Einu sinni í vinnunni, og það nokkrum sinnum, skrifaði ég eitthvað dútl á blað þegar lítið var að gera.
-----
Mér líst ekki á þetta. Framundan bíða óþokkar og valkyrjur, sundrunarflokkar geðsins. Leiðin liggur gegnum þyrnum stráð brennandi hraun við undirspil hátíðnihljóðfæra sinfóníuhljómsveitar þagnarinnar. Hvort sem ég lít til hægri eða vinstri starir á mig pyntingagjörn auðn. Ég hef ekki gengið nema þriðjung leiðarinnar. Hróp tómsins sem umlykur mig stigmagnast. Bensínlaus kílómetra frá næstu bensínstöð? Fokkin bömmer.
-----
Eftir því sem ljósin faðmast fastar og hraðar þartil þau eru loks eitt í hafsjó blörraðra andlita hallast heimurinn þartil ég finn högg á hausinn sem lætur mig vita að skiptin hafa gengið í gegn. Heimurinn er á hlið og einhver stelpa hrasar um mittið á mér. Ég þrýsti mér upp einsog ormur að næsta borði, og stend þar undir. Skyndilega er ég rifinn af offorsi niður og settur á hlið. Heimurinn er jafn og ég fæ högg á hausinn til vitneskju um að skiptin hafi gengið tilbaka. Ég vagga afturábak dasaður, þartil ég er úti og dyrnar skellast á mig. Þá er það bara næsti bar.
-----
Ljósastaurarnir og fagurljómuð húsin liggja yfir borginni og gefa henni svip. Án þessa svips stæði ég í myrkvuðu samfélagi og liti rétt næstu hús. Þvílík uppfinning, rafmagnið. Svipgefandi, hefjandi svipuna yfir okkur. Við erum háð ögnum eða eindum sem ég kann ekki nein hrikaleg deili á. Ég sá á netinu að nú væri til fólk sem spilaði tónlist með því að láta milljón volt leika um varinn líkama sinn. Við höfum beislað heiminn, vopnuð hugviti. Hvernig má vera að allt þetta hugvit skilji eðli heimsins, lesi næstu ráðgátu á næstu hæð í sístækkandi háhýsi vísindanna sem opna bók, en að þetta sama hugvit strandi og sökkvi við það eitt að reyna að skilja svo mikið sem hugsunarferli og vissa tilveru gegnsæustu manneskjna? Værum við nær mannlegri visku ef kerti eða lampar lýstu mér leið í stað þessara staura? Ætli það nokkuð. Ætli hugvitið gagnist okkur ekki við að mála heiminn. Ef hugsanir og tilvera manns bara passaði á strigann.
Ég held að konan í húsinu á bakvið mig hafi starað á mig svolitla stund. Kannski hún sé líka að pæla í ljósastaurunum.
Hún dregur gardínurnar fljótt fyrir af hálfgerðu æði. Ætli hún vantreysti mér ekki bara.
-----
Það eru ekki nema svona fimmtán sekúndur síðan mér leið bara ágætlega. Ég var einsog annað fólk, hjartað sló, augun sendu sjónboð til heilans og allt að gerast í þessu skynjunardæmi, nema hvað ég greindi ekki hvað var að gerast fyrir aftan mig. Eina stundina var ég að anda einsog fólk gerir yfirleitt, og þá næstu var ég ekki að gera það einsog fólk sem hefur ekki aðgang að súrefni. Einhver kjáninn hafði þá læðst aftan að mér og strengt vír þvert yfir hálsinn á mér. Mér líður hræðilega. Og ég sem átti eftir að-