Í dag var það staðfest sem allir stuðningsmenn Liverpool hafa verið að bíða eftir. Kenny Dalglish skrifaði undir samning við Liverpool FC sem gerir hann að knattspyrnustjóra félagsins næstu þrjú árin að minnsta kosti.
Um leið var tilkynnt að Steve Clarke, sem gekk til liðs við þjálfaraliðið á sama tíma og Dalglish hefði einnig skrifað undir þriggja ára samning og verður hann hluti af þjálfaraliði félagsins.
John Henry, eigandi félagsins sagði af þessu tilefni: ,,Kenny er goðsögn hjá Liverpool bæði sem frábær leikmaður og einstakur stjóri. Síðan hann kom í janúar hefur hann sýnt ótrúlega leiðtogahæfni og þann eiginleika að laða fram það besta í svo mörgum sem tengjast þessu félagi. Það var ljóst fyrir okkur mjög fljótlega að andrúmsloftið í kringum félagið breyttist með tilkomu hans. Enginn annar hefði getað breytt hlutunum svona hratt. Þess vegna, er ég hæstánægður með að hafa komist að samkomulagi við hann. Við vildum ekki né þurftum að leita annað að rétta manninum til að stjórna liðinu.“
,,Þegar maður vinnur náið með Kenny sér maður frá fyrstu hendi þá ástríðu sem hann ber í brjósti fyrir félaginu og hann ætlar sér að gera allt sem hægt er að gera til að búa til sigurlið að nýju. Hann hefur einstakt samband við stuðningsmennina og hann er í raun lifandi dæmi alls þess sem er sérstakt við Liverpool aðferðina og hvernig hlutirnir ganga fyrir sig hér. Félagið nýtur einstaks stuðnings um heim allan, en að hafa Kenny við stjórnvölinn gerir okkur kleift að laða til okkar bestu knattspyrnumennina nú þegar við ætlum að koma félaginu í fremstu röð á ný.”
,,Ég er einnig ánægður með að hafa samið við Steve Clarke, því framlag hans til þjálfaraliðsins hefur verið umtalsvert síðustu fjóra mánuði.“
Kenny Dalglish er sennilega manna ánægðastur með þennan samning og hann sagði: ,,Ég sagði þegar ég tók við í janúar að ég myndi glaður hjálpa félaginu til loka tímabilsins. Nú hafa eigendurnir ákveðið í visku sinni að þeir vilja hafa mig aðeins lengur og það eru frábærar fréttir fyrir mig og Steve Clarke að hafa skrifað undir þessa samninga. Bæði John (Henry) og Tom (Werner) hafa tekið sinn tíma í að skoða hvað sé best fyrir þetta félag og að fá inn þann mannskap sem þarf til að koma þessu félagi hærra. Þeir eru báðir sigurvegarar, en skilja hvað stuðningsmenn félagsins vilja og að hlutirnir eru unnir á ákveðinn hátt hjá þessu félagi. Þetta er einstakt félag og ég er svo ánægður með að eiga tækifæri á því að byggja eitthvað sérstakt upp hér að nýju.”
,,Ég vil hrósa leikmönnum félagsins fyrir framlag þeirra því þeir hafa verið stórkostlegir og allir hjá félaginu hafa tekið mér opnum örmum síðan ég kom í janúar. Ég vil einnig hrósa Steve Clarke fyrir hans framlag síðan við byrjuðum að vinna saman því hann hefur komið með mikla reynslu og þekkingu í þjálfaraliðið. Leikmennirnir njóta æfinganna, þeir skilja sitt hlutverk úti á vellinum og hafa brugðist einstaklega vel við nýjum áherslum."