Þessi samningur verður líklegast samþykktur. Hins vegar er hann ekki góður þó hann sé betri en sá fyrri.
Gamli landsbankinn á einfaldlega að fara í gegnum hefðbundin gjaldþrotaskipti, þar sem eignum hans er skipt á milli kröfuhafa eftir þeim lögum sem gilda um gjaldþrotaskipti. Þeir sem vilja samþykkja þennan samning halda því statt og stöðugt fram að eignir Gamla Landsbankans dugi að minnsta kosti langleiðina til upp í allar kröfur Breta og Hollendinga. Ef eitthvað stendur eftir ætti það að greiðast úr Tryggingasjóði innistæðueigenda. Ef allir innistæðueigendur fengu greitt með þessum hætti myndi tap þeirra vera brot af sjálfri innistæðunni sem þeir áttu inni í bankanum. Það er líka eðlilegt að þessir innistæðueigendur tapi vegna þess að þeir settu peningana sína inn í banka sem var að greiða fáránlega háa vexti, sem hlýtur að vera vísbending um áhættu (alveg eins og menn fá lág vaxtakjör af ríkisskuldabréfum en mjög há ef fjárfest er í stóru fyrirtæki alla jafna).
Það sem gerðist er að Bretar og Hollendingar ákváðu að greiða innistæðurnar samstundis til allra innistæðueigenda einfaldlega vegna þess að það hefur slæm áhrif á efnahaginn ef fólk hefur ekki fé á milli handanna til þess að eyða, enda heldur það efnahagskerfinu gangandi. Það er skiljanlegt, þótt svo það megi deila um hvort það sé skynsamlegast. Þá eru breska ríkið og hollenska orðnir kröfuhafar í GL. Þeir ætluð svo að lána okkur peninga til þess að greiða þeim til baka sömu peninga (fáránlegt þegar þetta er orðað svona, en svona er þetta), nema hvað þetta þýðir að þeir geta rukkað okkur vexti. Vextir, sem eru eitt af vélaráðum andskotans, eiga að vera nokkurs konar greiðsla fyrir lán á peningum, þ.e. peningar sem eiga að koma í stað fyrir vænt tap þess sem lánar lausafé sitt vegna þess að hann gæti misst af einhverju öðru gróðatækifæri þegar peningarnir hans eru bundnir annars staðar. Í samhengi vinaþjóða er þetta eiginlega kjánalegt, ég rukka ekki vini mína um vexti. Málið er að vænt tap vegna gjaldþrots íslenska ríkisins er örugglega miklu meira en sem nemur þessum vaxtagreiðslum, því þá fengju þeir ekki neitt af þessum peningm til baka. Þetta er ástæðan fyrir því að skuldir eru oft afskrifaðar að hluta, því það er betra að missa hluta af fénu með þeim hætti frekar en að hafa skuldina svo háa að lánþeginn getur engann veginn greitt það til baka og þá færðu ekki neitt. En þetta er allavega aðalástæðan fyrir því hvers vegna fyrri samningur var út í hróa. Þessi er skárri að því leiti að vaxtagreiðslurnar eru
hugsanlega viðráðanlegar.
Þær eru hugsanlega viðráðanlegar vegna þess að gert er ráð fyrir, ef allt gengur eins og spáð er fyrir um, að þær verði um 32 milljarðar sem flestir telja viðráðanlegt þó það sé stór baggi. Málið er hins vegar að forspár allra þessara snillinga eru yfirleitt álíka gagnlegar og forspár þroskahefts apakötts. Enginn af þessum mönnum sér fyrir þau efnahagsvandræði sem eru framundan hverju sinni, orfáir menn voruðu við síðasta hruni og þeir bara þaggaðir niður. Síðast voru efnahagsþrengingar 2001 í kjölfar Internetbólunnar. Hvers vegna eru menn svona vissir um að einhver önnur bóla springi ekki 2016 og þessir 32 milljarðar verði ekki skyndilega 100 milljarðar? Menn geta þrefað endalaust um það hvort það er líklegt eða ekki, málið er að þeir vita það ekki. Hvers vegna var þá ekki sett þak á vaxtagreiðslur í þessum samningi? Til dæmis, þótt ekki væri NEMA 70 milljarðar? Eitt ákvæði sem segði “Ef vaxtagreiðslur fara yfir 70 milljarða, er þessi samningur ekki lengur gildur enda ólíklegt að Ísland geti staðið við þær greiðslur”. Nei, eitt svoleiðis ákvæði er greinilega út í hróa hött og þetta er besti samningurinn sem hægt er að fá og það verður EKKI samið aftur (af hverju ekki? vilja bretar ekki heldur semja og fá peninga en ekki? að sjálfsögðu er þetta bull, það er alltaf hægt að semja aftur).
Allt þetta eru bara almennar vangaveltur um hvað sé skynsamlegt burt séð frá því hvort við eigum að bera nokkra ábyrgð yfir höfuð. Ég get ekki séð að við gerum það. Helstu rökinn sem ég velti lengi fyrir mér voru þau að það væri brot á jafnræðisreglunni (4 gr. EES samnings) af hálfu íslenska ríkisins að tryggja innistæður hérlendis en ekki erlendis. Þau rök tek ég hins vegar ekki gild lengur. Þar segir:
Hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs er bönnuð á gildissviði samnings þessa nema annað leiði af einstökum ákvæðum hans.
Nú, í fyrsta lagi var ekki mismunað á grundvelli ríkisfangs, heldur landfræðilegri staðsetningu útibús. Þ.e.a.s. ef að erlendur ríkisborgari átti fé í íslenskum banka hér á landi, voru innistæður hans tryggðar af íslenska ríkinu skv. neyðarlögum. Þannig er fráleitt að halda því fram að menn hafi mismunað á grundvelli ríkisfangs, hér var ríkið einfaldlega að bregðast við algjöru bankahruni innanlands eins og aðrar þjóðir gerður. Þó svo þessir bankar séu sama fyrirtækið er greiðslumiðlunarkerfi bankanna mismunandi eftir löndum, hér var bara verið að tryggja aðgang íslenskra borgara að lausafé svo hagkerfið einfaldlega stöðvaðist ekki vegna peningaskorts.
Ég gæti röflað lengur um þetta, en fyrir mér er þetta fyrst og fremst spurning um rétta siðferðislega breytni og mér finnst það einfaldlega rangt að neyða alla Íslendinga til að borga skuldir fjárglæframanna. Svo ég mun kjósa nei.