Ég vil fá eitt á hreint (sem ég hef heyrt ansi oft talað um): er foreldrum heimilt að kaupa áfengi fyrir börn sín sem eru 15 ára og eldri?
.
18. gr. Óheimilt er að selja, veita eða afhenda áfengi þeim sem er yngri en 20 ára. Ávallt þegar ástæða er til að ætla að kaupandi eða viðtakandi áfengis hafi ekki náð þessum aldri skal sá sem selur, veitir eða afhendir það láta hlutaðeiganda sanna aldur sinn með því að sýna skilríki með mynd eða á annan fullnægjandi hátt.
28. gr. Gera skal upptæk til ríkissjóðs öll áhöld sem með ólögmætum hætti á að nota eða hafa verið notuð við bruggun eða tilbúning áfengra drykkja eða til þess að gera drykkjarhæft það áfengi sem ódrykkjarhæft var. Áfengi sem búið hefur verið til eða aftur gert drykkjarhæft með ólögmætum hætti skal og gert upptækt ásamt ílátum.
Tæki sem talin eru í 7. gr., sem finnast hjá öðrum en þeim sem hafa til þess leyfi, skulu gerð upptæk án tillits til þess hvort þau hafi verið notuð til áfengisgerðar eða ekki.
Einnig skal gera upptækt:
a. áfengi sem ólöglega er flutt til landsins,
b. áfengi sem borið er ólöglega inn á veitingastað eða út af honum,
c. áfengi sem ungmenni yngri en 20 ára hafa undir höndum,
d. áfengi í vörslu þeirra sem brotlegir gerast skv. 21. gr.
Ákvæði til bráðabirgða.
IV. Dómsmálaráðherra skal þegar í stað skipa sex manna nefnd sem hafi það verkefni að kanna hvort æskilegt sé að breyta áfengiskaupaaldri hér á landi. Nefndin skal gera grein fyrir viðfangsefni sínu með hlutlausum hætti og kanna m.a. eftirfarandi þætti:
1. Skilgreindir verði kostir og gallar breytinga á áfengiskaupaaldri.
2. Könnuð verði reynsla annarra þjóða sem breytt hafa áfengiskaupaaldri.
3. Kannað verði hvernig efla þyrfti forvarna- og eftirlitsstarf til að stuðla að jákvæðum áhrifum slíkra breytinga og hvernig standa þyrfti að undirbúningi.
4. Metin verði áhrif þess til lengri og skemmri tíma að færa áfengiskaupaaldur niður í 18 ár.
5. Metið verði hvort rétt væri að færa áfengiskaupaaldurinn tímabundið niður í 18 ár til að kanna reynslu slíkra breytinga eða hvort eingöngu verði miðað við að færa aldurinn úr 20 í 18 ár að því er varðar létt vín og bjór.
6. Meta hvort rétt væri að skoða samhliða slíkri breytingu að færa aldurinn til ökuleyfis úr 17 í 18 ár og að lækka leyfilegt áfengismagn í blóði 17–20 ára við akstur í 0‰.
Nefndin verði skipuð eftirtöldum aðilum: einum fulltrúa tilnefndum af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, einum tilnefndum af áfengiseftirlitsdeild ríkislögreglustjóra, einum tilnefndum af landlæknisembættinu, einum tilnefndum af landssamtökunum Heimili og skóli og einum tilnefndum af Félagi framhaldsskólanema. Dómsmálaráðherra skipar nefndinni formann án tilnefningar. Nefndin skal vinna í samráði við allsherjarnefnd og skal hún reglulega gera allsherjarnefnd grein fyrir störfum sínum.