sína nýjustu féþúfu?
Held ekki.
Öld eftir öld, árþúsund eftir árþúsund hafa unglingar á fermingaraldri grandskoðað málefni er tengjast því hvernig þau eigi að líta út, hvernig best sé að ganga í augun á hinu kyninu, hvernig þau vekja virðingu meðal vina og kunningja sinna og þar fram eftir götunum. Þau hafa, rétt eins og óharðnaðir unglingar í “rótlausum nútímaheimi græðgi og spillingu” fengið sín haldreipi, bara annars staðar frá.
Mæður hafa allt frá upphafi mannkyns beðið dætur sínar að hjálpa sér við húsverkin, allir feður sem gengið hafa á þessari jörð hafa sýnt syni sínum hvernig veiða á fisk, eða dádýr, að ég tali nú ekki um hvernig bera skuli sig að við skeggrakstur.
(Að sjálfsögðu er ég að einfalda málin með því að taka steriótýpur sem allir þekkja.)
—
Eftir þennan samanburð leyfi ég mér að efast um óhollustu fyrirmynda nútímans. Þar að auki, þá er þetta ekki eina gnægtahornið sem unglingar geta sótt í þegar þau eru ráðvillt á kynþroskaskeiðinu, síbyljan er aðeins brot af þeim fróðleiksbrunni.
Það er einfaldlega ekkert nýtt undir sólinni, þeir eldri hafa alltaf “hneykslast”(dálítið sterkt til orða tekið) á yngri kynslóðinni og orðið bangnir við tilhugsunina um hvernig unga fólkið muni taka við þjóðfélaginu. “Heimur versnandi fer” taka þessir gamlingar sér orð í munn. Enda eru menn alltaf hræddir við það sem þeir ekki þekkja.
Vildi bara pósta hérna grein sem ég skrifaði, linkurinn er
http://www.hugi.is/heimspeki/greinar.php?grein_id=57836 kv.hvurslags