Ég ætla að leyfa mér að færa svar mitt hingað af öðrum þræði:
Grundvallar misskilningurinn í orðræðu þessari felst í skilningi hugtaksins kyn. Af hverju ræðst kyn einstaklings?
Það fyrsta sem okkur gæti dottið í hug eru ytri útlitseinkenni manna, einstaklingur sem er með typpi er karlmaður og einstaklingur sem er með píku er kona. Önnur síður mikilvæg útlitseinkenni geta skipt máli, svo sem brjóst en þau ein og sér duga augljóslega ekki til þess að gera greinarmun á kynjum vegna þess að sumir einstaklingar með píku hafa engin brjóst og sumir einstaklingar með typpi hafa brjóst (ungir karlmenn, þrátt fyrir að vera ekki feitir, geta fengið brjóst og kallast það kvenbrjóstun sem er iðulega lagfærð með hormónagjöf og fjarlægingu fituvefs með uppskurði).
Auk þess geta einstaklingar haft ytri kynfæri karls en innri kynfæri konu, þ.e.a.s. verið með typpi og eggjastokka. Þessu getur einnig verið öfugt farið. Þar að auki fæðast sumir með bæði ytri kynfærin og er það lagfært miðað við hvaða innri kynfæri viðkomandi hefur eða eftir atvikum með samráði foreldra. Stundum er þessi leiðrétting látin bíða þar til rétt kyn er hægt að ákvarða miðað við hegðun einstaklings þegar hann er orðin eldri. Þetta er mikilvægt að athuga.
Svo mætti athuga sérstaklega svokallaða kynlitninga. Líffræðingar ákvarða gjarnan kyn lífvera út frá þessum kynlitningum. Flestar lífverur eru raunar einkynja, en þær lífverur sem eru kynverur eru oftast tvíkynja (sumar lífverur geta skipt um kyn eftir hentugleika, eins og sniglar til dæmis). Kynlitningarnir í mönnum eru kallaðir X og Y (vegna þess hvernig þeir líta út), þessir litningar koma venjulega fyrir í pörum. Karlar hafa XY litninga en konur XX litninga (þessu er öfugt farið meðal fugla). Með þessum hætti ákvarða erfðafræðingar kyn. Til eru fleiri möguleikar, svo sem XXY, XYY og svo margar flóknari (ein þeirra veldur Downsheilkennum). Af þessu má ráða að kynlitningar eru flóknari en svo að hægt sé með góðu móti að tala um tvo kyn, þó svo það sé almennt gert í líffræðilegum skilningi.
Svo getum við skoðað heilan, sem við teljum flest að ákvarði hegðun okkar og persónuleika. Það er vel þekkt að heilar kvenna og karla eru öðruvísi, ekki nóg með það heldur eru til dæmis meiri líkindi með heila samkynhneigðs karlmans og konu en gagnkynhneigðra og samkynhneigðra karlmanna. Þannig jafnvel greining kynja byggð á skoðun heilans er frekar flókin.
Af þessu öllu saman má ráða að það er ekki einfalt mál að greina kyn einstaklinga. Hvorki kynhneigð, útlit eða erfðir virðast geta fullkomlega skorið úr um hvers kyns menn eru. Þá má velta fyrir sér hvort það sé eðlilegt að skipta okkur eftir kyni nema þá í fræðilegum tilgangi, til dæmis gæti læknismeðferð ráðist af því af hvaða kyni menn eru.
Þeir einstaklingar sem hafa verið kallaðir kynskiptingar eru andfallnir þeirri nafngift einfaldlega vegna þess að í þeirra huga hafa þeir ekki skipt um kyn heldur hafa alltaf verið af réttu kyni en hafa fæðst með vitlaus kynfæri miðað við persónuleika. Einstaklingi getur liðið eins og konu, hegðað sér eins og kona en verið með kynfæri karlmanns. Hvers vegna ættum við að kalla þann einstakling karlmann? Það þjónar almennt engum tilgangi, nema þá kannski hugsanlega í læknisfræðilegum tilgangi. Nú ef einstaklingur sem upplifir sig sem konu en er með typpi ákveður að fá sér píku, þá hefur sá einstaklingur ekki skipt um kyn heldur strangt til tekið skipt um kynfæri. Kannski mætti tala um kynfæraskipting, en það þjónar heldur engum tilgangi almennt nema það skipti umræðuna sérstaklega máli. Kynskiptingur í hugum þeirra sem hafa íhugað málið vel felur þess vegna í sér þann misskilning að sá upplifir sig sem kona hafi einhvern tíman verið eitthvað annað en kona, sem er frekar leiðinlegt að heyra. Þessu mætti líkja við það að spyrja karlmann hvenær hann komst að því að hann væri karlmaður, það virkar frekar móðgangi vegna þess hann hefur aldrei verið í vafa um að hann sé karlmaður og hefur alltaf hugsað um sjálfan sig sem karlmann.
Við þetta má einnig bæta, að utan hins vestræna heims þekkjast fleiri kyn en karl og kona. Frumbyggjar Norður-Ameríku áttu til að mynda sérstakt orð yfir einstakling sem var af báðum kynjum og var þá sagður hafa tvær sálir. Þessir einstaklingar voru mikilsmetnir og voru taldir kyngimagnaðir (þ.e. göldróttir). Sömu sögu er að segja um samfélög í Asíu, þar eru til sérstök orð um þá sem líta út eins og karlmenn en eru konur o.s.frv.
Vona að þetta sé skýrt, afsaka fyrirfram hugsanlegar rangfærslur í blaðrinu hér að ofan.
TL;DR Transgender einstaklingar skipta um kynfæri ekki kyn, sumir skipta raunar aldrei um kynfæri en líta alltaf á sjálfan sig sem konu eða karl þrátt fyrir að hafa hugsanlega ytri og innri kynfæri hins kynsins.