Kæru Hugar

Þetta er nú kannski langsótt en hefur einhver hérna reynslu af dvöl á fangelsinu Hólmsheiði? Þetta er þarna nýja fangelsið sem var byggt nálægt Heiðmörkinni. Ég hef verið aðeins að lesa mér til um þetta undrafangelsi, sérstaklega hönnunartillögurnar til listskreytinga í fangelsinu og finnst þær frekar magnaðar.

Af heimasíðu fangelsismálastofnunnar (fangelsi.is)

"Efnt var til samkeppni um listskreytingar og hlutu fyrstu verðlaun þær Anna Hallin og Olga S. Bergmann. Tillaga þeirra heitir Arboretum - trjásafn og er margþætt listaverk, þyrping 9 tegunda trjáa og "fuglahótel" með tilheyrandi fuglahúsum sem unnin eru í samvinnu við tréverkstæðið á Litla-Hrauni. Hægt er að fylgjast með fuglalífinu í sjónvarpi í fangelsinu."

Ég las líka einhverja bók um þessa tillögu og pælingarnar á bakvið þetta. Lét fylgja hluta með:

"Fuglar eru algeng táknmynd fyrir frelsi - að vera frjáls eins og fuglinn fljúgandi. Frelsi er margslungið hugtak en í grunninn tölum við um persónufrelsi, athafnafrelsi, ferðafrelsi, skoðanafrelsi og tjáningafrelsi. Harðasta refsing sem brotamönnum er veitt á Íslandi, og er fylgt eftir í fangelsum landsins, er tímabundin frelsissvipting.(...)

Að vera settur undir vald stofnunarinnar er skerðing á persónufrelsi. Refsingin felst þá fyrst og fremst í hömlum á ferða- og athafnafrelsi. Fangi í afplánun á Hólmsheiði er læstur inni í klefa frá klukkan 22:00-08:00 næsta morgun. Hann hefur klukkustund til að klæða sig og fæða því klukkan 09:00 ber honum að sinna ákveðnum athöfnum sem boðið er upp á í fangelsinu, s.s. vinnu eða námi. "

"Eftirlit gegnir líka stóru hlutverki í listaverki Önnu og Olgu. Myndir af fuglalífi í fuglahúsum birtast á skjá í bókasafni fangelsisins fyrir tilstilli eftirmyndavéla sem komið er fyrir innan sem utan fuglahótela og við einn fóðurskúlptúr. Fuglarnir eru því undir eftirliti fanganna. Þannig sinna þeir sem eru undir eftirliti stofnunarinnar sjálfir eftirliti á fuglunum. Tilgangur eftirlitsins er þó af gerólíkum toga. Annars vegar er það frelsið en hins vegar ófrelsið sem er til skoðunar."

Á útisvæðinu er svo líka höggmynd í steypuvegg af flugmynstri mismunandi fuglategunda.

Þetta finnst mér algjörlega maukað dæmi. Hefur einhver hérna fengið að sitja inni í þessu fangelsi/galleríi? Ég iða allur eins og njálgur yfir tilhugsuninni að fá að upplifa þessi fangelsisvist. En langar samt kannski ekkert til að brjóta af mér til að sitja þarna inni bara fyrir þessa fugla.

Það hljómar líka eins og mikil pressa að hanna einhverja list fyrir fanga. Ímyndaðu þér verk (þessvegna málverk, lag, kvikmynd) sem að þú ert LÆST/UR INNI MEÐ Í FLEIRI MÁNUÐI. Það verður að vera eitthvað sem gerir mann ekki brjálaða/nn. Ímyndaðu þér að vera fastur með einhverju verki sem þú neyðist til að upplifa dag eftir dag, sérstaklega þegar þetta verk er hálfpartinn að hæðast að þér. Frjáls eins og fuglinn en þú ert ekki frjáls. Þetta er eins og tilfinningalegt salt sem er nuddað í sárin á hverju, degi.


Hefur einhver setið þarna inni og veit hvernig þetta er? Eða getið þið spurt einhverja vini/kunningja sem hafa setið þarna inni?




Kveðja,
Fíkjumaðurinn.
Áhugamaður um alvarleg málefni.