Samkvæmt 228. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er refsivert að hnýsast í bréf, skjöl, gögn eða forrit á tölvutæku formi, dagbækur eða önnur slík gögn sem hafa að geyma upplýsingar um einkamál annars manns sé það gert án samþykkis viðkomandi og gögnin fengin með brögðum, bréf opnað, farið í læsta hirslu eða beitt annarri áþekkri aðferð. Þá er það einnig refsivert að hnýsast í hirslu annars manns án nægilegra ástæðna.
Að undanförnu hefur verið rætt um aðgerðir til að vernda börn gegn ofbeldis- og klámefni á Netinu og til að takmarka aðgang þeirra að slíku efni, enda hefur komið í ljós að svokallaðar spjallrásir á Netinu (MSN) hafa reynst börnum hættulegar. Það getur því verið fullt tilefni til eftirlits foreldra að þessu leyti enda ber þeim skylda til að vernda börn sín fyrir aðsteðjandi hættum. Samkvæmt 94. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 ber foreldrum, eftir því sem í þeirra valdi stendur, að vernda börn gegn ofbeldis- og klámefni eða öðru slíku efni, m.a. með því að koma í veg fyrir aðgang þeirra að því.
Í þessu sambandi skal það tekið fram að eftirlit af þessu tagi má hins vegar ekki gera með leynd.Aðalatriðið er að barn á rétt á friðhelgi á heimili sínu og það á ekki að þurfa að sæta því að gengið sé um persónulega muni þess án leyfis. Þessi réttarvernd nær að sjálfsögðu bæði til barna og fullorðinna.