Mig langar að senda inn þessa grein sem að ég rakst á á mbl.is.
Þvílíkt kraftaverk að stúlkubarnið hafi lifað þetta af, sjálf á ég litla systur sem að var bara 4 merkur fædd og var maður svo hrædd um að hún skildi ekki lifa en er nú í dag orðin 5 ára og ekki að sjá á henni að hún sé fyrirburi. Þannig að það væri gaman að vita hvernig þessi á eftir að spjara sig.
Hvað finnst ykkur um þetta?
Barn sem vó 285 grömm, eða rúmlega eina mörk, við fæðingu hefur verið útskrifað af sjúkrahúsi í Flórens á Ítalíu. Læknar við sjúkrahúsið segja heilsuhreysti litlu stúlkunnar ganga næst kraftaverki og að hún sé minnsta fædda barnið sem hafi lifað.
Læknar og hjúkrunarfræðingar við Careggi-sjúkrahúsið í Flórens hafa kallað litlu stúlkuna „Perlu“. Hún var tekin með keisaraskurði í byrjun febrúar en þá hafði móðir hennar gengið með hana í 27 vikur.
Læknar segja að fram til þess sé minnsta barnið sem hafi lifað, verið 300 grömm við fæðingu. Það fæddist í Japan á síðasta áratug.
Foreldrar barnsins hafa óskað eftir því að halda nafni sínu og barnsins leyndu.
„Ég var smeyk við að halda á henni,” sagði Margarita Psaraki, barnalæknir við Careggi-sjúkrahúsið. Þegar hún fæddist var litla stúlkan 25 sentimetrar að lengd þegar rétt hafði verið úr henni. Stúlkan vegur núna 2 kg eða átta merkur og er komin heim til foreldra sinna í Flórens.
Firmino Rubaltelli, sem fer fyrir hópi læknanna sem önnuðust litlu stúlkuna, sagði blaðamönnum í dag að það gengi næst kraftaverki að hún skyldi lifa. Barnið var tekið fyrir tímann vegna þess að móðir þess þjáðist af vandkvæðum í æðakerfinu í öðrum fótleggnum og hætta var á að taka þyrfti af henni fótinn ef meðgangan yrði lengri.
Læknarnir segja að litla stúlkan hafi ávallt hegðað sér líkt og fullkomlega eðlilegt barn.